Árið er 1993 og Toyota kynnir nýja kynslóð Corolla, þá sjöndu í röðinni frá 1966.  

Þetta ár var Toyota söluhæsti bílinn á Íslandi með um 600 selda bíla eða um 20% af markaðnum.  Í öðru sæti var Mitsubishi frá Heklu og Nissan frá Ingvari Helgasyni.  Það sem einkennir bifreiðar frá árinu 1993 er að þeir verða fornbílar á þessu ári.

image

Toyota Corolla árgerð 1993

Árið 1993 hafði Mazda kynnt þriðju kynslóð RX 7 bílsins árið áður.  

Hin sérstaka Wankel vél var undir húddinu á þessum RX 7 bíl sem og áður.  Um var að ræða vél með tveimur turbínum og þess tíma alveg hreint ótrúlega flókin græja.  Hægt var að fá bílinn frá 250 og upp í tæp 280 hestöfl með þremur vélargerðum, beinskiptan fimm gíra eða með fjögurra gíra sjálfskiptingu.  Spurning hvort einhver lumi á svona kerru í einhverju skúmaskoti hér á landi.

image

Mazda RX7 árgerð 1993

Saab kynnir 9000 gerðina í Aero útgáfu.  

Bíllinn fékkst í stallbaksútgáfu og hlaðbaksútgáfu og var í flokki stórra glæsivagna.  Saabinn hefur ávallt verið nokkuð sérstakur bíll og má nefna að svissinn á Saab var á alltaf á milli sætanna, nema í allra síðustu gerðunum.  9000 bílinn var framleiddur í Trollhattann í Svíþjóð á þessum árum og Björn Envall var aðalhönnuður en naut aðstoðar ítalans Giorgetto Giugiaro.

image

Saab 9000 Aero árgerð 1993

Það er síðan alveg gullfallegur Mercedes sem nær 25 ára aldrinum  í ár.

Þetta er fyrsta kynslóð E Class, byggður á W124 gerðinni og gaman fyrir Benz áhugamenn að þessi bíll skuli nú vera að detta í fornbílagírinn.  E Class var framleiddur með öflugum bensínvélum, 6 og 8 cylindra fyrir USA markað en evrópubúarnir gátu fengið hann með háværri díselvél og gerðin sú kölluð E 250.

image

Mercedes E 220 árgerð 1993

Í gegnum tíðina hefur lögregla og sjúkralið notið góðs af tryggum og traustum Ford Econoline ásamt fjöldanum öllum af sendibílstjórum og húsbílaeigendum Nú er tækifærið fyrir laghenta að demba sér í Fornbílaklúbbinn með einn gamlan og góðan sjúkrabíl kannski.  Bílar þessir voru til fjölda útfærslna og meðal annars stuttir, langir og extra langir, fjórhjóladrifnir eða afturdrifnir.  Eitt áttu þeir sammkerkt - þetta voru trukkar.  Yfirleitt bensínbílar með V8 4,9-5,8 lítra rokk undir húddinu og dísel knúnir með 7,3 lítra V8 turbodísel vélum.

image

Einn af sjúkrabílum Rauða kross Íslands af Econoline gerð.

Á hverju ári verða bílagerðir að fornbílum þess árs.  Ein gerð sker sig úr hvað þetta varðar. Land Rover Defender en sá bíll kemur inn á hverju ári, nánast án þess að nokkur taki eftir því.  Bíllinn hefur eiginlega ekkert breyst í útliti frá upphafi og til dagsins í dag.  Sammerkt með bílum af þessari gerð er þó styrkur og stæðileiki. Þróun hefur aðallega snúið að vélum og enn í dag sækjast menn eftir Defender sem framtíðarbíl til breytinga. Nú þarf Landroverklúbburinn bara að taka upp heiðursútnefningar fyrir þá bíla sem ná 25 ára aldri á starfsárinu.

image

Land Rover Defender árgerð 1993

VW Golf árgerð 1993 var nokkuð huggulegur bíll.  

Við erum að tala um þriðju kynslóð VW Golf MK3 gerðina.  Þriðja kynslóði bílsins tók hvað mestum breytingum frá upphaflega boddíinu, línur urðu mýkri og lægra var undir hann.  Golfinn kemur þarna með nýja dísel vél með beinni innspítingu og túrbínu ásamt 2,8 lítra VR6 bensínvél.  Nú gæti farið að kætast í hestaflagrúppunni í Fornbílaklúbbnum.

image

VW Golf CL árgerð 1993

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is