Hershey er Mekka fornbílamanna

Nú eru 65 ár liðin síðan bandaríski fornbílaklúbburinn AACA tók upp á þeirra nýbreytni að boða fornbílaáhugamenn á nýslegna velli Hershey-borgar í október, þar sem þeir gætu skipst á bílum og margvíslegum varahlutum. Sýningin var upphaflega smá í sniðum en átti eftir að vaxa og dafna á næstu áratugum og hefur sjálfsagt náð hámarksstærð í kringum aldamótin.

Með tilkomu internetsins og auðveldari aðgangi að varahlutum hefur nokkuð dregið af sýningunni á liðnum árum, en þó er hún ennþá þokkalega vel sótt.

Árið í ár verður þó alger undantekning frá þessu, því að fyrsta skipti frá árinu 1955 hefur sýningunni verið aflýst. Ástæðan þarf ekki að koma neinum á óvart, en covid-pestin hefur sett allt á annan endan um heim allan. Fornbílamenn verða því að láta sér nægja að kaupa varahluti á netinu þetta árið, en vonandi verður Hershey-sýningin á sínum stað að ári.

Greinarhöfundur átti þess kost að heimsækja Hershey haustið 2017 og naut þar veðurblíðunnar innan um mikinn fjölda fornbíla og varahluta, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

image

Greinarhöfundur við sína uppáhalds bílategund, Buick. Myndin er tekin á laugardeginum þegar sjálf fornbílasýningin stóð sem hæst, en sjálfur markaðurinn hófst á þriðjudeginum á undan.

image

Stórtækir varahlutasalar láta sér ekki muna um að mæta með heilu bílhlössin á Hershey, líkt og þessi felgusali.

image

Rúnar Sigurjónsson „bíladoktor“ myndar vélarhús á De Soto árgerð 1942, en eins og sjá má er doktorinn nokkuð rjóður í kinnum. Ekki er það þó af áhuga fyrir Mopar, heldur af sól og 25 stiga hita sem lék við gestina á þessum óvenju mildu haustdögum.

image

Þeir heilla krómkaggarnir frá sjötta áratugnum. Hér má sjá ´56 Ford Crown Victoria og ´57 Ford Skyliner „fellitopp“.

image

Það kennir margra grasa á Hershey, því þar eru ekki bara bílar og varahlutir, heldur einnig margt sem tengist bílamenningunni, eins og margbreytileg skilti, leiköng og ýmislegt fleira.

image

Stélprúðasti bíll síðustu aldar var án efa ´59 Cadillac, sem að vonum vakti óskipta athygli á sýningunni. Við hlið hans er ökutæki af allt öðru sauðahúsi, Dodge Power Wagon.

image

Það er alltaf gaman að fá að skyggnast ofan í húddið á fornbílunum, líkt og á þessum myndarlega ´58 Chevrolet Impala.

image

Dýrasti bíllinn á Hershey var án efa þessi Duesenberg frá árinu 1930, en verðmæti hans hleypur á hundruðum milljóna króna.

image

Hudson árgerð 1949 var á sínum tíma meðal framúrstefnulegustu bíla heims, en lágur þyngdarpunkur hans átti eftir að tryggja honum mikla velgengni í NASCAR-kappakstri.

image

Það vantar ekki glæsivagnana á Hershey, hér með Buick í broddi fylkingar.

image

Meðal vönduðustu bíla fimmta áratugarins var Nash Ambassador, en nokkuð var um svona bíla á Íslandi forðum daga.

image

Síðasti bílaframleiðandinn sem lagði til atlögu við risana þrjá í Detroit var Kaiser, sem hér sést í sínu síðasta útliti frá 1954. Nokkrir svona bílar komu til Íslands á sjötta áratugnum, en þeir voru settir saman í Ísrael. Þó að veldi Kaiser hafi fallið á sínum tíma, stendur nú yfir ný atlaga gegn risunum þremur í Detroit, að þessu sinni frá Tesla í Kaliforníu. Gaman verður að sjá hvernig hún endar.

image

Krómdrekarnir hafa mikið aðdráttarafl! Hér standa þeir í röðum.

image

Það vantar ekki kraftabílana á Hershey, enda njóta þeir sífellt meiri vinsælda meðal bílaáhugamanna. Hér eru þrír úr herbúðum GM: Pontiac GTO, Buick GSX og Buick GS.

image

Pallbílar hafa löngum átt upp á pallborðið hjá Kananum og Hershey fer ekki farið varhluta af því. Hér má sjá Chevrolet Apache og Willys.

image

Margir sýnendur leggja mikinn metnað í uppstillinguna með allskyns upplýsingaskiltum, líkt og þessi eigandi Buick árgerð 1929 hefur gert.

image

Meðal glæsilegustu skutbíla síðustu aldar eru án efa Chevrolet Nomad og Pontiac Safari, en hér er sá síðarnefndi frá árinu 1956.

image

Það eru ekki bara amerískir bílar á Hershey. Hér má sjá myndarlegan breskan Austin frá 1948 aka brott af sýningunni og í kjölfarið siglir jafnaldri hans frá Hudson.

image

Aksturinn af sýningarsvæðinu er ekki síður tilkomuminni en sjálf sýningin, þó vissulega sé eftirsjá af öllum þessum glæsilegu fornbílum. Hér renna tveir Chevrolettar úr hlaði.

image

Það er fagurt útsýnið yfir Hershey-velli og andrúmsloftið afslappað eins og það á að vera á sólríkum haustdögum innan um glæsivagna liðinnar aldar.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is