Það er auðvitað dýrðarinnar dásemd að vita til þess að til sé eyja, grísk eyja, sem er gjörsamlega laus við mengun frá bílum. En er það alveg í lagi að lögregla á eyju þar sem íbúar eru 300 talsins hafi tvo löggubíla til umráða? Bara smá pæling svona í morgunsárið.

image

Citroën Ami er aðeins breiðari en bústin manneskja og kemst á milli húsa á Halki.

Í ljós kom að umfjöllunarefnið var í rauninni ekki þessi tiltekni lögreglubíll (ég var smástund að pússa rykið af spænskunni minni og misskildi eitt og annað í millitíðinni) heldur að að Citroën hefur lagt til sex bíla í umhverfisverkefni á eyjunni. Þar af tvo lögreglubíla.

Látið öll þessi heiti ekki rugla ykkur í morgunsárið lesendur góðir. Við erum alveg að koma að kjarna málsins. Kjarnanum sem er svo spes að hann jafnast á við rótsterkan kaffibolla (en fáið ykkur samt endilega kaffi líka en gætið þess að sitja þegar framhaldið er lesið).

Einn löggubíll á hverja 150 íbúa

Gríska eyjan Chalki (Χάλκη en borið fram Halki) er 28 km2 að flatarmáli. Til samanburðar eru Vestmannaeyjar 16 km2 og Heimaey er 13,4 km2.

Eitthvað virðist erfitt að telja þessar hræður þannig að tölum ber ekki saman og set ég því inn tvo hlekki hér að ofan. Sjálf hef ég ekki komið til Halki en ef ég færi þangað yrði það mitt fyrsta verk að telja fólkið til að fá úr þessu skorið. Að vetrarlagi helst, því þá eru færri þarna og auðveldara að telja.

Nú hefur bílaframleiðandinn franski, sem fyrr segir, látið lögreglu„liði“ eyjarskeggja í té tvo rafbíla. Það þýðir einn lögreglubíll á hverja 150 íbúa. Að því gefnu að lögreglubíl (eða lögreglubílum) sem var þar fyrir, hafi verið gefið frí. Annars lækkar talan (þ.e. fjöldi lögreglubíla per íbúa, nú eða fjöldi íbúa per lögreglubíl... Ég er af málabraut sko.).

image

Bílarnir sex frá Citroën. Í miðjunni eru löggubílarnir tveir. Agnarsmáir. Mynd/Citroën.

Fyrst ég notaði Vestmannaeyjar (Heimaey) til samanburðar við Halki þá er vel við hæfi að halda því áfram. Hefðu Vestmannaeyjar orðið fyrir valinu í verkefni sem þessu (græn eyja - vistvænar samgöngur - „núll losun“) og Citroën lagt til lögreglubíla (rafbíla auðvitað) þá hefðu bílarnir orðið tuttugu og níu talsins.  

image

Íbúafjöldi Heimaeyjar er 4.347 manns og ef maður vill bera þessar litlu eyjar saman þá þyrfti Citroën að leggja til 29 bíla ef um Heimaey væri að ræða en ekki Halki. Þá skilur maður vel að Halki skyldi verða fyrir valinu.  

Af hverju Halki?

Án þess að gert sé lítið úr þessari litlu eyju þá er það nú svo að hún er af ýmsum talin ákjósanleg til að gegna hlutverki „miðstöðvar vistvænna samgangna“ með „núll losun“. Það er auðvitað snilld en á eyjunni er bara einn „alvöru“ vegur. Hann var ekki malbikaður þegar myndir voru teknar þar síðast (fyrir sléttum tveimur árum) fyrir Google Jörð (Google Earth) enda voru myndirnar teknar úr lofti því Google Jarðarbíllinn átti ekkert erindi þangað.

image

Skjáskot af Halki tekið af Google Jörð. Mynd/GoogleEarth

Þar eru eiginlega engir vegir fyrir hann (Google-bílinn) til að aka eftir. Það er ekki hægt að skoða eyjuna með „Street View“ því það eru engin stræti til að góna eftir.

Nú gætu þessi skrif virst allneikvæð og eiturblandin þar sem undirrituð virðist finna lítilli veglausri grískri eyju allt til foráttu, en það er nú ekki svo heldur er ég einfaldlega gapandi gáttuð á því að þessi staður á jarðarkúlunni hafi orðið fyrir valinu sem „vagga vistvænna samgangna“. Er þetta kannski ein birtingarmynd afbrýðisemi?

Einhvers staðar þarf jú að byrja en það er spes að það sé einmitt á stað sem lítið reynir á samgöngur á landi. Á eyju þar sem bílarnir eru svo fáir að þá má telja á loftmynd. Fólksfjölgun er eiginlega ekki á Halki. Fyrsta barnið sem fæðst hefur þar í hálfa öld fæddist einmitt í júlí 2021.

Það er ósk mín að þetta verkefni verði öðrum eyríkjum innblástur (alls ekki útblástur) til að hraða orkuskiptum í samgöngum. Sem eyjarskeggi tek ég þetta til mín. Við getum gert betur þó að við stöndum okkur vissulega alls ekki illa.

Er ekki hægt að gera einhverja eyju (þar sem er allavega bíll og helst vegur - ekki Kolbeinsey eða Surtsey) græna? „Núll losunar-eyju“? Ekki til þess að fá „gefins“ löggubíla frá Citroën eða öðrum framleiðendum heldur til að vera forkólfar í umhverfisvænum samgöngum og góð fyrirmynd.

Spyr ég og man þá að best er að byrja á sjálfum sér í stað þess að benda á aðra. Er einhver þarna úti sem tekur að sér að breyta 28 ára gömlum BMW E34 í vetnisbíl...

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is