Hættulegasta malbikið á landinu?

Bundna slitlagið á vegum landsins skiptir okkur öll miklu máli, og oftar en ekki lendir það í umræðunni vegna þess að það endist illa, í það koma holur sem eru hættulegar! En ég ætla að fjalla um aðra hættu sem malbikið skapar, en það er þegar það er allt of hált!

image

Yfirborð malbiksins hefur greinilega verið styrkt með þessum ljósu steinum sem sjást vel hér á myndinni, en það eru einmitt þeir sem slípast og verða glerhálir, einkum í bleytu.

Á Vesturlandsveginum frá Reykjavík vestur og norður um land eru nokkur hringtorg og tvö þeirra koma við sögu hér: fyrir neðan Bauhaus og síðan annað neðan við slökkvistöðina í Mosfellsbæ, við gatnamót Skarhólabrautar. Bæði þessi hringtorg eru stórhættuleg – og það er vegna þess hve hál þau eru. Þau eru langhættulegust í bleytu en „hálkan“ er einnig til staðar í þurru veðri.

Það er yfirborð malbiksins sem skapar þessa hættu. Hér hefur veghaldarinn (Vegagerðin) valið að setja sterkara malbik, væntanlega með íblönduðum erlendum steinefnum til að gera malbikið endingarbetra, en það eru hluti steinefnanna sem mynda þessa hættu – og þar með hálku.

image

Hér sést vel að það er búið að vara ökumann við yfirvofandi hálku í hringtorginu. Hálak er mest þegar ekið er í innri hring hringtorgsins.

Yfirborðið eins og slípaðir fjörusteinar

Flest þekkjum við að hafa farið í fjöru og fundið litla steina sem sjórinn og sandurinn í fjörunni er búinn að slípa yfirborðið svo vel að það er nánast slétt og gljáandi. Það er einmitt þetta sem hefur gerst í yfirborði malbiksins í þessum tveimur hringtorgum. Ég sætti lagi þegar umferðin var lítil í smástund og strauk yfir yfirborð malbiksins. Ljósu steinarnir í malbikinu eru eins og vel slípaðir fjörusteinar, og veita því lítið viðnám þegar hjólbarði beygir á þessu malbiki. Óhreinindi og hugsanlega nokkrir olíudropar sem leka úr bílum auka enn á hættuna.

Á milli þessara tveggja hringtorga á Vesturlandsveginum er eitt hringtorg, fyrir neðan skógræktina í Hamrahlíðinni, og við gatnamót vegtengingarinnar við hverfin neðan Korpúlfsstaða. Þar er engin svona „hálka“ enda malbikið á þessu torgi ósköp „venjulegt“ og án þessar steinefna sem geta orðið svona gljáandi og hál.

image

Hált yfirborð hringtorgsins gefur minna veggrip og það mátti vel sjá þegar grái bíllinn lengst til vinstri á myndinn þurfti að snögghemla vegna bílana fram undan í hringtorginu og rann áfram nokkra metra áður en hann stöðvaðist að lokum.

Heimilisbíllinn á heimili þess sem þetta skrifar er nokkurra ára Subaru Legacy, sem búinn er sítengdu rafeindastýrðu fjórhjóladrifi, sem gerir það að verkum að öll hjólin eru að vinna í því að tryggja sem best samband við vegyfirborðið. Mynstur á hjólbörðum bílsins er vel viðunandi þannig að ekki er hægt að kenna þeim um lakara veggrip. En þrátt fyrir þennan tæknibúnað á bíl sem almennt fær mikið hól fyrir það að vera rásfastur og öruggur er auðvelt að láta hann skrika til þegar ekið er um þessi tvö hringtorg. Ef aðeins er tiplað á bensíngjöfina á ca 30 km hraða fer bíllinn strax að renna til í beygju og ég er þess fullviss að ef gefið væri meira inn þá væri auðvelt að snúa bílnum í hring.

Það var einmitt það sem gerðist fyrir nokkru síðan þegar Skoda Octavia sem var að koma inn á hringtorgið við Skarhólabrautina hringsnérist og endaði uppi á hringtorginu þar sem hann lagði umferðarskiltið á torginu að velli.

image

Þetta viðvörunarmerki ætti svo sannarlega að vera óþarft að sumarlagi á Íslandi!

Frá því að þetta gerðist hef ég séð nokkra bíla skrika illilega til, jafnt ferðamenn á litlum bílaleigubílum og stærri bíla, en engan þó fara í hring!

Búið að setja upp mörg „hálkuskilti“

Það er greinilegt þessa dagana að veghaldarinn er búinn að kyngja þeirri staðreynd að þessi tvö hringtorg eru beinlínis hættuleg vegna hálku og búið er að setja fjölda af viðvörunarskiltum sem vara við hálku! En hér verður að grípa til varanlegra ráðstafana áður en alvöru „vetrarhálka“ fer að stinga sér niður.

image

Hringtorgið fyrir neðan Bauhaus er ekki síður hættulegt vegna „hálku“. Lang hættulegasti kaflinn á þessu hringtorgi er einmitt fyrir miðju á myndinni þar sem grái bíllinn er í þann mund að aka inn á hringtorgið. Þarna hef ég séð bíla sem koma að norðan og taka hringinn til að beygja út af hringtorginu til austurs hringsnúast, en sem betur fer án þess að rekast á aðra bíla.

Ef ég væri veghaldarinn, þá myndi ég mæta á morgun með fræsara og rífa upp yfirborðið þannig að slípuðu steinarnir í yfirborðinu sem mynda hálkuna séu fjarlægðir!

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is