Ofurdriftbíllinn, hinn sérsmíðaði 1.400 hestafla Ford Mustang Mach-E, sem er í eigu driftmeistarans úr Formula Drift, Vaughn Gittin Jr., átti að vera hér á landi í kvikmyndatökum síðasta sumar. Hætt var við þau áform eftir Íslandsheimsókn og myndbandið tekið upp í Færeyjum. Athugið að hlekkur á myndbandið er hér fyrir neðan sem og neðst í greininni.

image

Grænland? Nei, Færeyjar. Fallegt er þar og hlutfall grænnar orku einstakt. Þótti því kjörið að taka myndbandið upp í Færeyjum. Mynd/Ford Performance

Í tvígang hefur undirrituð fjallað um myndbandið, nú síðast í gærkvöldi. Við „grams“ eftir heimildum, svokallað heimildagrams, rakst ég á stutta grein á færeyska vefmiðlinum in.fo. Greinin er dagsett 19. júlí 2021 og þar segir [í þýðingu undirritaðrar]:

„Þegar in.fo hitti kvikmyndatökumenn í Havn [Þórshöfn] í dag sögðust þeir hafa verið á Íslandi en væru komnir til Færeyja „því landið ykkar, hefur hæsta hlutfall grænnar orku á hvern íbúa,“ eins og maðurinn frá Los Angeles komst að orði.“

Svo mörg voru þau orð. Við þóttum einfaldlega ekki nógu græn og væn til að þetta magnaða milljón hestafla myndband yrði tekið upp hér á landi. Maðurinn frá Los Angeles veit hvað hann syngur og hvernig sem litið er á þetta er útkoman algjört meistaraverk. Færeyjar eru sannarlega fallegar og margt megum við eflaust læra af Færeyingunum.

image

Frá tökunum í Færeyjum sl. sumar. Skjáskot/YouTube

Danskur YouTube-strákur, Alexander Husum, flaug til Færeyja í boði Ford og fékk að fylgjast með kvikmyndatökum. Ekki nóg með það heldur fór hann í bíltúr með Vaughn Gittin Jr. á ofurbílnum! Hefði maður nú verið til í það? Jájájá, allan daginn!  

image

Tvær grænar stjörnur: Alexander Husum og Vaughn Gittin Jr. fást báðir við það að skemmta sér og öðrum en með ólíkum hætti þó.

Hér er bútur frá þeim danska: 

Tengdar greinar: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is