Reynsluakstur: Renault Kadjar, árgerð 2019
Umboð: BL

Franski stíllinn sem sportjeppi

Áður en við hefjum þessa grein verð ég að taka fram að pabbi minn á Renault. Hann er búinn að eiga hann í nokkur ár og er gífurlega ánægður með hann. Hann var því ánægður þegar ég mætti í kaffi á nýjum Renault Kadjar, bíl sem þá var ekki búið að frumsýna á landinu. Þannig hófust kynni mín af Kadjar, með því að leyfa pabba að prófa. Hann hrósaði bílnum mikið fyrir hversu þægilegt væri að sitja í honum og hvað hann kannaðist vel við sig. Því er ég sammála. Nýr Kadjar hefur fengið andlitslyftingu á innréttingu og hefur efnisvalið stórbatnað frá fyrri árum. Plastið er mjúkt viðkomu, matt og fagurt áferðar og nýtt leðurlíki á stýri er til fyrirmyndar. Einnig hafa stjórntæki verið endurhönnuð, bæði í mælaborði og fyrir glugga og spegla í hurðum.

image

Renault Kadjar er flott bifreið á að líta frá öllum hliðum. Ný hönnun á afturstuðara gefur bílnum enn betra útlit og samsvarar sér vel við ný afturljósin.

Góð sæti og nægt pláss

Flestir kaupendur Kadjar eru eflaust fjölskyldufólk sem sækist eftir meira plássi en fæst í fólksbílum. Framsætin eru mjúk með nýju áklæði en veita samt góðan stuðning við bak og læri. Armpúðann á milli sætanna er hægt að renna fram á við til að auka stuðning undir olnboga. Hjá farþega er stórt og gott handfang sem þægilegt er að nota til að koma sér vel fyrir. Stjórntæki fyrir hitastig og blástur eru ný. Þar eru nú komnir skjáir í stað snúningstakka og eru þeir bjartir og einfaldir að lesa á.

image

Mælaborðið í Kadjar er stílhreint og fínt með flýtitökkum við hliðina á stjórnskjá fyrir afþreyingarkerfið. Kadjar kemur líka með stafrænu mælaborði sem er óalgengt fyrir bíla í hans verðflokki.

Stjórnskjár fyrir afþreyingarkerfið er í miðju mælaborðsins og hefur hann örlítið matta áferð sem kemur í veg fyrir að það sjáist ekki á hann vegna birtu. Þar er að finna afþreyingarkerfi Renault sem ber heitið R-Link. Er þetta önnur útgáfa kerfisins sem er nú sneggri en áður. USB tengi eru fjögur, tvö frammi í og tvö aftur í. Gott pláss er í aftursætunum og ætti að fara ágætlega um þrjá fullorðna. Það sem stóð uppúr þó á bílnum sem ég fékk til prufu var glertoppurinn. Hann nær yfir báðar sætaraðir Kadjars og hleypir inn mikið af birtu sem gerir ferðalög í aftursætinu einstaklega ánægjuleg. Reynsluakstursbifreiðin var líka útbúin öflugu hljóðkerfi frá Bose og var hljómurinn úr því þéttur og flottur. Sérstaklega þegar ég blastaði uppáhalds hljómsveitinni minni, Enya... ég meina Rammstein.

image

Gott aðgengi er í Kadjar og góð opnun á öllum hurðum. Í aftursæti eru að sjálfsögðu ISIOFIX festingar og lítið mál að koma fyrir barnabílstól.

Aksturseiginleikar sem gleðja

Kadjar kemur með nýrri 1.3 lítra bensínvél sem skilar 160 hestöflum og er það alveg nóg fyrir lítinn fjölskyldujeppling sem þennan. Hann skilar aflinu vel til hjólanna og uppgefin eyðsla er aðeins um 5.6 lítrar á hundraðið. Það ásamt verði sem er vel samkeppnishæft í sínum verðflokki gerir Kadjar að ansi spennandi möguleika.

image

Skottið á Kadjar er stórt og sniðugt. Það er með hirslu undir gólfinu til að geyma útdraganlega hlíf yfir skottið. Þá er líka hægt að nýta lokin til að skipta niður 472 lítra farangursrýminu niður í minni einingar.

Lokaorð

Renault Kadjar er góður kostur fyrir fólk sem er að leita sér að fallegum jepplingi með góðum staðalbúnaði. Plássið er til fyrirmyndar og hann er þægilegur í allri meðferð og umgengni. Auðvelt að leggja í stæði, bjartur og flottur bíll sem svara vel kalli nútímans. Ég mæli með Kadjar í Bose útfærslunni og í rauðum lit.

Ef þér lýst áann’, keyptann.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is