Ólíkur bíla- og menningarheimur

Þegar þú ert að rölta um í framandi landi tekur þú gjarnan eftir því sem er ólíkt því sem þú átt að venjast.

image

Það er alveg möguleiki að Væringjar úr Miklagarði hafi herjað á þetta landsvæði eða borgina.

image

En þessi borg er Sófía höfuðborg Búlgaríu. Þarna ægir öllu saman: ævafornum rústum, glæsilegum nýbyggingum, hörmulegum hönnunarslysum, fallegum gömlum múrsteinshúsum sem er vel viðhaldið og svo öðrum sem eru að hruni komin. Borgin er á miðjum Balkanskaganum í dal sem er umlukinn fjöllum (sem sjást oft ekki eða illa vegna mengunar).

image

Nú erum við komin að kjarna málsins sem eru samgöngur og bílar í þessari borg. Hvort tveggja er talsvert frábrugðið því sem við á Íslandi eigum að venjast.

image

Fyrst að almenningssamgöngunum: Þú getur valið um fjóra kosti eða blöndu af þeim. Ferðast með strætisvagni, neðanjarðarlest, sporvagni eða rafknúnum strætisvagni; svokölluðum „trolleybus“ sem er tengdur við raflínur eins og sporvagnarnir.

image

Það eru margir leigubílar í Sófía og allir gulir, alveg sama frá hvaða bílastöð þeir koma.

image

Allar eldri götur eru lagðar með grjóti sem hefur verið mulið í litla kubba sem er raðað niður, stundum í fallegt bogadregið munstur.

Stundum hefur grjótið farið úr skorðum eða týnst af einhverjum sökum og gangstéttakantar eru einnig úr grjóti. Þetta fer ekki sérlega vel með bíla enda heyrast gjarnan hljóð frá slitnum spindilkúlum eða fóðringum og ónýtum dempurum. Fullt af bísness fyrir varahlutaverslanir sem eru reyndar í röðum við sumar göturnar.

Margar af götunum eru með teinum fyrir sporvagnana, bæði eldri og nýrri götur. En svo eru það breiðstrætin sem eru yfirleitt malbikuð og alltaf vel við haldið.

Af því að almenningssamgöngur eru góðar og nóg af leigubílum og líka þeirri staðreynd að Búlgaría er ekki ríkt land þá er bílaeign ekki eins almenn og á Íslandi. Þetta á sérstaklega vel við í höfuðborginni.

Það eru samt undantekningar frá reglunni því það eru alltaf einhverjir sem taka lán til að geta státað sig af því að vera t.d. á flottum Þýskum bíl. Þessi týpa þekkist í flestum löndum geri ég ráð fyrir.

En hvernig getur þú áttað þig á því hvort þú ert í góðu eða slæmu hverfi? Ef þú sérð það ekki þá þekkir þú þau á lyktinni!

[Birtist fyrst í mars 2021]

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is