Til umhugsunar vegna gjaldtöku í umferð á höfuðborgarsvæðinu

Eins og komið hefur fram í fréttum á að fara að laga ástandið í umferðinni hér á suðvesturhorninu - aðallega þó í Reykjavík og nágrenni.

Á tímabilinu verða 52,2 milljarðar lagðir í stofnvegi, 49,6 milljarðar í innviði Borgarlínu og almenningssamgöngur, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir. Þá verður þegar í stað ráðist í að innleiða stafræna umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu“.

image

Við eigum að greiða stærsta hlutann með bílnum okkar

Stór hluti fjármagnsins á að koma frá ríkinu, lítill hluti frá sveitarfélögunum, en restina eigum við bíleigendur að borga! Með veggjöldum sem eru fengin með því að „stóri bróðir“ fylgist með okkur eins og í skáldsögu Orwells 1984, og skráir hvert og hvernig við ökum um göturnar.

Ég er búinn að leita vel á vefnum og skoða nokkrar skýrslur um „Gautaborgarmódelið“ sem menn eru hrifnir af hér. Greinilegt er að það má lesa aðeins mismunandi niðurstöður eftir því hver skýrsluhöfundurinn er, en ljóst er að á þessu hafa verið vankantar og ljóst að það tóm um fjögur ár að greiða niður stofnkostnaðinn að fullu, þegar allt er tekið með. Á meðan sú „niðurgreiðsla“ stendur yfir koma væntanlega minni peningar í kassann!

Nú síðast í dag, sunnudag, var Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í Sprengisandi á Bylgjunni, og þar kom fram að greiða gæti þurft hátt í níu þúsund krónur á mánuði fyrir einn fjölskyldubíll, verði farið eftir Gautaborgarmódelinu svokallaða, þegar kemur að innheimtu veggjalda til að fjármagna nýsamþykkta samgönguáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið.

Ekki eru allir á eitt sáttir

Fram hefur komið að ekki eru allir á eitt sáttir um þennan nýja „Samgöngusáttmála“. Björn H. Sveinsson, formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl, segir umferðarsáttmála ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í mótsögn við fyrri yfirlýsingar og markmið yfirvalda. Þrátt fyrir að mikið fjármagn sé lagt í almenningssamgöngur, hjóla- og göngustíga, efast Björn um að aðgerðirnar muni fá fleiri til að leggja bílnum.

Fyrir borgarstjórnarkosningar árið 2002 var mikið rætt um Sundabrautina. Ekki tókst samstaða um áframhald og nú er lagningu brautarinnar að minnsta kosti frestað fram til 2034.

Ég hef skrifað um bíla og umferð frá árinu 1971 og finnst nóg um þau gjöld sem ríkið hirðir af okkur bíleigendum án þess að skila þeim í vegakerfið. En þessi nýjasta vending í málinu er ótrúleg - og það sem verra er þá held ég að ráðamenn, líkt og fjármálaráðherrann, trúi því að þeir séu að gera rétt! Mér finnst hins vegar að þetta sé einfaldlega galið!

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is