Telur Musk snjallari en Einstein

„Hann er eins konar blanda af Einstein, Tesla og Rockefeller,“ sagði fyrrum mannauðsstjóri hjá SpaceX um Elon Musk, en bætti því þó við að hann væri sennilega snjallari en sjálfur Einstein.

image

Elon Musk við Teslu

Jú, mikið rétt, Elon þessi Musk er maðurinn sem við tengjum við Tesla og SpaceX. „Forstjóri Tesla“ er einn titillinn sem við getum notað, auðugasti maður veraldar er svo annað sem má nota til að greina hann frá restinni af íbúum jarðar. Ég geng nú samt út frá því að lesendur viti upp á hár hvern um ræðir og læt þessar vísanir duga.

image

Maye Musk, móðir Elons. Skjáskot/BBC

Þriggja ára sérfræðingur

Maye er móðir Elons og er hún lykilmanneskja þegar kemur að því að segja frá æsku hans. Elon er elsta barn hennar og verkfræðingsins Errols Musk. Nú eru þættirnir ekki aðgengilegir utan Bretaveldis, þannig að undirrituð vísar hér í stiklur (hlekkur hér neðst) sem og greinar sem birtust á vefnum Buisness Insider.

image

Elon 5 ára (lengst til vinstri), í miðjunni er Kimbal tæplega 4 ára og við hlið hans er systir þeirra Tosca 2 ára. Skjáskot/BBC

Móðir Elons greinir frá því að drengurinn hafi verið þriggja ára gamall þegar hún áttaði sig á að hann væri afburðagreindur. Þau voru að ræða eitthvað, mæðginin, og Elon færði rök fyrir sinni hlið mála en það er kannski ekki sjálfgefið að eiga í rökræðum við þriggja ára barn. Ekki kom fram hvort þau ræddu um undirrót efnahagsvandans eða Matchbox-bíla en það er ekki aðalatriðið.

Aðalatriðið er að móðir hans áttaði sig snemma á að Elon litli væri ekkert blávatn! Þegar hann lærði að lesa tók hann Encyclopædia Britannica fagnandi, eins og maður sem finnur vin í eyðimörk.

image

Ungur Elon í fangi móður sinnar. Hann er fæddur og uppalinn í Suður-Afríku en flutti 17 ára gamall til Kanada. Skjáskot/BBC

Móðir hans segir að Elon hafi beinlínis lesið allt heila klabbið en faðir hans, sem er ekki eins yfirlýsingaglaður og móðirin, segir einfaldlega að Elon hafi lesið mikið sem barn. Þá hafi hann haft sérstakan áhuga á Alexander mikla og Napóleon Bónaparte.

Snjallastur allra?

Það er sérstakt að halda því fram að einhver sé snjallastur allra og tala fjálglega um Albert Einstein (1879-1955), rétt eins og viðkomandi hafi þekkt Einstein persónulega eða hitt hann í matarboði og átt gott spjall fram eftir kvöldi.

image

Dolly Singh þykir Elon Musk æði snjall

„Hann hefur lesið allt sem hægt er að lesa um Tesla og Einstein. Hann er búinn að kynna sér rækilega allt sem þeir komust að og ætlar með það á næsta stig,“ eins og hún orðaði það.

Hún lét ekki þar við sitja heldur bætti við að Elon Musk væri að hennar mati sú manneskja sem næst kæmist þessum körlum af öllum núlifandi jarðarbúum.

„Hættið að vera vond við hann“

Yfirlýsingar Singh voru stórar og miklar en móðir Elons segir líka margt og mikið. Ofan á það bætist móðurleg umhyggja sem er nú dálítið krúttlegt svona á sinn hátt.

image

Það hafa margir skoðanir á Elon Musk en móður hans sárnar þegar fólk er vont við hann. Skjáskot/BBC

Hún sagði að hann hefði náð einstökum árangri og ætti sér ótal aðdáendur en þó „myndi enginn vilja vera hann“. Það væri ekki auðvelt að vera Elon Musk og þegar um þessi tvö fyrirtæki væri að ræða [Tesla og SpaceX - þetta var tekið upp fyrir Twitter-ævintýrið] beindist mikið hatur að stjórnanda þeirra. „Hættið að vera vond við hann,“ sagði Maye, móðir Elons Musk.

Fleira tengt Elon Musk:

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is