Sunnudagseftirmiðdag nokkurn brugðum við mæðgin okkur í bíltúr. Þetta var haustið 2013 og var ætlunin að heilsa upp á fuglana í fjörunni við Eyrarbakka.

Þar hafði ég heldur betur rangt fyrir mér!

Við kirkjuna stökk maður upp að bílnum og ég „skrúfaði“ niður rúðuna. „Stopp! Það er skriðdreki að koma og ef þú heldur áfram fletur hann ykkur og bílinn út,“ sagði upptjúnaður maður í lopapeysu. Sonur minn, fimm ára gamall, varð frekar hvekktur og mér leið ekki vel með þetta. Ég lagði bílnum eitthvað frá en skildi enn ekki hver röndóttur væri að gerast þarna. Það var nefnilega dauðaþögn í litla þorpinu þegar við stigum út úr bílnum.

Ískur er seint gleymist

Þögnin var rofin skömmu síðar og viðurstyggilegt ískur braut eflaust fín bifhárin í eyrum manns. Þetta ískur er hljóðið sem verður til þegar um 40 tonna skriðdreki göltrast eftir götunni. Aðalgötunni á Eyrarbakka. Kannski er hljóðið öðruvísi á Stokkseyri. Enn vissum við ekki hvað um var að vera en bæjarbúi nokkur leiddi okkur í allan sannleika um „dauðaþögnina“ og það sem svo kom: Hér var verið að taka upp Dead Snow II eða Død snø II. Norska kvikmynd um nasistauppvakninga…

image

Já, ljótir voru þeir, uppvakningarnir.

Ekki skánaði þetta þegar alblóðugir „uppvakningar“ komu þrammandi. Í miklu fáti rauk ég með blessað barnið inn í bílinn og beið færis að komast frá þessum hryllingi - án þess að verða undir skriðdreka.

Sonur minn hélt fyrir augun þar til ég sagði að „allt ljótt“ væri horfið.

Nóg komið!

Augnabliki síðar heyrðist niðurbælt óp úr aftursætinu. Syni varð litið út og viti menn! Þar, á milli húsa og kartöflugarða, var skriðdrekaskömmin að fletja út tvo gamla lögreglubíla! Nei, þetta var of mikið fyrir ungan mann. Allt of mikið.

image

Skriðdreki með bláan ógeðslegan reyk allt um kring er eitt. Viðurstyggilegir og blóðugir uppvakningar er svo annað. En að sjá lögreglubíla kramda var of mikið.

image

Það gleður mig að sonur man ekki eftir þessu og sálrænu áfalli (trauma) var afstýrt þennan sunnudag, haustið 2013. Ætli ís, bílasölurúntur og markvissar samræður um mannlausa gamla lögreglubíla sem fara tvisvar í pressuna, hafi ekki átt sinn þátt í því.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is