Fjögurra tonna rafmagnströll

    • Tæpu hálfu tonni þyngri en forverinn

Undanfarinn áratug höfðu umhverfissinar séð svart af vanþóknun vegna hins bensínþyrsta risavaxna Hummer jeppa. Núna lítur hins vegar annar og tröllvaxnari Hummer dagsins ljós en hann sleppur þó sennilega við pirringinn í umhverfisverndarsinnunum því hann verður rafdrifinn. Hann verður þó mun stærri og þyngri heldur en forverinn.

Vefsíðan GMC-trucks lét hafa eftir sér að bíllinn yrði rúm 4 tonn (nákvæmt 4.103 kg.).

Í því samhengi erum við að tala um að H1 Alpha sem kom 2006 (og oft talinn hinn fullkomni Hummer) vó tæp 3.800 kg., H2 vó síðan rétt um 3.000 kg. með 6,2 lítra V8 vél. H3 var síðan skítléttur í þessum samanburði eða um 2.100 kg.

image

Þyngstur meðal jafningja

Nýr rafmagnsdrifinn Hummer verður þyngsti nýi bíllinn til sölu í Bandaríkjunum. Skýringuna á þessari ofurþyngd má að hluta til rekja til stærðar bílsins en hann er um 5,5 metrar á lengd, 2,2 metrar á breidd og 2,1 meter á hæðina.

Og aftur til samanburðar var H1 aðeins 4,7 metrar á lengd, 2,2 metrar á breidd og rétt innan við 2 metrar á hæð.

Rafknúin aflrásin á náttla hellings þátt í að bíllinn er svo þungur sem raun ber vitni en sögn þeirra hjá Hummer EV er Ultium pakkinn með rafhlöðu upp á 200 kWst. Hann er einnig með þrjá rafmótora.

image

Eitt þúsund hestöfl

En takið eftir að 4 tonna bíllinn á aðeins við um Launch Edition útgáfuna sem nú þegar er uppseld. Sá bíll er um 1000 hestöfl – og með hina fyrrnefndu 200 kWst. rafhlöðu. Ferlíkið er ekki nema um 3 sekúndur úr kyrrstöðu upp í hundrað kílómetrana. Það er eitthvað.

image

Þrátt fyrir að jeppar séu oft þyngri en sambærilegir pallbílar er reiknað með að Hummer jeppinn verði léttari en pallbíllinn.

Byggt á frétt Autocar

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is