Við getum keypt pylsur, kókómjólk og annað snarl í gegnum bílalúgu hér á landi, og jú, apótekin maður! Nokkur apótek bjóða upp á afgreiðslu gegnum bílalúgu og það er algjör snilld! En banki með bílalúgu? Nei, ekki á Íslandi. Ekki í dag alla vega.

Skothelt gler milli gjaldkera og ökumanns

Á vefsíðu dagblaðsins The Mountain Eagle segir frá að þann 12. nóvember 1946 hafi Exchange National bankinn í Chicago, fyrstur allra banka, opnað bankabílalúgu.

image

Sem sjaldnast út úr bílnum

Þessari undursamlegu nýjung, bankabílalúgunni, var tekið fagnandi og varð hún fljótt að menningarfyrirbæri vestra sem breiddist út um öll Bandaríkin á undraverðum hraða.

Ódýrt eldsneyti sem nóg virtist vera til af, fínir bílar og þægindaþankagangur fólks gerði það að verkum að best þótti að þurfa ekki að fara út úr bílnum til að sækja þjónustu og skemmtun.

Bílabíó, bankabílalúgur, beint í bílinn og allt það, hentaði býsna vel og í námunda við hraðbrautirnar var (og er) margt af þessu að finna.

image

Því sjaldnar út úr bílnum, því betra. Mynd/Unsplash

Fáeinum árum eftir að bankinn í Chicago tók af skarið árið 1946, opnuðu bankabílalúgur víða í Ástralíu og Bretlandi sömuleiðis. Vinsældir og eftirspurn eftir slíkum lúgum hefur ekki endilega dvínað með árunum, heldur breyst. Hraðbankar eru til víða sem hægt er að „eiga viðskipti við“ án þess að stíga út úr bílnum og án þess að tala þurfi við aðra manneskju.

Íslenskir bankar og bílalúgur

Sennilega eru dæmin tvö um bankaþjónustu gegnum bílalúgu hér á landi. HIð fyrra er Verslunarbankinn sem bauð upp á slíka þjónustu snemma á áttunda áratugnum í útibúinu að Laugavegi 172. Hitt dæmið er útibú Landsbankans að Fjallkonuvegi 1 í Grafarvogi og var sú þjónusta kynnt 1995 eins og lesa má um hér fyrir neðan:

image

Frétt Morgunblaðsins frá 30. september 1995.

Svo er það auðvitað þessi „nýjung“ þarna, hvað heitir þetta nú aftur? Já, heimabanki eða netbanki. Það fyrirbæri er sannarlega ógn við bankabílalúgurnar. En svei mér ef það er bara ekki í besta lagi!

Gátu menn jafnvel púað sína sígarettu meðan á afgreiðslu stóð, eins og sjá má í þessu stutta myndskeiði hér frá árinu 1957:

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is