Elgsprófið og öryggisbúnaður nýjustu bíla

Sennilega þekkja allir bílaáhugamenn elgsprófið svokallaða. En bílar hafa verið prófaðir í því frá áttunda áratugnum í Svíþjóð og síðar víða um heim.

image

Þeir eru sjaldséðir á Íslandi elgirnir og þá sérstaklega ef þeir eru hvítir.

Þetta próf hlýtur gjarnan nafn í samræmi við þá dýrategund sem er líklegast að verði á vegi ökumanna í því landi þar sem það er framkvæmt. Samkvæmt því ætti það að heita sauðfjárprófið væri það framkvæmt á Íslandi eða eitthvað í þá áttina.

image

Íslenska sauðkindin krefst þess að prófið sé kennt við sig.

Prófið er framkvæmt á sífellt meiri hraða á þurru malbiki þar sem reynt er að sveigja framhjá fyrirstöðu á veginum uns bíllinn fer að skríða, snýst, fellir keilur eða jafnvel veltur. Það er manneskja spennt í belti í öllum sætum bílsins og hann er fulllestaður.

Dæmi um þetta próf má sjá í eftirfarandi myndbandi.

Er þetta próf kannski ofmetið? Myndbandið hér á eftir á að minna á af hverju elgsprófið skiptir máli. Það er rétt að vara við innihaldinu því elgur drepst þegar bíll ekur á hann.

Viðbrögð ökumannsins þ.e. að hemla eru viðbrögð sem eru líklegust hjá langflestum ökumönnum (nema ökumenn séu verulega vel þjálfaðir í að sveigja framhjá fyrirstöðum á veginum). Hefði ökumaðurinn reynt að sveigja framhjá elgnum þá hefði hann samt keyrt á hann og í leiðinni ekið í veg fyrir bílinn sem var rétt á eftir honum á hinni akreininni. Fyrir utan að það var rigning og þá eru skilyrðin fyrir því að sveigja framhjá elgnum verulega skert. Þarna skiptir elgsprófið engu máli.

Setjum þetta í Íslenskt samhengi. Það er Verslunarmannahelgi, þú ert með fullan bíl af fólki og fullt af farangri. Þú ert á 90 km/klst hraða á Hringveginum þar sem er ein akrein í hvora átt en það stekkur kind upp á veg í veg fyrir bílinn og þú sveigir inn á hina akreinina.

Ef það er bíll að koma úr gangstæðri átt þá þarf ekkert að ræða það frekar. En vegna þess að enginn bíll hefur enn náð því að standast elgsprófið á 90 km hraða þá er líklega úti um kindina hvort sem er.

Heimsmetið á Citröen Xantia Activa eða 85 km/klst en fjöðrunin í þeim bíl gerir gæfumuninn. Það er sem sagt tilgangslaust að reyna að forðast að keyra á kindina í þessu tilfelli.

image

Ef við bætum í bílinn akreinastýringu, neyðarhemlum og skynvæddum hraðastilli þá er ekki víst að ökumaðurinn fái að skipta um akrein (nema hann gefi stefnuljós fyrst) og svo vill bíllinn jafnvel hemla sjálfur þegar kindin birtist fyrir framan bílinn. Þá hefur elgsprófið litla þýðingu.

Næsta skref eru víst sjálfstýrðir og sjálfkeyrandi bílar þar hefur elgsprófið ekkert að segja, eða hvað?

Tölvutæknin er mikið að taka yfir í bílum og er bara eins góð og hugbúnaðurinn sem stjórnar tölvunum og vélbúnaðurinn í kringum þær. Það er þó oft hægt að slökkva á sumum af þessum kerfum sem annars taka einhver völd af ökumanninum. Sem leiðir hugann að stærsta óvissuþættinum varðandi elgsprófið en það er ökumaðurinn.

image

Er þetta próf þá orðið úrelt eða tilgangslaust? Nei, en það hafði meira vægi áður fyrr þegar hraðinn var minni og engar aðstoðartölvur voru í bílunum. Það hjálpar líka til við að sjá hversu stöðugir bílar eru lendi þeir í þessum aðstæðum.

Varðandi það að vernda dýrin þá eru ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir bestar. Þegar þau eru komin upp á veg er oft lítið hægt að gera til að bjarga þeim.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is