Við könnumst nú flest við „Michelin-manninn“ sem er bjartur og búttaður. En vitum við eitthvað um hann? Undirrituð vissi ekki neitt um hann þar til fyrir skömmu síðan.

image

Þessi pattaralegi heillakarl eða lukkugripur á sér nafn. Það er Bibendum. Bibendum er eldgamall því saga hans nær alveg aftur til 1898. Raunar segir sagan að hugmyndin að fígúrunni hafi kviknað árið 1894 á iðnaðarsýningu í Lyon í Frakklandi þar sem bræðurnir Édouard og André Michelin munu hafa verið staddir.

Annar bróðirinn, Édouard, á að hafa bent á dekkjastafla og sagt: „Sjáðu bara! Með hendur og fætur yrði þetta líkast manni.“

image

Á fætur með manninn! Svona sá einn teiknara fyrirtækisins bræðurna fyrir sér þegar hugmyndinni um Michelin-manninn laust niður.

Eftir að hafa útskýrt hugmyndina fyrir félaga þeirra bræðra, listamanni að nafni Marius Rossillon, dró hann nokkrar línur á blað og gæddi Michelin-manninn „lífi“ ef svo má segja. Rétt er að geta þess að listamannsnafn Rossillons var O´Galop. Í raun og veru varð hann þekktastur fyrir það sköpunarverk sem hér er fjallað um.  

image

Ein af fyrstu skissum teiknarans O´Galop af Bibendum, eða Bib.

Sama ár og O´Galop rissaði upp Michelin-manninn varð hann, altsvo Michelin-maðurinn, að fígúru á stóru auglýsingaspjaldi sem var til sýnis við Michelin kynningarbásinn á bílasýningunni í París (Paris Motor Show) sem fór þá fram í fyrsta skipti og lesa má um t.d. hér.

image

Þetta er það sem gestir á fyrstu bílasýningunni í París, 1898, sáu við Michelin básinn. Vakti dekkjakarlinn mikla lukku þegar í stað.

Byrjaði ferilinn sem óásjáleg vera

Þar sem flennistór Michelin-maðurinn á veggspjaldinu blasti við sýningargestum kom fljótt í ljós að hann vakti lukku og athygli. Upp frá því kom fólk sérstaklega til að sjá kauða og til að sjá upp á hverju teiknarinn hafði tekið í það og það skiptið. Þetta var ekki ónýtt því með þessu móti var hægt að nálgast viðskiptavini og mynda tengsl.

Bibendum, eða Bib eins og einnig má kalla Michelin-manninn, hefur ekki alltaf verið góðlegur að sjá. Nei, síður en svo.

Í upphafi var Bib nefnilega ógurlegur ásýndum. Alveg agalega ljótur, svo það sé nú orðað snyrtilega.

image

Raunar er þetta fyrsta auglýsingaspjaldið þar sem Michelin-maðurinn kom fyrir sjónir almennings en vakti auðvitað ekki nokkra athygli í samanburði við opinberunina á fyrstu bílasýningunni í París það sama ár.

Í auglýsingum mátti sjá Bib með glas í annarri og orðin „Nunc est Bibendum“ stóðu skrifuð (eins og sést á meðfylgjandi mynd).

Þetta er latína, partýtungumál fyrri alda, og er þýðing þessa orða „nú er sko tími fyrir sjúss,“ í nútímaþýðingu undirritaðrar. Annars mætti heldur þýða þetta svona: „Stund gefst nú til drykkju“ eða eitthvað í þá veru.

image

Bikar Bibs var barmafullur af nöglum og glerbrotum sem áttu að sýna hversu harðger og góð Michelin dekkin væru; það þyrfti nú eitthvað meira en smárusl til að gata þau!

image

Áttunarvandi, misbrestir og misskilningur

Jú, það tók sinn tíma að finna út hvers lags náungi Bib átti að verða.

image

Hann „prófaði“ eitt og annað á þessum árum og fór í gegnum nokkur tímabil. Bib átti á þessu skeiði ýmist að koma fólki fyrir sjónir sem eins konar skylmingaþræll, bardagakappi, fimur dansari (fyrir ítalska markaðinn) og jafnvel sem kvennabósi eða nautnabelgur sem púaði vindla og drakk öl eða freyðivín.

Það síðastnefnda var hugsað með það fyrir augum að ná til efnafólks sem hafði ráð á bíl.

image

Bib kemur niður á jörðina

Loks róaðist Bib á þriðja áratug síðustu aldar og smám saman varð hann tiltölulega fágaður í háttum og um leið fjölskylduvænni en hann hafði nokkurn tíma verið.

image

Hér er hann ekki alveg kominn niður á jörðina.

Hann hætti ýmsu ósiðlegu og áður en langt um leið var mun heilbrigðara líferni smám saman farið að einkenna þennan nýja Bib sem var í mótun.

image

Ekki mjög vinsamlegar fígúrur að sjá og hreinlega bara óhugnanlegar en það lagaðist með tímanum.

Hann hætti allri áfengisneyslu og snarhætti að reykja. Svo mikil var breytingin að hann var meira að segja farinn að stunda einhverja hreyfingu.

image

Hættur að reykja? Tjah, greinilega ekki alveg.

Honum brá fyrir á reiðhjóli, hlaupandi og fleira í þeim dúr. Eðli máls samkvæmt losnaði hann við einhver reiðinnar býsn af fitu sem fyrra líferni hafði hlaðið á hann. Nú léttist hann og varð allur kraftalegri á að líta og nýr lífsstíll skilaði sér fljótt því Bib hafði aldrei litið betur út.  

image

Hann virtist seint ætla að losa sig við fretstertinn og reykti eins og strompur. En hann var farinn að hjóla og svona.

image

Á veggspjaldi frá fyrrihluta 20. aldar má sjá Bib hjálpa fjölskyldu í vanda en dekk hafði greinilega sprungið á bíl þeirra. Þá birtist Bib, reyndar ekki hættur að reykja á þessum tímapunkti, en hvað um það. Á veggspjaldinu sést hvernig hann gefur fjölskyldunni stærsta dekkið úr sér - sjálft miðjudekkið svo að sést í gegnum kviðarholið á kauða.

image

Vinstra megin má sjá hvernig „gamli“ Bibendum hefði brugðist við. Hægra megin er hann bara indæll og opnar á sér belginn til að hjálpa fólkinu.

Þá voru dekkin hvít

Fram til ársins 1912, segir á síðu Michelin, voru dekkin hvít eða ljósgrá en ekki svört á litinn. Síðar var kolefni bætt í „uppskriftina“ og  bæði var það fúavörn og dekkin urðu slitsterkari. En Michelin-maðurinn fékk ekkert kolefni og hefur því verið hvítur alla tíð.

image

Bibendum og hundurinn Bubbles hafa sést saman í seinni tíð. Þeir virðast hafa svipað genamengi.

Orðlaus í 120 ár

Bib hefur ekki haft margt að segja síðan í París árið 1898 en undirrituð áttaði sig hreint ekki á því hvað hann mun hafa sagt þá. Það var einhvers konar sýning þar sem Bib var hnyttinn og talaði í hálfkveðnum vísum og mun það hafa vakið áhuga. Raunar svo mikinn áhuga að lögregla þurfti að koma röð og reglu á mannþvöguna.

image

Í það minnsta fylgir fæstum orðum minnst ábyrgð og hefur Bib verið þögull alla tíð síðan. Enda er hann þessi stóra, sterka og þögla týpa.

image

Batnandi Michelin-manni er jú best að lifa og hann lifir enn. Hundgamall. Við skiljum við hann þar sem hann er óðum að bæta sig og reynir að höfða ekki bara til ríkra pótintáta heldur alþýðunnar. En það er ekki þar með sagt að öll sagan sé sögð!

image

Alls ekki. Það er bara betra að éta ekki allan Bib í einum bita og því verður framhald á þessari furðusögu úr sagnasarpi. En engar áhyggjur! Það versta er búið og ljótustu hliðar Bibs hafa nú þegar komið fram.

Hér er sagan einfölduð umtalsvert en gaman að þessu engu að síður:

[Birtist fyrst í desember 2021]

Fyrst við erum nú komin hingað á slóðir hins sögufræga: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is