Sjaldgæfur Bentley til sölu á Íslandi

Það leynast alls konar gersemar í íslenskri bílaflóru en ein slík er til sölu þessi misserin. Um er að ræða 1995 árgerðina af Bentley Turbo S sem er afar óvenjulegt apparat miðað við það sem almennt kom frá Crewe í Bretlandi á þessum tíma. Bentley Turbo S er nefnilega 2,5 tonna flikki sem þó er 402 hestöfl og aðeins 6,1 sekúndu í hundraðið sem verður að teljast magnað fyrir bíl af þessari stærðargráðu.

Talandi um stærð – hann er lágur þrátt fyrir allt, aðeins 1485 mm á hæð, 5268 á lengd og 2008 á breidd.

image
image

En þetta er dýrgripur fyrir margra hluta sakir. Fyrir það fyrsta voru aðeins 60 svona bílar framleiddir, þótt til stæði að framleiða 75 stykki en allir voru bílarnir sérútbúnir og bæði öflugri en aðrir Turbo bílar frá Bentley og miklu betur útbúnir. Af þessum 60 bílum voru 31 með stýrinu vinstra megin og þessi tiltekni bíll er númer 22 af þeim 75 sem fyrirhugað var að framleiða eins og fram kemur á merkingum í bílnum.

image

Ekta eintak fyrir safnara

Á meðal óvenjulegra atriða er sérsmíðuð valhnetu viðarinnrétting með ámáluðu „B“ til marks um að þetta sé sérútgáfa af bílnum og svo er jafnframt sérstakt hulstur á milli framsætanna sem hefur að geyma viskí- og rommpela og fjögur kristalsstaup – nokkuð sem er sennilega eins ópólitískt rétt og hægt er í bíl, en á sama tíma mjög Bentley-legt.

image
image

Turbo S bílarnir eru búnir 6,75 lítra V8 vél eins og aðrir Bentley bræður en til viðbótar er Garret túrbína og loft- og vatnskældur intercooler notaður til að ýta aflinu í 402 hestöfl. Turbo S bílar eru styttri en venjulegir Bentley Turbo og miklu liprari í akstri. Bíllinn á sér þannig séð enga forvera né arftaka því Arnage bílarnir tóku við og Turbo R bílarnir þóttu ekki vera sama eðlis né hafa sömu eiginleika og Turbo S.

image
image
image

Það er erfitt að eignast glæsilega klassíska bíla á Íslandi en hér er komið kærkomið tækifæri fyrir safnara af lífi og sál. Upprunalegt lakk, allt vottað, þekkt eigendasaga og algjörlega óskemmdur og óslitinn bíll sem hefur mikið söfnunargildi.

(Ath. að fréttin er frá árinu 2019)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is