Óþolinmóður Tesla aðdáandi í Bosníu smíðaði sína útgáfu af Cybertruck

image

Bosnískur eigandi að eftirlíkingu á Cybertruck er aðdáandi Ford og Tesla. Mynd: REUTERS.

MOSTAR, Bosníu - Aðdáandi Tesla í Bosníu gat ekki bara setið og beðið eftir að bílaframleiðandinn kæmi með sinn Cybertruck, sem er væntanlegur síðla árs 2021. Í staðinn kom hann með sína eigin útgáfu af þessu framúrstefnulega farartæki.

Það tók átta mánuði fyrir sérfræðinga og verkfræðinga hjá Stark Solutions hjá Igor Krezic að taka í sundur einn hrikalegan Ford Raptor F-150 í smæstu hluta og breyta honum síðan í bensínknúið ökutæki sem líkist Cybertruck.

Fyrsta ökuferðin um götur í suðurbæ Mostar vakti mikla athygli, sagði Mario Coric, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, við Reuters.

Krezic neitaði að ræða við Reuters

Þó að bíllinn líti kannski ekki eins út og frumgerð Cybertruck, fangar pallbíllinn anda hans.

„Eigandinn vildi að við sameinuðum tvær andstæður - Ford og Cyber - vegna þess að hann er aðdáandi bæði Tesla og Ford, svo við sameinuðum þá báða í einn“, sagði Coric.

„Þessi notar bensín og Tesla notar rafmagn. Við reyndum að afrita eins mikið og mögulegt er en bíllinn okkar er ekki í sömu stærð og Cybertruck", sagði Coric.

Engar athugasemdir fengust frá Tesla eða Ford

Coric sagði að Stark Solutions væri nú að reyna að skrá pallbílinn til að geta keyrt hann á vegum en þeir væru að lenda í vandræðum vegna þess að skarpar brúnir á ökutækinu eins og þær sem sáust á Cybertruck eru bannaðar í Bosníu.

Tesla hyggst reisa 1,1 milljarða dollara Cybertruck verksmiðju nálægt Austin í Texas og binda þannig enda á mikla samkeppni við nágrannaríkið Oklahoma, tilkynnti Elon Musk forstjóri í júlí.

image

Pallurinn á eftirlíkingu af Cybertruck sem smíðuð var af fyrirtæki í Bosníu. Mynd: REUTERS.

(Automotive News Europe / Reuters)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is