Eftir birtingu greinar um hið umdeilda grill á Lexus LX, sem kynntur var í síðustu viku, er ekki úr vegi að skoða fleiri grill sem augun eiga eftir að venjast á bílum næsta árs.  

image

Grillið sem grillaði ærlega í lesendum. Lexus LX 2022: Hann er þarna fyrir aftan grillið blessaður! Mynd/Lexus Europe

Viðbrögð þeirra sem létu skoðun sína í ljós á grilli Lexus LX voru flest, nei ekki flest heldur öll, á þá leið að þetta væri ljótt grill og það hreint úr sagt stuðaði fólk. Vonda grillið.

Grillið er sannarlega sá hluti bílsins sem margir taka fyrst eftir. Grill rafbíla eru svo sérstakur  kapítuli en um þau er til dæmis fjallað í góðri grein hér. Grillið umdeilda á Lexus LX virðist vera í takt við það sem bílaframleiðendur og hönnuðir hafa búið okkur undir: Grill verða áberandi í hönnun bíla næstu árin.

Já, árið 2022 gæti orðið grillárið mikla. Er hér loks brotið blað í grillsögunni?

Nei, það leyfir undirrituð sér að draga verulega í efa. Leyfum myndunum að gera það sem þær gera best: Segja meira en þúsund orð:

image

Lincoln Continental með þessu grilli hefur nú þótt æði framúrstefnulegur á sínum tíma. Eða hvað? Mynd/Unsplash

image

Audi Skysphere er enn á eins konar hugmyndastigi en eflaust „jesúsa“ margir sig yfir grillinu. Þetta er öðruvísi en þarf það endilega að vera vont? Mynd/Audi

Nútíminn er trunta

Með tóman grautahaus.

Hjartað það er hrímað

Því heilinn gengur laus.

image

Nei hættu nú alveg! Og árið er...1935, eða þar um bil. Forljótt grill eða eftirsóknarvert? Það er nú það. Sumir hafa örugglega hugsað sig tvisvar um áður en tengdamömmu var boðið í bíltúr þegar þessi Citroen Traction Avant var nýkominn á markað. Mynd/Unsplash

En í dag eru hönnuðir ekki svona villtir og trylltir. Jú, það eru þeir reyndar. Skoðum tvo bíla frá Toyota:

image

Toyota Land Cruiser 300 skartar alveg grilluðu grilli! Mynd/Toyota.com

image

Toyota Tundra 2022 kemur sprúðlandi fersk á markað í Bandaríkjunum. Og Tundra er auðvitað með grill. Mynd/Toyota USA

image

Sumir bílar hafa sýnt „tennurnar“

image

Aðrir brosa í myrkri eins og sumra drauga er siður. Rolls Royce Ghost 2022

image
image

Ekki veit ég hvort nútíminn sé „trunta“ í raun og veru en ýmsu er hægt að venjast og sýna þessar myndir af gömlum og nýjum bílum kannski að grill geta í upphafi virst alveg gapandi galin en eftir því sem árin líða verða þessi sömu grill fallegri og fallegri. Í sumum tilvikum alla vega!

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is