Nú myndu einhverjir halda að Hamilton ætlaði sér að gerast ökukennari en svo er ekki. Hann hefur sennilega ekki tíma til þess, auk þess sem það er eflaust mun hættulegara starf en að vera ökumaður í Formúlu 1. En hvað ætlar hann að kenna?

Hvað getur sigursælasti ökumaður sögunnar í Formúlu 1 kennt manni? Jú,alveg heilan helling hugsa ég.

Námskeiðin sem um ræðir eru margþætt en miða flest að því að kenna fólki að ná árangri með það sem það hefur í höndunum: Sjálft sig.

Annað hvort Súperman eða formúluökumaður

Af einhverjum ástæðum valdi Hamilton það síðarnefnda. Formúluökumaður er hann og ekki nóg með það, heldur sá ökumaður sem hefur náð hvað bestum árangri á þeim vettvangi.

En aftur að Súpermann: „Þegar ég var fjögurra eða fimm ára gamall ætlaði ég annað hvort að verða Súpermann eða meistari í Formúlu 1,“ segir hann í kynningarmyndbandi sem er hér neðst.

Hann lýsir því hvernig allt breytist því á augnabliki sem hann setur skyggnið niður á keppnishjálminum; Þá fer heilinn í annan „ham“ sem býr yfir allt öðrum eiginleikum og getu en sá sem er virkur þegar hjálmurinn er fjarri. Eins og hann orðar það svo skemmtilega: „Og þar er oktantalan mun hærri.“

image

Þarna breytist allt: Skyggnið fer niður og þá fer heilinn á aðra stillingu! Mynd:2020 Abu Dhabi Grand Prix/Mercedes/Steve Etherington

Þetta er áhugavert að mati undirrtaðrar. Hann hefur vissulega náð langt en er hvergi nærri farinn að slá slöku við og vera kærulaus. Þvert á móti. „Sem íþróttamaður skoða ég stöðugt hvernig ég get gert betur,“ segir hann.

Snilldin í því að vera spes og hvernig græða má á því

„Þegar ég var yngri, reyndi ég að verða hluti af hópnum og verða eins og hinir. En svo lærði ég að sættast við það sem gerir mig að þeim manni sem ég er. Síðan þá hef ég ekki viljað vera neinn annar. Í MasterClass ætla ég að kenna fólki hvernig nýta má einstaklingseðlið og persónueinkenni hvers og eins til að ná markmiðum,“ skrifaði Hamilton á Twitter í dag.

image

2021 British Grand Prix. Mynd/Mercedes/Steve Etherington

Hvað svo sem mönnum kann að finnast um Hamilton þá er ekki hægt að neita því að eitthvað hefur hann umfram frekar marga. Meira að segja hörðustu andstæðingar hans sjá það og vita að hann er sultugóður ökumaður. Og þeir sem leggjast svo lágt að hæðast að honum vegna húðlitar hans; þeir vita það eflaust líka sem og það að hann hefur eitthvað alveg einstakt sem þeir sennilega hafa ekki sjálfir. Á námskeið með þá!

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is