Maður nokkur í Hollandi var kampakátur þegar hann gat hlaðið Mustang Mach-e rafbílinn sinn í hraðhleðslustöð Tesla í dag. Hann setti mynd af bílnum á hleðslustöðinni inn á Twitter og skrifaði: „Þetta virkar! Er að hlaða Ford Mach-e á hraðhleðslustöð Tesla í Naarden.“... og drullan sem hann hefur fengið yfir sig frá Tesla eigendum í kjölfarið!

Maður minn! Fólkið segir honum að láta hleðslustöðvarnar „þeirra“ í friði og að hann sé „fyrir öllum“, „taki allt of mikið pláss“ og „blokkeri göturnar“ og ég veit ekki hvað og hvað.

„Þetta er ekki sniðugt. Við fjárfestum í þessu, ekki þú!“ skrifar einn ofurréttlátur.

En bíðum nú hæg?

Fólk er fljótt að trompast og skrifa ljótt á netið. Rafbílarígurinn, þ.e. „minn er betri en þinn“ minnir stundum á ofsatrú þar sem fólk lætur hluti út úr sér án þess að hugsa. Það er blindað af sannfæringu sem byggð er á tilfinningum en ekki endilega staðreyndum.

„Við erum ekki að tala um almenna bíladellu hér, alls ekki. Við erum að tala um eitthvað sem nálgast trúarbrögð. Í sumum tilfellum gæti maður ímyndað sér að fólkið sem er verst haldið af þessum kvilla sé að ræða baráttu hins góða við hið illa þegar það predikar yfir þér um átrúnaðinn sinn. Stundum myndast einskonar trúarsöfnuðir þegar „trúbræðurnir“ koma saman. „Fagnaðarerindinu“ er dreift út um allt og alltaf og hæðst að og gert lítið úr öllum þeim sem hafa ekki sömu trú.“

„Mér verður óglatt af að sjá þetta,“ skrifar einn við færslu mannsins. Færslu sem átti að vera saklaus „jibbí“færsla en varð að styrjaldarfærslu.

Ef þetta er ekki enn ein áminningin um það að hugsa áður en skrifað er á samfélagsmiðla þá veit ég ekki hvað.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is