Reynsluakstur: Toyota Yaris Cross, árgerð 2022
Umboð: Toyota á íslandi

Akstur, stýri, búnaður
Útstig um afturhurðir, skjár, hart plast í innréttingu

Yaris Cross; hærri, lengri og fjórhjóladrifinn

Toyota Yaris er kominn í sport-jepplings útgáfu. Hvernig virkar það á ykkur? Toyota Yaris hefur heldur betur notið vinsælda fyrir að vera framúrskarandi smábíll með gott notagildi og hagkvæmni á háu stigi.

Það er mín tilfinning að nýr Toyota Yaris Cross verði engu síðri en litli bróðir hans, Yaris. Yaris Cross er 90 mm hærri og 240 mm lengri en Yaris fólksbíllinn.

image

Toyota Yaris Cross er fallegur á að líta.

Kraftmikil hönnun

Nýr Yaris Cross vekur nokkra athygli vegna kraftmikillar hönnunar. Hjólaskálar eru klæddar svörtu plasti sem rammar þennan þekkilega bíl svolítið inn og gefur honum sterkan svip. Svart grillið talar vel við lakkaða framhluta bílsins og sílsar eru einnig klæddir svörtu plasti.

Ekki ólík innrömmun og VW gerði við nýja ID.4 rafbílinn.

Hlaðinn búnaði

Það sem vekur athygli við nýja Yaris Cross er að grunntýpur eru tæknilega vel búnar. Verðið á bílnum er frá 5.080.000 í dag (janúar 2021).  

Meðal búnaðar í Active útfærslu Yaris Cross er til dæmis lykillaust aðgengi, hraðastillir og sjálfvirkt háuljósakerfi.

Active Plus útgáfan er með 17 tommu felgum, 7 tommu skjá í mælaborði og er í boði með tvítóna litasamsetningu. Active Plus er einnig með öflugum LED aðalljósum.

image

Toyota Yaris Cross fæst í fjórum útgáfum með bæði bensín og hybrid vélum.

Fjölbreytt úrval

Bíllinn sem við fengum til reynslu var í Elegant útfærslu. Þá er bíllinn kominn á 18 tommu felgur, er með upphitaðri framrúðu, bakkmyndavél, þráðlausri hleðslu fyrir síma, blindsvæðaskynjara, umferðarskynjara að aftan með sjálfvirkri hemlun, aðfellanlegum hliðarspeglum og baksýnisspegli með glýjuvörn svo fátt eitt sé nefnt.

image

Nýr Yaris Cross er talsvert hærri, breiðari og lengri en litli bróðir hans, Yarisinn.

Verð

Að auki býður Toyota á Íslandi bílinn í Adventure útgáfu með svipuðum búnaði og Elegant bíllinn.

image

Sterkur baksvipur. Sautján sm. eru undir lægsta punkt.

Toyota Yaris Cross er búinn 360° myndavélakerfi sem samanstendur af fjórum myndavélum í bílnum og á að auðvelda lagningu í stæði. Þessi búnaður er mismunandi eftir útfærslum.

Fimm stjörnur

Toyota Yaris Cross er ákaflega vel hannaður með tilliti til öryggis.

Yaris Cross fékk fullt hús stiga í Euro NCAP árekstrarprófunum eða fimm stjörnur.

Yaris Cross er að meðaltali með yfir 80% skor í prófununum.

image

Í Elegance útgáfunni kemurbíllinn á 18 tommu álfelgum sem setja mjög skemmtilegan svip á bílinn.

Bíllinn skynjar hliðarumferð og tekur í taumana ef útlit er fyrir árekstur. Skynvæddur hraðastillir er í boði ásamt akreinastýringu og sjálfvirkri háuljósaskiptingu – sem er ansi þægilegur búnaður finnst mér.

Lipur og þægilegur

Aksturinn í þessum nýja sport-jepplingi er nokkuð áhugaverður. Hann er silkimjúkur.

image

Sætin eru þægileg og setur nægilega breiðar og halda þokkalega við.

image

Efnisval er ágætt en talsvert er af hörðu plasti í innréttingunni.

image

Efnisval í sætaáklæði er praktískt og endingargott eins og Toyota er von og vísa.

Þess má geta að hægt er að fá bílinn beinskipan í ódýrari gerðum en fjórhjóladrifið er aukabúnaður. Sætin í Elegant bílnum eru fín.

Seturnar eru nokkuð breiðari en til dæmis í Corolla og C HR bílum Toyota.

Fann reyndar ekki fyrir neinum sérstökum bak- eða hliðarstuðningi en heilt yfir er Yaris Cross með góðum sætum.

Þröngt útstig að aftan

Aðgengi er þokkalegt, að framan er það mjög fínt en fullþröngt að aftan þar sem hurðir mættu opnast betur. Reyndar kemur plássið aftur í á óvart. Þar er hið þokkalegasta pláss. Fótapláss er reyndar ekki mikið en höfuðpláss nokkuð gott.

Yaris Cross hentar án efa ungu fjölskyldufólki sem keyrir mest í borginni og er með lítil börn – enda hybrid tæknin frábær í borg.

Einnig gæti bíllinn verið góður kostur sem annar bíll á stóru heimili eða fyrir eldra fólk sem vill ferðast og komast aðeins út fyrir þjóðveg nr. 1.

image

Fínt er að ganga um bílinn um framdyr.

image

Útstig er frekar þröngt fyrir fullvaxinn einstakling.

image

Farangursgeymsla opnast vel og sætin er hægt að fella niður 40:20:40.

Nú er Apple CarPlay og Android Auto staðalbúnaður í afþreyingarkerfi Toyota Yaris. Þar virkar allt og er bara einfalt í notkun en skjárinn hefur ekki batnað í áranna rás, hvorki upplausn né snertinæmni.

image

Tólf volta tengi, ljós og farmfestingar ásamt gúmmímottu í farangursgeymslu.

Raunverulegir takkar

Loftræstingin er með raunverulegum tökkum. Sá búnaður er mjög aðgengilegur og þægilegur í notkun. Vinstra megin við stýrið neðarlega eru svo takkar sem stjórna hita í stýri, myndavél og afturrúðu hitara.

Einhversstaðar verða þessir takkar að vera ef ekki í stórum og miklum tölvuskjám í miðju mælaborðs.

Helstu samkeppnisbílar Yaris Cross eru til dæmis Ford Puma, VW T-Cross og Skoda Kamiq en enginn þessara bíla er í boði í aldrifsútgáfu.

image

Flott LED ljós að aftan og framan.

Allar upplýsingar

Ef þið eruð í bílahugleiðingum hvetjum við ykkur til að heimsækja Toyota á Íslandi (t.d. í Kauptúni) og fá að taka hring á nýjum Yaris Cross. Fáið líka bækling, því í honum eru upplýsingarnar með þeim nákvæmari og yfirgripsmestu sem ég hef séð um nýjan bíl undanfarin misseri.

Helstu tölur:

Verð frá : 5.080 þús. kr. (Verð á reynsluakstursbíl 6.380.000 kr.).

Hestöfl: 116 hö.

Vél: 1.500 rms., þrír strokkar.

Rafmótor: 59 kW

Tog: 120 Nm.

Eyðsla bl.ak.: 4.0 ltr/100km.

Eigin þyngd: 1.360 kg.

Dráttargeta: 750 kg.

Toyota Yaris Cross verðlisti
Útfærsla
Drif
Vél
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
VERÐ FRÁ.
Active
Framhjóladrif1.5L Beinskipting. 6 gíra Bensín153 - 125
Active
Framhjóladrif1.5L Sjálfskipting Bensín153 - 125
Hybrid Active
Framhjóladrif1.5L Sjálfskipting Bensín Hybrid120 - 116
Hybrid Active plus
Framhjóladrif1.5L Sjálfskipting Bensín Hybrid120 - 116
Hybrid bi-tone Active plus
Framhjóladrif1.5L Sjálfskipting Bensín Hybrid120 - 116
Hybrid Active
Fjórhjóladrif1.5L Sjálfskipting Bensín Hybrid120 - 116
Hybrid Active plus
Fjórhjóladrif1.5L Sjálfskipting Bensín Hybrid120 - 116
Hybrid bi-tone Active plus
Fjórhjóladrif1.5L Sjálfskipting Bensín Hybrid120 - 116
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. Toyota á Íslandi áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is