Saga Range Rover

-stiklað á stóru um sögu Range Rover fyrstu 50 árin

image

Við höfum verið að fjalla um uppruna nokkurra bíla að undanförnu og þar á meðal jeppanna. Við byrjuðum á sögu herjeppans frá Willys, sem síðar varð að hinu þekkta vörumerki Jeep. Í beinu framhaldi af því tókum við fyrir þróun Land Rover jeppans, sem var í raun þróaður á grunni herjeppans ameríska, og núna er vel við hæfi að halda áfram og taka fyrir upphaf og þróun Range Rover, sem varð til vegna þess að markaðurinn bað um bíl sem væri svipaður Land Rover-jeppanum en myndi bjóða upp á meiri þægindi.

Við höfum á þeim stutta tíma sem við höfum haldið úti þessum bílavef birt tæplega fimm hundruð fréttir og greinar um ýmis bílatengd málefni auk fjölmargra greina um reynsluakstur, og því er vel við hæfi að grein númer 500 sé um lúxusjeppann Range Rover.

Upphafið

Eins og við höfum fjallað ítarlega um áður hér á vefnum okkar þá kom fyrsta kynslóð Land Rover á markað árið 1949, og lagði þar með grunninn að óslitinni sigurgöngu jeppanna frá Land Rover næstu áratugina.

image

Fyrsta gerðin af Land Rover lagði grunninn að því sem síðar kom.

Rover Company gerði tilraunir með minni og einfaldari útgáfu af Land Rover einu ári eftir að Series 1 var hleypt af stokkunum þegar þeir sendu frá sér stationgerð bíls með húsi byggðu úr timburgrind, með teppi, miðstöð og framrúðu í einu lagi. Vegna mikils kostnaðar við smíði bílsins voru færri en 700 smíðaðir og framleiðslan stöðvuð árið 1951.

Önnur gerð einnig byggð á Series 1 fylgdi í kjölfarið skömmu síðar en tókst ekki að ná þeim árangri sem búist var við.

image

Þetta var tilraun Land Rover til að sameina jeppa og fólksbíl – en náði ekki hylli kaupenda.

Fyrirtækið reyndi enn fyrir sér með því að blanda saman virkni Land Rover við þægindi og yfirbragð annarra bíla Rover-sölunnar, og því smíðaði fyrirtækið nokkra Road Rover þróunarbíla árið 1958.

Þeir voru byggðir á afturhjóladrifnum Rover P4 fólksbíl, en verkefnið var lagt á hilluna áður en kom að  fullri framleiðslu.

image

Land Rover hafði fylgst með því sem var að gerast í Bandaríkjunum – til dæmis með tilkomu stationbílsins frá Jeep – og þetta var ein af tilraununum á þá vegu: Road Rover sem smíðaður var 1950.

Áhrif frá Bandaríkjunum

Ameríka á sjöunda áratugnum sá upphaf nýrra jeppa með fjölskylduvænum 4x4-bílum eins og Ford Bronco og Jeep Wagoneer - bílar með nægum þægindum og krafti fyrir vegina en einnig fyrir ógreiðfæra slóða.

Fyrsta frumgerð Range Rover verður til

image

Þetta er frumgerðin af útliti Range Rover frá 1970, gerð úr leir eins og þá tíðkaðist fyrir daga tölvutækninnar. Módelið stendur í safni Land Rover í Solihull.

image

Árið 1967 varð Rover hluti af Leyland Motors (síðar breska Leyland og síðan einfaldlega BL) og fyrsta frumgerð Road-Rover var smíðuð. Þrátt fyrir að líta líkt út og fyrsti Range Rover, hélt þróunin áfram.

Þessi nýi bíll fékk dulnefnið „Velar“ árið 1969 og voru um 40 forframleiðslubílar smíðaðir allt til 1970.

image

Ein frumgerða Range Rover frá árinu 1969, sem kölluð var Velar til að hylja hvaða bíll væri hér á ferðinni. Hér er bíllinn í reynsluakstri í heitum eyðimerkursandi Sahara.

Fyrsta kynslóð Range Rover, sem nú er þekkt sem Classic módelið, fór í sölu árið 1970. Hún var verðlögð á rúmlega 2.000 pund og var aðeins fáanleg sem þriggja dyra.

Samkvæmt stöðlum dagsins í dag var þessi bíll ansi einfaldur og ekki með margbrotna innréttingu en þetta var engu að síður mikill lúxus samanborið við Series 2 Land Rover.

image

Undir vélarhlífinni var vél sem átti ættir að rekja til Buick, öll smíðuð úr áli - 3,5 lítra V8 vél, smíðuð af Rover. Hún var með 135 hö og 278 Nm tog og skilaði bílnum frá 0 til 100 km/klst á 14 sek með um 150 km/klst hámarkshraða.

Fékk góðar viðtökur

Þrátt fyrir að vera svolítið valtur í beygjum, eyða meira en menn voru vanir, tregar gírskiptingar, hvin í gírkassanum, dekkjahljóð og ekkert útvarp, ekkert leður, engar viðarinnréttingar né loftkælingu, var nýja bílnum mjög vel tekið. Í nóvember 1970 sagði Autocar:

„Það sem er svo gott við Range Rover er hvernig hann sinnir mörgum aðgerðum sínum, þjónar jafn vel sem dráttarbifreið, flutningabifreið, í vegleysum og er eins og venjulegur bíll sem hentar jafnvel til aksturs í mikilli umferð“.

Yfirferð Autocar lauk þannig:„ Við vorum mjög hrifin af Range Rover og finnst bíllinn frekar eiga skilið að njóta velgengni en Land Rover “.

image

Fyrsta gerð Range Rover árið 1970 var harla fátækleg hvað varðar búnað og þægindi miðað við nýrri bílana, en þótti samt mikill lúxus þegar bíllinn kom á markað.

Nánast óbreyttur í mörg ár

Fyrir utan að yfirgír (overdrive) varð fáanlegur seint á áttunda áratugnum var Range Rover að mestu leyti óbreyttur þar til að 5 dyra útgáfan var kynnt árið 1981, ásamt glæsilegu „In Vogue“ gerðinni sem var framleidd í takmörkuðu magni - svo kölluð vegna þess að forframleiðslubíll hafði verið lánaður til Vogue tímaritsins fyrir tískumyndatökur Lancôme og Jaeger í Biarritz.

Umbreytingin frá „þægilegu notagildi“ í „lúxusstíl“ var í öruggum gangi.

Fyrsta sjálfskipting Range Rover, þriggja gíra, kom árið 1982 með 5 gíra handskiptingu sem staðalbúnað 1983. Framleiðslugerð af Vogue útgáfunni var hleypt af stokkunum um mitt ár 1984 og 4 gíra sjálfskipting sem valkostur varð tiltæk árið 1985. Árið 1985 kom einnig til sögunnar eldsneytisinnspýting sem bætti afköst og hreinsaði losun og lagði þannig veginn fyrir bílinn sem kom í sölu í Bandaríkjunum frá því snemma árs 1987.

Stöðug þróun

Frá því að fyrsti Range Rover kom fram árið 1970 hefur bifreiðin stöðugt verið að þróast. Lúxusjeppi heimsins er með frábært stig fágunar, hæfileika og innblástur í hönnun ásamt tækniframförum sem aðgreina hann.

image

Frumgerðir af Range Rover voru með Velar merki til að fela upprunann.

1969 - Frumgerð Range Rover Velar

Til að halda frumgerðinni af Range Rover sem vel vörðu leyndarmáli, gáfu hönnuðirnir og verkfræðingarnir á bak við þetta byltingarkennda nýja farartæki dulnefnið 'Velar', dregið af ítalska orðinu 'velare', sem þýðir blæja eða hlíf. Fyrstu 26 frumgerðirnar voru meira að segja búnar skilti með sama nafni til að dylja upprunann.

image

1970 - Fyrsta framleiðsla 3 dyra Range Rover

Eftir vel heppnaða prófun á Velar hugmyndabílnum kom fyrsti Range Rover í ljós. Honum var tekið með opnum örmum, lofaður af gagnrýnendum, einkum vegna sjaldséðrar samsetningar getu og glæsilegrar hönnunar.

Þetta var fyrsta ökutækið af þessum toga með varanlegu fjórhjóladrifi og var með tvískiptann afturhlera, vélarhlíf sem var eins og skel og beinar hreinar línur.

image

Fjögurra hurða útgáfan þótt mikil framför á sínum tíma og jók notagildið mjög.

1981 - 4 dyra Range Rover

Eftir 11 ár á markaðnum var Range Rover Classic gerð fáanleg sem fjögurra dyra ökutæki, sem gaf meiri möguleika á sívaxandi aðdáendahópi bílsins.

image

1994 - Önnur kynslóð Range Rover

Með meiri lúxus en forverinn, með svipaða hönnun og önnur kynslóðin, svo sem svipað en mýkra útlit og tilkomu rétthyrndra aðalljósa í stað hringlaga, hafa staðist tímans tönn, sem gerir ökutækið auðþekkjanlegt til dagsins í dag.

image

2001 - Þriðja kynslóð Range Rover

Þessi Range Rover var í stöðugri þróun og var sá fyrsti sem smíðaður var með sjálfberandi yfirbyggingu. Sagt er að hönnunarinnblásturinn fyrir yfirbygginguna sé fenginn frá ítölskum Riva hraðbát, en trissurnar á lúxus snekkjunni urðu til þess gefa málmnum inni í bílnum sitt yfirbragð.

image

Stormer hugmyndabíllinn gaf undir fótinn með Range Rover Sport sem kom ári síðar.

2004 - Range Stormer Concept

Stormer hugmyndabíllinn var frumsýndur á bílasýningu í Detroit árið 2004 til að sýna fram á framtíðar hönnunarstefnu Range Rover, sem og djarfa nálgun við upptöku nýrrar tækni í bílum.

image

2005 - Range Rover Sport kemur á markað

Innleiðing fyrsta sportjeppans í Range Rover fjölskyldunni sýndi fram á getu Land Rover til sportlegra eiginleika. Möguleikar á vél voru 4,2 lítra bensínvél með forþjöppu sem skilaði góðum krafti. Range Rover Sport bauð einnig upp á þvertengda loftfjöðrun, sem gaf ökumönnum valfrjálsa aksturshæð, með auknum þægindum og 4x4 akstur, bæði á vegum og utan.

Breytileg hæð var ein af mörgum áberandi nýjum eiginleikum sem endurspegluðust í kraftmiklu útliti bílsins.

image

Hönnun LRX hugmyndabílsins hafði mikil áhrif á hönnun Range Rover Evoque.

2008 - LRX Concept

Þessi hugmyndabíll byggður á coupé-útliti var metnaðarfullt og framsækið skref fyrir hönnunarteymi Land Rover. Miðað við ökumenn sem sjaldan myndu fara utan vega, var hugmyndabíllinn áfram miðaður að hinni sögulegu getu Land Rover en var einnig með innréttingu sem fjölmiðlar nefndu sem „framúrstefnulega“.

image

Tilkoma Range Rover Evoque fól í sér djarfa nýja hönnun.

image

2011 - Range Rover Evoque

Range Rover Evoque var kallaður „Bíll ársins“ af fjölmörgum sölustöðum og lét til sín taka um leið og hann var kynntur á bílasýningunni í París árið 2010.

Margir hugmyndir frá LRX hugmyndabílnum urðu hér að veruleika í lúxus „cross-coupé“, þar á meðal fersk túlkun á klassískri Range Rover hönnun.

image

2012 - Fjórða kynslóð Range Rover

Fjórða kynslóð Range Rover var sú fyrsta með létta ályfirbyggingu og var strax þekkjanleg vegna lengra hjólhafs. Bíllinn var einnig með næstu kynslóðar útgáfu af Land Rover's Terrain Response® kerfinu.

Þessi innbyggða aksturstækni velur sjálfkrafa bestu ökutækisstillingar fyrir landslagið.

2013 - Range Rover Hybrid

Fyrsti tvinnbíll Range Rover fjölskyldunnar skilaði ekki aðeins bættri eldsneytisnýtingu og minnkaði losun og síðast en ekki síst, kom þetta ekki niður á getunni. Til að sanna það fór bifreiðin í 16.000 km ferð frá Solihull til Mumbai og stóðst hið fullkomna aksturspróf við erfiðar aðstæður – í fjöllum Himalaya.

image

Aukið vélarafl var lykilatriði í annarri kynslóð Range Rover Sport.

2013 - Önnur kynslóð Range Rover Sport

Nokkrum götum í New York var lokað tímabundið þegar bíllinn var frumkynntur þar af James Bond leikaranum Daniel Craig og til að hleypa af stokkunum hinum uppfærða Range Rover Sport sem var með aukinni skilvirkni 3,0 lítra V6 vélarinnar.

image

Range Rover Sport SVR sameinar kraft og afköst fyrir spennandi akstur.

2015 - Range Rover Sport SVR

Range Rover Sport SVR var hannaður til að skila afkastamiklum jeppa með sem mestu afli og var sá fyrsti sem framleiddur var af einstökum ökutækjum. Bíllinn býður upp á ógleymanlegan akstur sem hraðskreiðasti Land Rover allra tíma.

Afl ökutækisins endurspeglast í hönnunar útfærslum eins og fjórföldu pústi  og einstakri vindskeið að aftan.

image

Hápunktur lúxus og fágunar, Range Rover SVAutobiography.

2015 - Range Rover SVAutobiography

Hápunktur fágunar og lúxus sem birtist í Range Rover SVAutobiography endurskilgreindi Range Rover upplifunina. Næmt auga fyrir smáatriðum er sýnt í burstuðu áli og sætum í innanrými. Að utan, einstakt val á litum, tryggir ökumönnum fullkomna lúxusupplifun sem er samheiti fyrir Range Rover.

SVAutobiography Dynamic sem var kynntur stuttu síðar með áberandi hönnun sinni og öflugri V8 vél endurspeglaði kraft og lipurð ökutækisins.

Range Rover á Íslandi

Range Rover kom fyrst til Íslands síðsumars árið 1971 og var fyrsta alvöru kynningin á bílnum á kaupstefnunni í Laugardalshöllinni í september það ár. Bíllinn vakti strax mikla athygli og innflytjandinn, Hekla, auglýsti bílinn á eftirfarandi hátt:

image

En eftirspurnin fór fram úr öllum vonum þeirra Heklumanna, eins og sjá má á eftirfarandi baksíðufrétt úr Dagblaðinu Vísi frá 15. september 1971. Þetta var jafnframt ein af fyrstu fréttunum sem sá sem skrifar þennan pistil skrifaði í dagblað eftir að hann hóf störf í blaðamennsku:

Fá tízkujeppann ekki fyrr en eftir tvö ár!

Eitt af þeim táknum velferðarþjóðfélagsins sem mest ber á er bíllinn. Hefur það löngum verið sett í samband við velmegun hvers og eins hvernig bíl hann á. Hefur það gengið í bylgjum hvaða bílar hafa verið mest keyptir, og þetta nálgast hálfgert bílakaupæði innan einhverrar tegundar sem hefur verið vinsælust í það skiptið.

En Range Rover er enn á fullu

En saga Range Rover heldur áfram – bara núna síðustu daga hafa borist fréttir af nýjungum sem eru á leiðinni strax og lokunarástandi vegna kórónaveirunnar lýkur. Búið er að boða fleiri tengitvinnbíla og ýmislegt annað er í pípunum.

En við látum hér staðar numið með þessa umfjöllun um fyrstu 50 ár Range Rover, hver veit hvort lengra verður haldið síðar.

(Textinn er byggður á upplýsingum frá vefsíðum Jaguar Land Rover og ýmsum öðrum heimildum).

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is