• VW segir verð nýrrar grunngerðar rafbíls byrja í 20.000 evrum

Volkswagen kynnti nýja grunngerð rafbíls á bílasýningunni í München. Framleiðandinn segir að ID Life hugmyndabíllinn í crossover-stíl gefi góða mynd af því sem vænta má en þessi litli rafbíll, byggður á MEB grunni VW Group, á að fara í sölu árið 2025.

image

Aðlögun MEB grunnsins var lykillinn að því að halda verði bílsins sem lægstu, sagði Ralf Brandstaetter, forstjóri VW, við kynninguna á ID Life.  Mynd: Reuters.

Framleiðsluútgáfa bílsins mun nota aðlagaða útgáfu af MEB grunninum, með hjólhafið stytt í 2500 mm úr 2770 mm eins og er í dag á ID3-bílnum, sagði VW.

image

Styttri gerð á MEB grunninum myndi einnig bjóða upp á litlar rafmagnsgerðir fyrir bæði Skoda og Seat Cupra hágæða vörumerkið, sagði forstjóri VW og bætti við að fjölskylda „litlu bílanna” yrði „líklegast“ smíðuð á Spáni.

„Við ætlum líka að staðsetja rafhlöðuframleiðslu þar,“ sagði Brandstaetter.

image

Væntanlega nefndur ID1

Búist er við því að VW kalli bílinn ID1 og hlaðbaksútgáfan, sem áætlað er að komi síðla árs 2027, fengi þá nafnið ID2.

Sagt er að ID Life sé búinn 57 kílówattstunda rafhlöðu til að gefa bílnum um 400 km drægni.

Rafmótorinn hefur verið færður í framenda bílsins og er hann því fyrsta framhjóladrifna MEB gerðin.

image

Mikið af endurunnum efnum

Áhersla er lögð á endurnýtingu og endurvinnslu í framtíðarstefnu VW. Það efni sem notað er í innanrými ID Life er að stórum hluta endurunnið.

Loftklæðningin á færanlegu þakinu er til dæmis úr endurunnum plastflöskum og fest með rennilásum.

Sætisáklæðin eru gerð úr endurunnum plastflöskum og gömlum stuttermabolum sem fá þar nýtt hlutverk.

image

Samþættur skjávarpi gerir notendum mögulegt að varpa myndefni á framrúðu bílsins og til að njóta þess sem fyrir augu ber (að sjálfsögðu þarf bíllinn að vera „STOPP“ þegar horft er á kvikmyndir o.þ.h.) má fella framsætin saman, setjast í aftursætið og teygja úr skönkunum.

image

Hönnun stýrisins er nýstárleg og svipar til stýrisins í nýjustu uppfærslunni á Tesla Model S. Athyglisvert er að gírskiptingin er í stýrinu. Myndavélar koma í stað innri og ytri spegla, og farsíminn (eða spjaldtölvan) leysir hefðbundna sjáinn af hólmi.

(Byggt á Reuters - Automotive News Europe)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is