Afmælisútgáfur bíltegunda er eitt, en svo eru það sérútgáfur tengdar hinu og þessu sem kosta helling og eru stundum virkilega flottar en stundum alveg út úr kortinu. Eins og Toyota Tundra sem kennd er við Tortímandann og Ferrari sem hefur á sér yfirbragð forn-kínversks leirvasa.  

Þær sérútgáfur sem eru hvað þekktastar eiga oft að endurspegla eða hampa ofurhetjum, heiðra listamenn, afreksíþróttafólk eða þá að þær tengjast stórviðburðum á borð við heimsmeistaramót, Ólympíuleika og fleira í þeim dúr.

Það var umfjöllun á vefnum Road & Track sem kom mér á „sporið“ með grein frá 2020 um ýmsar gerðir bíla sem komið hafa í sérútgáfum og kannski verið dálítið spes. En greinin blessuð, hún var svo vitlaus að ekki er hægt að vitna í hana en ég vildi bara gefa henni stig fyrir góða hugmynd að umfjöllunarefni.

Byrjum á áhugaverðri en óljósri tengingu nokkurra bíltegunda við ökumenn í Formúlu 1.

Mercedes-Benz A160 Edition Häkkinen og Edition Coulthard (1999)

Sem sagt tvær sérútgáfur af A160 bílnum. Báðar voru kynntar á Essen-bílasýningunni í Þýskalandi í nóvember árið 1998 og komu þær á markað 1999.

image

Nú skyldi maður ætla að þarna væri um að ræða öflugri gerðir af A160 en svo var nú ekki. Báðar útgáfurnar voru með 1,6 l. vél sem skilaði hvorki meira né minna en 102 hestöflum. Með þennan risamótor þýddi ekkert annað en tvöfalt púst til að koma öllu pústinu vandræðalaust frá sér.

Þetta er ekki búið, onei onei! Í bílnum voru rauð leðursæti og meira að segja hiti í þeim. Speglarnir voru líka kapítuli út af fyrir sig því þá mátti fella að bílnum og þótti það nú ekki ónýtt, ekki frekar en samlæsingin sem báðar gerðirnar státuðu af.  

Af Mika Häkkinen og David Coulthard sérútgáfunum voru framleidd – og haldið ykkur nú fast – 250 eintök.

image

Auglýsingin fyrir bílana 250 er skemmtileg þó að gæði myndbandsins séu frá annarri öld:

Infiniti FX  Sebastian Vettel (2011)

Það var á bílasýningunni í Genf sem hugmyndin fæddist: Sérútgáfa af Infiniti VX. Formúluökumaðurinn og þá tvöfaldur heimsmeistari, Sebastian Vettel og Shiro Nakamura, hönnunarstjóri Infiniti, áttu svo gott spjall saman að úr varð bíll.

image

Vettel útgáfan hafði margt umfram hefðbundna bílinn og má þar nefna að „Vettel-inn“ var léttari, enginn hraðatakmarkari, með stífari fjöðrun, hærra verð og fleira alveg spes.

Fiat Seicento Sporting Michael Schumacher (2001)

Hér væri aldeilis hægt að segja mikið grín og henda gaman að því hversu súrrealískt það kann að vera að einn mesti ökukappi allra tíma, Michael Schumacher sé tengdur 54 hestafla Fiat sérútgáfuböndum.

image

Schumacher á agnarsmáum bíl sem er næstum fjórðung úr mínútu að komast úr kyrrrstöðu upp í hundrað kílómetra hraða!

Það er nefnilega snilldin í þessu, held ég. Nú þekki ég manninn ekki neitt persónulega en svei mér ef það er ekki nokkuð góður húmor í þessu? Auglýsing sem gerð var fyrir sérútgáfuna (5000 eintök voru framleidd) segir sitt því sposkur á svip virðist Schumacher hafa haft gaman af þessu öllu saman.

Færum okkur þá úr alvöru hetjum yfir í ofurhetjur kvikmyndanna

Toyota Tundra Terminator 3 Special Edition (2003)

Hver vill ekki kenna sig við Tortímandann? Svo ekki sé talað um Tortímandann 3! Það vildi Toyota sannarlega gera, þ.e. kenna sig við Tortímandann 3 því 850 bílar í sérútgáfunni Toyota Tundra Terminator 3 komu á markað á sama tíma og verið var að sýna Tortímandann 3 í kvikmyndahúsum. Það er að segja árið 2003.

image

Hvað var sérstakt við hann? Jú, sérhannað grill, leðursæti, Borla púst og tjah, örugglega eitthvað fleira töff. Það held ég nú!

Nissan Rogue: Rogue One Star Wars Edition (2017)

Hulunni var svipt af Star Wars bílnum á bílasýningunni í Los Angeles síðla árs 2016. Með miklu stolti kynnti markaðsgúbbi Nissan í Bandaríkjunum þessa einstöku hönnun sem átti loks að „færa 131 milljón bandarískra Star Wars aðdáenda bíl“ sem talist gat þeim samboðinn.

image

Hvernig þá? Jú, í bílnum voru fjölmörg atriði sem áttu að gleðja aðdáendurna: Merki sem sagði að þetta væri alveg spes Star Wars bíll og… það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu. Markaðsnáunginn gerði það svo vel (með öllu andlitinu) að þetta myndband segir allt sem segja þarf:

Það er kannski svolítið spes að gleðja 131 milljón bandarískra Star Wars aðdáenda með ökutæki sem framleitt var í 5.000 eintökum.

Örstutt innlit í tískuheiminn

Lamborghini Murciélago LP640 VERSACE

Í tilefni af tískuvikunni í Mílanó árið 2006 voru 20 eintök smíðuð af bíl sem Lamborghini og Versace kynntu sem samstarfsverkefni. Jújú, þetta er hörkubíll, það er engin spurning Spurningin er bara hvaða Versace-áhrifa gætir í þessum ákaflega sérstaka bíl?

image

Jú, það var mýktin í innréttingunni og áferðin á öllu sem var svona svakalega spes. Mynstur og tákn og alls konar fínerí sem gæti hæglega farið framhjá einhverjum með tískublindu, eins og undirritaðri. 10 svartir og 10 hvítir bílar voru framleiddir en hér komum við að því skemmtilega!

 Arg! Get.Ekki.Meira.

Nánari útlistingar á þessari ógurlegu sérútgáfu er að finna hér.

Og síðast en ekki síst forn-menning og listir

Ferrari 599 GTB Fiorano China limited (2006)

599 GTB er eina gerðin af Ferrari sem undirrituð hefur ekið og á hann sérstakan stað í mínu V12 hjarta. Þess vegna hóstaði ég pínulítið við þessa sjón hér:

image

Lu Hao var fyrsti kínverski listamaðurinn sem Ferrari fékk með sér í lið. Það sem Lu Hao gerði var að búa til mynstur sem vísaði í hina fornu kínversku leirkeragerð og skartaði bíllinn mynstrinu merka.

image

Í augum ólærðs leikmanns minnir þetta (vasar og leirker) helst á eitthvað sprungið og ónýtt sem á að henda en í raun er þetta ómetanleg list sem á rætur að rekja til fornrar menningar sem er næstum eldri en sjálf sólin.

Hafi ég ekki misskilið þetta um of þá voru eintökin 12 talsins af sérútgáfu Lu Hao. Árið 2009 var einn af þeim seldur á uppboði fyrir 1.75 milljónir bandaríkjadala (um 221 mkr.)

Hér má sjá þetta verða til og listamanninn sjálfan að störfum:

[Birtist fyrst í febrúar 2022]

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is