Reynsluakstur: Hyundai Ioniq, árgerð 2019
Umboð: BL

Besta úr tveim heimum

Mánudagurinn heilsaði mér með frosti, snjókomu, lélegri færð og hvítum Ioniq. Ég þurfti að fara út á undan fjölskyldunni og skafa rúðurnar. Svona er það víst að búa í blokk án bílskúrs í nyrstu höfuðborg jarðarinnar. Ég settist inn til að setja í gang, nema að hann fór ekki í gang. Hann sýndi mér bara að hann væri tilbúinn til hreyfingar. Ekkert vélarhljóð. Ég allt í einu mundi að þetta er ekki bara bensínbíll, þetta er tengitvinnbíll. Ég þurfti á endanum ekkert að skafa rúðurnar því þegar ég náði að vakna almennilega og átta mig á hvað væri í gangi var hann orðinn heitur, byrjaður að bræða af sér og tilbúinn til brottfarar.

image

Þegar bílnum er ekið af stað gefur hann frá sér geimverukennt hljóð sem mér var mikið skemmt yfir. Ljósahönnun bílsins er mjög flott, meira um það í textanum síðar.

Merkilega mikið pláss

Framundan var upptekinn dagur hjá týpískri íslenskri vísitölufjölskyldu. Kona og barn í jógatíma og ég á einn stað á meðan. Því næst búðir, heimsóknir í nærliggjandi bæjarfélög, verslunarmiðstöð og svo heim með allt liðið í kvöldmat. Eftir hann brunaði ég aftur af stað í kvöldhitting. Þetta var okkar dagur með Ioniq.

image

Nægt pláss er í aftursæti Ioniq.

Án þess að hugsa nokkuð um það gengum við að því vísu að barnabílstólinn okkar passaði í aftursætið. Þar eru ISIOFIX festingar vel merktar og var ekkert mál að koma fyrir barnabílstólnum á sinn stað. Skottið er líka stórt og gleypti það kerru í meðalstærð og skiptitösku. Seinna um daginn bættust svo við innkaupapokar, bleyjupakkar, klósettpappír og komst það allt fyrir í skottinu eins og ekkert væri, en uppgefin stærð er 455 lítrar.

image

Skottið er stórt og kassalaga með nægu plássi. Fyrir neðan hlíf má svo finna meira geymslupláss og varadekkið.

Hyundai Ioniq er einstaklega skemmtilegur í akstri, bæði í þröngum íbúðagötum, þar sem hraðahindranirnar eru fleiri en bólur á andliti mínu sem unglingur, og á stofnæðum svæðisins. Hiti í sætunum og stýrinu kom sér einkar vel á þessum kalda degi og kona mín naut þess að geta haft aftursætið hitað líka þegar hún þurfti að sitja þar með barninu. Öll stjórntæki fyrir bílstjórann voru líka skýr, auðfinnanleg og auðveld í notkun. Android Auto og Apple Carplay koma að sjálfsögðu sem staðalbúnaður og fyrir okkur sem nennum ekki að hlusta á línulega dagskrá útvarpa og er það yndislegt. Hann kom líka með akreinavara og haldara frá Hyundai sem virðist lesa allar línur vegarins. Neyðarhemlun kemur sem staðalbúnaður og blindhornavörn líka.

image

Mælaborðið er til fyrirmyndar einfalt og sver sig vel í Hyundai ættina. Allir takkar á sínum stað, einfaldir að finna og enn einfaldari að nota.

Efnisval í bílnum er einnig til fyrirmyndar hjá Hyundai. Ekkert af hörðu og leiðinlegu plasti og leðrið á sætunum mjúkt sem skinn. Að utan er hann ekkert til að skammast sín fyrir. Það er smá munur á honum og systir hans sem gengur bara fyrir rafmagni, hleðslulok er að framan og hefðbundið bensínlok að aftan. Þetta gerir það að verkum að þegar þú leggur í stæði ætluð rafbílum verður þú að vera minna cool en allir hinir og bakka ekki í stæðið. En ef að egóið getur tekið það á sig þá er lítið annað við hönnun Ioniq sem getur truflað mann. Ég verð sérstaklega að hrósa ljósahönnun Hyundai manna. Við komum við og fengum okkur ís að kvöldi til og sá ég mig knúinn til þess að opna og loka bílnum reglulega til að sjá ljós hans í myrkri (konunni minni og vinum var ekki skemt).

Tækni sem virkar

Ég hef aldrei verið svo frægur að koma í höfuðstöðvar Hyundai, en mig langar mikið að sjá kjallarann þar sem þeir hafa læst verkfræðinga og hönnuði sína í, til að láta þá fullkomna akstursupplifun og verkfræðilega virkni bílsins. Þeir hafa náð að láta tvær gerðir af aflgjöfum virka saman í einni heild til að skapa ánægjulegan bíl fyrir venjulegt fólk, sem vill eignast rafmagnsbíl en býr ekki við þann lúxus að eiga sitt eigið stæði eða bílskúr.

image

Vélarými bílsins er áhugavert að skoða. Án þess að vera bifvélavirki gat ég stoltur bent ljósmyndara billinn.is á hvaða íhlutir væru hverjir. Ég hafði 50% rétt fyrir mér.

Bensínmótorinn virðist keyra áfram bílinn við hærri hraða, en rafmagnið nota þeir í að koma bílnum af stað. Gerir þetta að verkum að báðir mótorarnir fá að vinna á sínum sterkustu sviðum. Rafmagnsmótorinn og bensínvélin vinna því kröftuglega saman og finnur maður aldrei fyrir hnökri þegar skipt er á milli aflgjafa. Bílinn sér sjálfur um þetta og eftir að hafa reynt að hlusta eftir því í klukkutíma gafst ég upp, hækkaði í útvarpinu og fór að fikta í afþreyingarkerfinu.

image

Rafmagn? Bensín? Hvort viltu? Það er gott að hafa valið.

Ég bý í blokk þar sem engin aðstaða er til hleðslu fyrir okkur. Við hinsvegar vinnum bæði á stað þar sem í boði er að hlaða. Þó svo að þú nærð ekki að hlaða bílinn þennan og þennan dag þá er ekkert mál að aka um á bensínmótornum einum saman. Öll tæknin hverfur bakvið mælaborðið og þú getur einfaldlega notið þess að keyra. Bíllinn sér um sig sjálfur og þú þarft engar áhyggjur að hafa, bara njóta.

image

Með bílnum kemur hleðslutæki og er það gífurlega einfalt í notkun. Stingur því í samband eins og brauðrist. Hinn endinn fer svo í bílinn og hann blikkar bláum ljósum í framrúðu til að láta vita um hvort hleðslan sé hafin eða henni lokið.

Lokaorð

Tengitvinnbílinn Ioniq heillaði mig mjög mikið þann dag sem ég fékk að hafa hann. Ég þrufti aldrei að spá í hversu marga kílómetra ég kæmist á batteríinu einu saman, en fullhlaðið í frosti voru það um 40 (uppgefið 63), aðeins að setjast út í bíl og fara af stað. Við lögðum honum oft í stæði sem í boði eru fríar hleðslur á meðan að við gerðum það mikilvægasta sem fjölskylda getur gert, og það er að lifa lífinu án þess að vera með nokkrar áhyggjur af því hvort við kæmumst á milli staða eða ekki. Ioniq vann það verk mjög vel og notagildi hans sannaði sig svo sannarlega. Eyðslan á bílnum fór aldrei yfir 5L/100km og vorum við alltaf einhvernvengin að keyra fleiri kílómetra en við héldum á batteríinu, jafnvel þó bílinn sagði að það væri tómt. Ioniq kom mér skemtilega á óvart og er ég strax farinn að sakna hans, janfvel þó að það sé innan við sólarhringur síðan ég skilaði honum til Hyundai í Kauptúni. Ég hvet þig til að skoða hann og mæli með honum í hvítu og með ljósu leðri í Style útfærslu.

Ef þér lýst ánn’, keyptann.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is