Til eru ótal síður á alnetinu þar sem fullyrt er að fáránlegar umferðarreglur séu hér og þar í heiminum. Einkum og sér í lagi í hinum og þessum fylkjum [ríkjum] Bandaríkjanna.

Þetta er skemmtilegt og bráðfyndið, en er þetta satt? Blaðamaður vann heimavinnuna sína og fór í gegnum ótal reglugerðir, lögreglusamþykktir, lög og þess háttar. Niðurstöðurnar verða kynntar í þessari umfjöllun

Bannað að blóta

Það er auðvitað ruddalegt að blóta eins og sótraftur án almennilegs tilefnis. Í Rockville í Maryland má hver sorakjaftur gæta sín, burtséð frá því hvort almennilegt tilefni sé til þess að blóta hressilega eður ei. Það er nefnilega einfaldlega BANNAÐ!

image

Þarftu lífsnauðsynlega að blóta? Gættu þess þá að vera í „réttu“ fylki! Mynd:Unsplash

Kalifornía til fyrirmyndar

Það má segja ýmislegt um kjánalegar umferðarreglur (sé tekið mið af spekingum á veraldarvefnum) í Kaliforníu en gaman er að greina frá því að í reglunum er eitt og annað sem er algjörlega til fyrirmyndar:

image

Það er margt rökrétt í umferðarreglunum í Kaliforníu og auðvitað líka eitthvað furðulegt.

Bannað er að vera með heyrnartól eða eyrnatappa í báðum eyrum meðan á akstri stendur. Heyr heyr! Hversu oft sér maður ekki bílstjóra með heyrnartól? Allt of oft. Allt frá nettum heyrnartólum til svakalegra hlemma eins og maður myndi nota í skipasmíðastöð.

image

Æj, nei! Ekki mála þig meðan þú ekur góða mín...

Úr sloppnum kona góð

Á villta tryllta vefnum, alnetinu, las ég á óáreiðanlegri síðu að í Kaliforníu væri konum óheimilt að klæðast slopp við akstur. Það hljómar nú eins og hver annar brandari, einkum og sér í lagi þegar hugsað er til allra þeirra sem fara út um hvippinn og hvappinn íklæddir náttfötum… Náttbuxur virðast á einhvern óútskýranlegan hátt hafnar yfir alla gagnrýni hér á landi og vogar maður sér ekki að minnast orði á að einhver sé eins og bjáni úti í búð í náttbuxum.

Það myndi flokkast sem skítkast samansaumaðrar smásálar. En aftur að sloppunum!

Það var ekki neitt að finna um stóra sloppabannið í lögunum. Hvorki tangur né tetur! Mögulega hefur einhvern tíma verið í gildi lögreglusamþykkt eða eitthvað í þá veru sem laut að sloppum en ekki er að sjá að þetta eigi sér stoð í lögum.

Ekkert brask á sunnudögum

Undirrituð var sannfærð um að það væri flökkusaga að í einhverjum fylkjum væri bannað að selja bíla á sunnudögum. Svo sannfærð að ég ætlaði að skauta framhjá þessari dellu. En forvitni blaðamaðurinn varð auðvitað að ganga úr skugga hvort eitthvað væri hæft í þessu og, viti menn! Þetta er satt!

image

Er nokkuð sunnudagur? Ef svo er: Gleymdu þessu!

Í fylkinu Maine, sem er á austurströnd Bandaríkjanna, er sala bifreiða á sunnudögum bönnuð. Hvorki má leggja drög að kaupum, sölu eða skiptum notaðra né nýrra bíla á sunnudögum. Refsing bíður þeirrar óheillakráku sem virðir þessi lög að vettugi, eins og sjá má í lögunum.

Ástæðan er trúarlegs eðlis og þó svo að hvergi sé minnst á bíla í Biblíunni má rekja bannið til hennar. Höfum í huga að fylkin sem um ræðir eru hluti af biblíubeltinu svonefnda og íbúar almennt trúaðir og trúarhiti mikill.

Hvíldardagurinn er því á einhvern hátt fjandsamlegur þegar bílabrask er annars vegar en auðvitað hefur maður slíkar trúarvenjur ekki í flimtingum. Höfum þetta bara í huga ef til stendur að bílabraska á þessum slóðum.

Ungir ökumenn og farþegabann

Í fyrsta lagi kann okkur að finnast stórfurðulegt að einhvers staðar fái ungmenni, yngri en 17 ára, ökuréttindi. Það er kannski ekki fyndið en ólíkt því sem við eigum að venjast hér á landi. Almennt er bílprófsaldurinn í Bandaríkjunum 16 ár og þannig hefur það verið frá því um 1940.

Fyrstu sex mánuðina er þeim óheimilt að aka með farþega 18 ára eða yngri. Gerist þau sek um það mega þau eiga von á 100 dollara sekt og sviptingu ökuréttinda í 6 mánuði.

Víðsvegar um Bandaríkin mega börn byrja að læra á bíl, haldið ykkur fast og spennið beltin, FJÓRTÁN ára gömul! Já, það er alveg grjótmögnuð staðreynd.

image

Þeir eru kannski ekki svona ungir, yngstu bílstjórarnir í Bandaríkjunum. Mynd: Unsplash

Idaho með sín sérkenni

Í Idahofylki geta börn öðlast ökuréttindi, takmörkuð ökuréttindi, 15 ára gömul. Almennt skírteini fá þau við 18 ára aldur. Fimmtán ára gömul mega þau aka einsömul til og frá skóla eða vinnu en þau þurfa að hafa lokið ökukennslu (þarf virkilega að taka það fram? Já, það þarf víst!).

Fimmtán ára ökumenn mega ekki aka að næturlagi nema með þeim sé einhver 21 árs eða eldri og þarf sá að vera með ökuréttindi.

Þeir sem eru yngri en 17 ára þurfa að hafa lokið 6 verklegum ökutímum til að fá skírteinið. Meira virðist lagt upp úr bóklega hluta námsins því 30 stundum þarf að ljúka af bóklegri kennslu.

Vonbrigði

Það var auðvitað ekki leiðinlegt að garfa í þessum meintu stórfurðulegu reglum. Maður lærir alltaf eitthvað, en ekki neita ég að vonbrigðin voru töluverð þegar í ljós kom að hvergi (í minni yfirferð - vel ígrundaðar ábendingar vel þegnar) er áreiðanlegar heimildir að finna fyrir því að:

Fólk þarf að nota almenna skynsemi; gallinn er bara sá að hún er ekki endilega svo almenn.

Tengt efni sem þú gætir haft áhuga á:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is