Eitt svakalegasta umferðaröngþveiti sögunnar varð í kringum friðarsamkomuna miklu: Woodstock ´69. Það var líka eins gott því annars hefði fúkyrðaflaumurinn og handapatið orðið óskaplegt. Í staðinn tóku hipparnir vandræðunum brosandi, vopnaðir blómum, ást og tónlist.

image

Það hafði enginn hugmynd um að tónlistarsamkoman yrði eins vinsæl og raun bar vitni. Í upphafi stóð til að selja um 40.000 miða á Woodstock en þetta varð eins og hömlulaust teiti í Dúfnahólum 10 (vísun í myndina Sódóma Reykjavík, svo því sé til haga haldið).

Allir voru á leiðinni þangað, fæstum var „boðið“ en fólk bara mætti á staðinn og gleðin var allsráðandi. Þ.e. á Woodstock.

image

Fólkið, gítararnir og bílarnir

Þegar um 200.000 gestir (segja sumar heimildir að 186.000 miðar hafi selst) voru mættir var talningu hætt og fólkið beinlínis gutlaðist á staðinn. Í það minnsta kom það ekki akandi. Nei, allt var stopp um það bil 32 kílómetrum frá tónleikastaðnum (frá Bethel til Woodstock). En það var nú lítið mál.

image

Eitt feitt og friðsamlegt umferðaröngþveiti. Það var nú ekkert til að hafa orð á. Fólk tók gítarinn og „nestið“ úr bílnum og gekk af stað.

image

Svona eins og ef allt væri stopp við Rauðavatn og við værum á leið til Hveragerðis: Ekkert mál. Allir út! Gítar? Tékk. Tannbursti? Tékk. Friðarpípa? Tékk.

Svo var arkað af stað. Fáir virtust síðar muna hvar bíllinn hafði verið skilinn eftir, né heldur hvernig komist var á leiðarenda; þetta var bara eitt æðislegt „geim“ og annað skipti ekki máli.

image

Hvort gestirnir sem í upphafi áttu að vera 50.000 talsins urðu 500.000 eða milljón, skipti heldur ekki máli. Enda enginn sem virtist geta staðfest fjölda gesta þar sem enginn var að telja. En nú er varasamt að vera beturviti því ég var ekki á staðnum. Reyndar var ég hvergi því ég var ekki einu sinni fædd.

image

Sleppti Woodstock út af sjónvarpsþætti

Þyrlur fluttu margan tónlistarmanninn úr þvögunni yfir á tónleikastaðinn en sumir gáfust upp. Má þar nefna kanadísku tónlistarkonuna Joni Mitchell en hún var eitthvað stressuð, þvert á öll lögmál Woodstock-hátíðarinnar, því hún [Mitchell) átti að mæta í einhvern sjónvarpsþátt (The Dick Cavett Show) nokkrum dögum síðar og sleppti því Woodstock. Merkustu tónlistarhátíð sögunnar, að margra mati.

image

Joni Mitchell og Dick Cavett í þættinum mikilvæga. Skjáskot/YouTube (hlekkur hér fyrir ofan).

Frekar óheppilegt þar sem hún hafði samið lagið Woodstock; lag sem hún ætlaði auðvitað að frumflytja á hátíðinni.

Ef ég set þetta í samhengi þá getur maður gert sér í hugarlund að sá sem ætlaði að flytja þjóðhátíðarlagið úti í Eyjum hafi ekki viljað fara með Herjólfi í úfnum sjó, því hann átti að mæta til Gísla Marteins nokkrum dögum síðar. Mánuði seinna flytur hann svo lagið í Salnum í Kópavogi á sönglagahátíðinni Aldrei fór ég í Garðabæinn.

Bara svona heimatilbúið hafnfirskt dæmi.

image

Hvort hún var leið yfir því að hafa ekki haldið uppi fjörinu á Woodstock með laginu Woodstock, er ekki gott að segja. En þessi mynd var tekin á sviði Big Sur ´69 og Joni Mitchell virkar ekki mjög kát. En hvað veit maður? Kannski var hún akkúrat að borða þegar myndin var tekin.

En hvað með umferðina og bílana?

Það var ekki ætlunin að leyfa tónlistinni að gleypa þessa umfjöllun. Þannig að hér segi ég STOPP, rétt eins og á New York Thruway í ágústmánuði miðjum árið 1969. Allt stopp og engin grið gefin. Þó að friðarboðskapur blómafólksins hafi ekki stöðvað stríð þann daginn þá stöðvaðist umferðin svo rækilega að umferðaröngþveitið sem skapaðist er talið eitt það svakalegasta í sögunni þar vestra, eins og kom fram í upphafi greinar.

image

Umferðaróhöpp voru ótrúlega fá og eitt barn gat ekki beðið lengur í umferðarstíflunni eftir því að koma í heiminn og fæddist í bílnum. Það er kannski ekki algengt að börn fæðist í umferðarteppu en þarna gerðist það og reyndar er rétt um vika síðan barn fæddist í voðalegri bílaröð. En það er nú önnur saga.  

image

Richie Havens bjargar málunum

Hafi einhverjir velt því fyrir sér af hverju Richie Havens stökk fyrstur upp á svið á Woodstock og spilaði þar á einn streng (smá ýkjur, ég ruglaði saman tönnum og strengjum) í þrjá klukkutíma...þá var það einfaldlega af því að flestir aðrir sem koma áttu fram voru pikkfastir í umferðarþvögunni.

image

Þeir tónlistarflytjendur sem ekki voru fastir í umferðinni voru víst ekki í „standi“ til að koma fram með svo skömmum fyrirvara.

image

Skipuleggjendur hreinlega fóru á límingunum og vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Í bókinni The Road to Woodstock greindi skipuleggjandi hátíðarinnar, Michael Lang, frá því að Richie Havens hafi átt að vera sá fimmti í röð flytjenda fyrsta dag Woodstock hátíðarinnar.

Þegar fyrstu flytjendur fundust hvergi varð Havens fyrir valinu því hann þótti með eindæmum rólegur en sviðsframkoma hans þótti að sama skapi mögnuð.

image

Það var eins gott að Havens var svona líka rólegur, því margir fylgdust með honum á sviðinu. Hann höndlaði „pressuna“ vel. 

Þegar næsti flytjandi (á eftir Havens skv. upphaflegu skipulagi) virtist einnig vera stopp í umferðarþvögunni miklu varð úr að Richie Havens hélt bara áfram uppi á sviði. Og það gerði hann í nokkrar klukkustundir.

image

Þannig að umferðartafirnar komu Havens heitnum (dó 2013) heldur betur á kortið, bæði sem flytjanda og hetju upphafsdags Woodstock-hátíðarinnar.

image

Það rigndi einhver lifandis ósköp þessa helgi (15.-18. ágúst) og myndaðist voldugt drullusvað út um allt á svæðinu. Sumir af þeim bílum, sem tókst að koma inn á svæðið áður en stíflan myndaðist, sátu pikkfastir í drullu. Mýrarbolti var út um allt á Woodstock, bara án bolta.

Ferðalagið til Woodstock

Á vef Flórídaháskóla birtust þann 15. ágúst 2019 endurminningar konu (starfsmanns háskólans) sem fór á hátíðina sléttum fimmtíu árum áður. Hún, Adele LaBrake Spann, var 19 ára sumarið ´69. Minnist hún þess að hafa, ásamt vinkonum, hitt töffara á ströndinni í Cape Cod í Massachusetts. Þeir sögðu þeim frá Woodstock-hátíðinni sem átti að hefjast innan skamms og stelpurnar skunduðu inn í VW bjöllu sem Adele átti og héldu af stað.

image

„Við ókum á eftir strákunum 207 mílna leið að hátíðarsvæðinu. Eftir því sem nær dró, þéttist umferðin og það var stuðari í stuðara. Umferðin mjakaðist löturhægt og tók ferðin rúma átta tíma. Bílarnir í þvögunni voru fullir af ungu fólki á leið á Woodstock. Þrátt fyrir öngþveitið voru allir vingjarnlegir, brosandi og glaðir. Og það sama átti við um okkur,“ greindi konan frá hálfri öld síðar.  

image

„Þegar við loks komum að veginum sem lá frá bænum til hátíðarsvæðisins, fáeinum mílum frá hraðbrautinni, stöðvaðist umferðin alveg. Enginn komst neitt. Hvorki aftur á bak né áfram. Þannig að ég gerði bara eins og aðrir á sömu leið; ók út í kant og lagði fyrir aftan alla hina.  

Og þar stóð bíllinn í þrjá daga.

image

Minningin lifir og miðinn sömuleiðis

„Þetta var dásamlegur sólskinsdagur og allt iðjagrænt í kring, hvert sem litið var. Ekki man ég hversu langt við þurftum að ganga né heldur hve langan tíma það tók okkur að ganga að tónleikasvæðinu. Við fylgdum bara mannfjöldanum og gleðin var við völd,“ segir konan.

image

Aðeins ein þeirra vinkvenna sem fóru saman á Woodstock, Barbara að nafni, átti miða á hátíðina. Miðann hafði hún keypt á 17 dollara af einum af töffurunum sem þær kynntust á ströndinni um hálfum sólarhring fyrr.

image

Miðinn góði.

Skemmst er frá því að segja að töffarana af ströndinni hittu þær ekki aftur en vinkonunum þremur tókst til allrar hamingju að halda hópinn. Bílinn fundu þær aftur, enda sváfu þær í blessaðri bjöllunni á nóttunni.

image

Hvar er húfan mín, hvar er bíllinn…?

Ekki reyndust allir það glöggir og lánsamir að ramba beint á bílinn sinn að Woodstock-hátíðinni lokinni. Enda á bilinu 40.000 til 200.000 bílar á víð og dreif á svæðinu.

image

Jæja, ótal gestir hátíðarinnar örkuðu loks af stað að dagskrá lokinni. Eins og sjá má á myndum var úrhelli þann daginn...nei, bíðum við? Það var úrhelli drjúgan hluta þess tíma er Woodstock-hátíðin stóð. Þetta var víst algjör viðbjóður en þrátt fyrir allt virðist sá hluti algjört smáatriði. Í það minnsta er Woodstock-hátíðin alla jafna sveipuð töfraljóma og hefur alltaf verið.

image

Mesta drullumall sem sögur fara af og einn ógurlegasti umferðarhnútur sögunnar verða því að algjörum smáatriðum þegar fjallað er um Woodstock.

image

Hér er einstaklega góð upptaka, tekin úr lofti af bílaþvögunni:

[Greinin birtist fyrst í nóvember 2021]

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is