Reynsluakstur: Aiways U5, árgerð 2021
Umboð: Vatt ehf

Verð, búnaður, lipur, frágangur
Upplýsingar á mælaborðsskjá

Ferskur blær á íslenskum bílamarkaði

Við vorum reyndar búin að heyra af þessum bíl nokkru áður en við tókum hann til prufu. Það var svo fyrir um hálfum mánuði að við reynsluókum þessum huggulega fólksbíl. Við höfðum ekki séð bílinn í umferðinni og vissulega ekki myndað okkur nokkra skoðun á bílnum, frekar en öðrum bílum, áður en við lögðum í hann.

Það er skemmst frá því að segja að hann kom á óvart – verulega á óvart.

image

Aiways U5 er millistór fólksbíll með framdrifi.

Aiways U5 er framleiddur af frumkvöðlafyrirtæki sem stofnað var árið 2017. Stofnendurnir eru engir nýgræðingar í bílaiðnaðinum en einn af stofnendunum er fyrrum fjármálastjóri Saic samsteypunnar, eins stærsta bílaframleiðanda í Kína, fyrrum sölustjóra Volvo í Kína.

Það er síðan Þjóðverjinn Roland Gumpert, fyrrum stjórnandi hjá Audi, sem er þriðji maðurinn í keðjunni.

Sér á báti

Aiways er nokkuð sérstakur bíll. Hann er rúmgóður, tæknilega vel gerður og hann er á frábæru verði. Rafhlöðupakkinn í Aiways er marglaga og samanstendur af 24 einingum.

Sellurnar koma frá hinum þekkta birgi CATL en tæknin í rafhlöðunum hefur verið þróuð af Aiways.

Rafhlaðan rúmar 63 kWst. og rafmótorinn í bílnum gefur um 204 hestöfl. Togið er um 310 Nm. Akstursdrægnin er um 410 km. á fullri rafhlöðu en 400 km. á Premium gerð bílsins þar sem sú gerð er með örlítið meira af búnaði sem notar rafmagn.

image

Smart en látlaust útlit að framan.

Aiways tekur við um 90 kW. hleðslu á klukkustund. Það þýðir að ef bíllinn er hlaðinn frá 20 upp í 80% í hraðhleðslu með 50 kW. tekur um klukkustund að hlaða. Í 100 kW. hleðslustöð tæki um hálftíma að hlaða frá 20 upp í 80%.  

image

Plus gerðin kemur á 17 tommu álfelgum en Premium á 19 tommu álfelgum.

image

Aiways þýðir „Fram á veginn“

Hagkvæmur

Við prófuðum bílinn í brjáluðu veðri, rigningu og roki og tókum Suðurnesin eins og svo oft áður. Ekki sáum við teljandi meiri orkunotkun þrátt fyrir að veðrið væri með læti. Og við keyrðum bílinn bara lauflétt og vorum ekkert að hugsa um eyðslu.

image

Afturhlerinn er með rafstýrðri og snertilausri opnun.

image

Gott pláss er í öllum bílnum.

Það er að sjálfsögðu talsverður munur á rekstri rafmagnsbíls og bíl sem búinn er hefðbundinni brunavél. Oftar en ekki eru bílstjórar að versla eldsneyti með því að fylla tankinn.

image

Gott aðgengi bæði um fram- og afturdyr. Þú situr hátt og sest beint inn í bílinn en ekki niður í hann.

image

Aiways U5 er sérlega vel búinn bíll. Frágangur er allur hinn flottasti. Sætin eru bæði falleg og þægileg. Við prófuðum bíl af Premium gerð með ljósu leðuráklæði á sætum og nutum þess að sitja í björtu og rúmgóðu rýminu.

Premium gerðin er með glerþaki og rafdrifinni sóllúgu að framan.

Mælaborðið er sniðuglega hannað og gerir rýmið enn meira aðlaðandi. Frágangurinn á innanrýminu er eftirtektarverður, saumar í sætum og mælaborði.

image

Glæslieg hönnun innanrýmis er eftirtektarverð.

image

12.3 tommu skjár afþreyingarkerfis.

image

Sætin eru sérstaklega þægileg og hönnun þeirra í hæsta gæðaflokki.

Mjög vel búinn

Tæknilega séð er Aiways U5 mjög vel búinn. Við erum að tala um hraðastilli með aðlögun, sjálfvirkri stöðvun og ræsingu vélar.

Allt þetta nema bílastæðavarinn er bæði í Plus og Premium gerðunum. Premium er með bílastæðavara og þráðlausri hleðslu.

Þetta fá kaupendur fyrir 5.690.000 krónur í Premium gerðinni.

image

Þráðlaus símhleðsla í Premium gerð ásamt snertistýrðu loftfrískunarkerfi.

Að auki er bíllinn sneisafullur af allskyns þægindum eins og USB, rafstýrðum afturhlera, flottu hljóðkerfi með átta hátölurum, Apple Carplay, lyklalausri ræsingu og lyklalausu aðgengi að framdyrum. 360 gráðu myndavélin er ansi skýr og flott.

image

Framljósin setja sterkan svip á bílinn.

Góðir aksturseiginleikar

Bíllinn er laufléttur í akstri, stýrið létt en mætti vera nákvæmara ef borið er saman við til dæmis bíla eins og VW ID.4 og Tesla. Fjöðrun er þrælfín og bíllinn tekur högg frá holum og óslettu malbiki mjög vel.

Aflið er nægilegt til venjulegs aksturs. Hröðun er gefin upp 7.8 sekúndur (0-100) og þykir kannski ekki mikil miðað við marga rafbíla á markaðnum í dag.

Höfum við eitthvað við meiri hröðun að gera? Það þótti geggjuð hröðun árið 1984 þegar Honda Civic Sport kom með 1.5 lítra vél og var um 7.4 sekúndur í 100 km/klst.

image

Plássið aftur í er frábært.

image

Bíllinn fær 3 stjörnur í Euro NCAP árekstrarprófuninni og er það galli, sérstaklega af því bíllinn er framleiddur í Kína og þeir eru að vinna upp markaði og öðlast traust í bílaframleiðslu í Evrópu.

Reyndar er það próf á bíl framleiddum 2019 en ekki er komin prófun á nýjustu árgerðinni.

Eins vorum við að pæla í af hverju mælaborðsskjárinn væri þrískiptur með tveimur flipum hvorum megin. Í öðrum voru upplýsingar um loftþrýsting í dekkjum.

Hefði ef til vill verið snjallt að hafa bara einn skjá með öflugri grafík.

Einnig fannst okkur vanta sýnilegri upplýsingar um notkun rafhlöðu og framgang hleðslu og notkun raforku.

Hentar mörgum

Aiways U5 hentar sérlega vel fjölskyldufólki með stóran barnahóp. Í bílnum er Isofix festing. Hann væri mjög hentugur fyrir fólk sem er mikið á ferðinni í borginni enda rafmagnsbíll mjög hagkvæmur við slíka notkun.

Hann hentar sem ferðabíll undir mikinn farangur og gott pláss er fyrir alla – bæði fram í og aftur í.

Að lokum hentar þessi bíll einnig eldri borgurum þar sem mjög gott er að ganga um bílinn, gott að setjast inn og stíga út.

image

Vandaður frágangur hvarvetna.

image
image

Slétt gólf, rafhlaðan er neðst í bílnum og þar með þyngdarpunkturinn.

Aiways U5 er sem ferskur blær á íslenskum bílamarkaði, flottur bíll með öllu á frábæru verði. Ekki spillir fyrir að umboð bílsins er traust og með áratugalanga reynslu.

Helstu tölur:

Verð frá 5.190.000 kr. Reynsluakstursbíll af Premium gerð á 5.690.000 kr.

Rafhlaða: 63 kWh.

Dráttargeta: 1500 kg.

Drægni: 400-410 km.

Hæð undir lægsta punkt: 15 sm.

0-100 km á klst. 7.8 sek.

Farangursgeymsla: 1.551 lítrar að hámarki.

CO2: 0 g/km.

Þyngd: 1.735 kg.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is