Jean Todt, fráfarandi forseti Alþjóðaakstursíþróttasambandsins (FIA) fékk veglega gjöf á árlegu lokahófi og verðalunaafhendingu FIA í gærkvöldi. Gjöfin samanstóð af árituðum keppnishjálmum ökumanna í Formúlu 1. Hrærður mjög yfir þessari fallegu gjöf, þakkaði hann fyrir sig á Twitter. Það var kannski ekki svo góð hugmynd.

image

Umrædd færsla fráfarandi forseta FIA. Skjáskot: Twitter/JeanTodt

Í ljósi undangenginna atburða og flækjustigsins nú í lok keppnistímabilsins í Formúlu 1, er Todt kannski ekki sá vinsælasti þar sem margir unnendur Formúlunnar ráðast þessa dagana á allt sem tengist FIA með einhverjum hætti (nú er gott að vera ekki FIA-T).

Sorpið sem blessaður öldungurinn hefur fengið yfir sig á Twitter síðan hann birti myndina og þakkaði fyrir sig…

Já, sem fyrr segir þarf hann eflaust meira á hjálmum að halda en áður. Svo marineraðir af bræði eru margir að annað eins hefur ekki sést nema bara hjá fótboltabullum sem fygjast með enska boltanum og fara og mölva eitthvað ef þeirra lið tapar. Já, eða ef dómari dæmir „vitlaust“ í leik. Forði sér þá bara hver sem getur.

„Formúlan er dauð“ og fleira dramatískt

Þeir voru ófáir sem hömruðu á lyklaborðið sitt nístandi kaldar dómsdags„kveðjur“ til Todt; vel varðir innan steyptra veggja og í felum í myrkri eigin gremju og bræði.

image

Þessi fyrrum aðdáandi Formúlu 1 var einstaklega dramatískur og henti þessum bautasteini undir færslu Todt. Skjáskot: Twitter/STBoomish

Það er spurning hvort þetta sama fólk hefði þorað að mæta þessum góðlega gamla manni úti á götu til dæmis og beygja sig til að ná augnsambandi við hann (maðurinn á jú að heita 163 sentímetrar á hæð en fólk lækkar yfirleitt aðeins eftir því sem árin verða fleiri) og bauna þessu svartagallsrausi á hann. Bara smá pæling svona á föstudegi…

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is