Lögreglumenn heyra hinar ýmsu afsakanir þegar þeir stoppa ökumenn vegna hraðaksturs. Sumir ökumenn eru auðvitað bara bölvaðir dónar og ekkert gaman að þeim en svo eru aðrir sem eru hreinlega fyndnir og sniðugir í tilsvörum þegar þeir eru staðnir að verki og reyna að komast hjá sektum.

image

Verstu og bestu afsakanirnar hafa ratað á ýmsar vefsíður en erfitt er að rekja uppruna þeirra. Nokkur dæmi eru af bandarísku vefsíðunni police1.com en annars er þetta héðan og þaðan. Aðallega þaðan.

Hér eru nokkur gullkorn og einhver bullkorn líka:

„Ég er með kvef og í hvert skipti sem ég hósta fer fóturinn ósjálfrátt á bensíngjöfina.“

Það hafði snjóað hressilega og lögreglumaður mældi bíl á 90 km/klst þar sem hámarkið var 50. Þegar konan sem ók bílnum hafði numið staðar horfði hún pirruð á löggimann og sagði: „Döh, ég veit alveg að ég ók hratt. Ég var bara að reyna að losna við snjóinn á framrúðunni svo ég gæti séð hvert ég væri að fara!“

image

Lögreglumaður stöðvaði gaur á 115 kílómetra hraða þar sem hámarkið var 80. Sá var að flýta sér á McDonalds áður en morgunverðinum lyki.

Löggan stöðvaði mann sem hafði ekið allt of hratt. Maðurinn sagði að góð ástæða væri fyrir hraðakstrinum: Hann hafði sett allt of mikla olíu á vélina og nú þyrfti hann að aka mjög hratt til að brenna olíunni...  

Eldri frú gaf lögreglunni þá skýringu að bensíngjöfin væri brotin og hún færi því alltaf svona hratt. Og ekkert við því að gera.

Stundum geta laganna verðir ekki annað en brosað og spilað með

Lögreglumaður nokkur stöðvaði ökumann á Corvettu seint um kvöld á þjóðvegi þar sem umferð var með rólegasta móti. Ók maðurinn býsna greitt, eða á 160 km/klst en hámarkshraði var 90. Lögreglumaðurinn sagði: „Þú ókst ekki heldur flaugst! Þú ferð beinustu leið í grjótið, nema náttúrulega að þú sért með flugskírteini.“ Og jú, maðurinn rétti honum skírteinið og löggimann leyfði flugmanninum að fara sína leið án þess að hafa um það fleiri orð.

image

Áhugi á Formúlu 1 er útbreiddur en vandasamt að nota þann áhuga til að afsaka hraðakstur þegar lögreglan stoppar mann. En þessi reyndi: „Þetta var ekki hraðakstur. Þetta var tímataka.“

image

Sautján ára gutti ók 40 kílómetrum yfir leyfilegum hámarkshraða. Þegar löggan spurði af hverju hann hefði ekið svo greitt horfði guttinn á hann galtómum augum og svaraði: „Því ég er bara svona alls konar heimskur.“

image

Kona á níræðisaldri: „Ég ek nú bara svona hratt svo ég gleymi ekki hvert ég er að fara.“

„Ég biðst innilega afsökunar. Ég hreinlega sá ekkert á hraðamælinn svona gleraugnalaus.“

[Birtist fyrst í nóvember 2021]

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is