Ný og endurbætt útgáfu af Teslu S

Tesla kynnti nýverið breytingar á S-gerðinni, sem eru þær róttækustu síðan hún kom fyrst út árið 2012. Áætlað er að hún komi á markað í Bandaríkjunum í marsmánuði með glænýrri innréttingu og öflugri rafhlöðu.

image

Bíllinn hefur tæplega 630 km drægni og er ekki nema rétt rúmlega tvær sekúndur í hundraðið, enda með 1020 hestafla rafmagnsmótor.

image

Nýja útgáfan er lítið breytt að utan en hefur nokkrar nýjungar að innan sem komnar voru á tíma. Skjárinn í miðju mælaborðsins, sem er stjórntæki bílsins, er orðinn láréttur og líkist meira þeim sem er í þristinum og Y-gerðinni, þó með stærri 17 tommu skjá og þynnri ramma.

image

Auk þess hefur verið komið fyrir litlum átta tommu skjá aftan á millistokknum fyrir aftursætisfarþegana sem geta horft á kvikmyndir eða spilað tölvuleiki.

image

Til að slá aðra bílaframleiðendur út af laginu er nú hægt að spila veigamikla tölvuleiki á aðalskjá bílsins með þráðlausri leikjafjarstýringu, meðal annars leikina Cyperpunk 2077 og Witcher 3. Þetta er hægt vegna nýrra örgjafa í bílnum.

image

Það má því segja að ef notendur vilja slá tvær flugur í einu höggi og langar í Playstation 5 eða Xbox er hægt að kaupa bæði flottan rafmagnsbíl og spila tölvuleiki um leið.

image

Heimasíða Teslu gefur upp verð fyrir grunnútgáfuna af S-gerðinni með tvöföldum rafmagnsmótor með 663 km drægni, 250 km hámarkshraða og þriggja sekúndna hröðun í hundraðið; rétt rúmlega 11 milljónir króna (ekki er tekið tillit til felgubreytinga, mismunandi lita eða innréttinga).

image

Tvær gerðir með þreföldum rafmagnsmótor kosta rúmlega 15 og 17 milljónir króna, en þær hafa 628 km drægni, 320 km hámarkshraða og eru ekki nema tvær sekúndur í hundraðið.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is