Reynsluakstur: VW ID.3, árgerð 2020
Umboð: Hekla

Hönnun, akstursupplifun, tækni, sæti
Afturdrifinn

Glæsilegur rafdrifinn fólksvagn

Við erum með einn nýjasta rafbílinn á íslenskum bílamarkaði í reynsluakstri í dag. Þetta er hinn nýi ID.3 frá Volkswagen, sem er í prófun núna.

Rafbílar eru stöðugt að sækja í sig veðrið og eru sífellt betri valkostur með lengri akstursvegalengd sem er möguleg í dag á einni hleðslu.  

image

ID.3 markar upphafið að nýju og kraftmiklu skeiði í akstri rafbíla.

Við Pétur R. Pétursson og Jóhannes Reykdal tókum allir túr á þessum nýja bíl og sitt sýndist hverjum.  Eru þeir álitsgjafar í þessari grein minni um ID.3.

Meira en 40 ár frá fyrsta rafbílnum hér á landi

Jóhannes Reykdal sagði: „Mér varð hugsað til Gísla Jónssonar verkfræðings sem flutti inn rafbílinn Electra Van árið 1979, með atbeina Háskóla Íslands og með aðstoð nokkurra fyrirtækja. Gísli vann að rannsóknum á notkun rafbíla á Íslandi og var frumkvöðull á því sviði hér á landi.

Ég fór á sínum tíma í langa ökuferð með Gísla á þessum kubbslega rafbíl, sem var byggður á grunnu lítils sendibíls, og gleymi seint eldhuganum sem sat við hliðina á mér í þessari ökuferð og dásamaði þá möguleika sem rafbílar myndu eiga hér á landi með alla okkar sjálfbæru raforku.

Þessi tilraun Gísla gekk ekki nógu vel og fjaraði eiginlega út, og bíllinn endaði austur á Egilsstöðum , en það var Rósa Ingólfsdóttir auglýsingateiknari og fyrrum samstarfsmaður minn hjá Sjónvarpinu sem hafði látið bjarga bílnum og kom honum í geymslu fyrir austan á sínum tíma. En nóg um gamla tíma og snúum okkur aftur að ID.3

Kom fyrst fram sem hugmynd árið 2016

Volkswagen ID.3 er rafbíll í flokki minni bíla (C-flokki). Bíllinn er byggður á svokölluðum MEB grunni og fyrsti bíllinn í röð I.D-bíla frá VW. Bíllinn var frumkynntur þann 9. september 2019 á bílasýningunni í Frankfurt, eftir að hafa verið sýnd fyrst sem I.D. hugmyndabíll á bílasýningunni í París 2016. Afhending til kaupenda hófst núna í í september 2020 í Þýskalandi og núna er bíllinn líka kominn hingað til lands. ID.3 er ein af fimm nýjum Volkswagen gerðum sem byggja á MEB pallinum, og núna fyrri nokkrum dögum frumsýndi VW síðan annan bíl í þessari línu – ID.4 sem koma mun í sölu eftir nokkra mánuði.

Ný tilfinning í akstri

„ID.3 markar upphafið að nýju og kraftmiklu skeiði í akstri rafbíla. Rafmögnuð akstursafköst, tímamótahönnun og hagnýt drægni. Fólk sækir í breytingar. Framtíðin er reiðubúin og hún bíður“. Svona kynnir Hekla þennan nýja rafbíl og þessi setning stendur vel fyrir sínu.

image

Skemmtileg hönnun bílsins er með ákveðnum framtíðarbrag.

Það var því með eftirvæntingu sem sest var undir stýri á þessum nýja ID.3. En ólíkt mörgum alveg nýjum bílum þá tekur það aðeins mjög stutta stund að átta sig á helstu stjórntækum áður en byrjað er að aka

Byrjað er á ýta á ræsihnappinn sem er hægra megin á stýrisúlunni. Því næsta byrjaði leitin að gírskiptingunni, sem er næsta einföld, hnappur hægra megin á sjálfu mælaborðinu, þar sem skiptingunni er fjarstýrt með því að snúa flipa yst til hægri. Sé ýtt á endann á þessum skiptiflipa er stöðuhemillinn settur á eða takinn af Skiptibúnaðurinn virkar þannig að honum er snúið áfram til að velja akstur, val á stillingu D eða B.

image

Heildarsvipurinn er töff.

D er stilling fyrir venjulegan akstur og B til að breyta stillingum í nýtingu orku frá hemlun í rafhlöðustillingu og aftur á bak til að stilla hlutlausa stillingu og aftur á bak eða „bakkgír“.

image

Stjórnrýmið er einfalt og nýtískulegt. Sætin eru frábær í þessum nýja Volkswagen ID.3.

Þessi staðsetning á „gírskiptingu“ venst á augabragði og losar um pláss á miðjustokknum og þar er á staðinn að finna pláss fyrir tvo hæfilega stóra drykkjarbolla, sérstakt stæði fyrir þráðlausa hleðslu á síma og þar fyrir aftan ágætt geymsluhólf með renniloki, sem rúmaði meira að segja myndavélina í ökuferðinni. Í hólfinu er líka tvö USB-tengi fyrir hleðsluhafa og geymslutunnur.

Gott viðbragð

Það er gaman að aka ID.3! Þegar létt er stigið á inngjöfina rennur bíllinn léttilega af stað. Snöggt viðbragðið gerir það að verkum tilfinningin er að ID 3 sé miklu léttari bíll en tæplega 1800 kílóa eigin þyngd hans gefur til kynna og gefur bílnum nokkuð kröftuga svörun í akstri miðað við 204 hestöflin. Augnablikstogið sem rafmótorinn myndar er öflugt og þar sem skiptihlutföll eru engin er hröðunin línuleg og óbreytanleg í styrk upp að hámarkshraða.

image

Hurðir opnast vel og skapa þægilegt aðengi bæði frammí og afturí.

image

Um leið og hemlað er þá byrjar bíllinn að nýta orkuna til að hlaða rafgeyminn, og sama á við þegar bíllinn rúllar áfram án átaks, þá sést á mælistikunni á skjánum fyrir framan ökumanninn að bílinn byrjar „að skila til baka“ orku.

image

Farangursrýmið er aðeins stærra en í Golfinum eða um 385 lítrar.

Fullt af góðum búnaði

ID.3 er vel búinn bíll. Strax og komið er að bílnum blasir við smáatriði  sem virkar vel, en það er ljós í hurðarhandföngum að utan verðu, sem nýtist vel á dimmum bílastæðum.

„Mælaborðið“ er mjög einfalt í ID.3 – sýnir nánast aðeins nauðsynlegustu grunnupplýsingar. Þessu upplýsingum er líka varpað upp á framrúðuna til hægaðrauka fyrir ökumanninn í akstri.

image

Mælaborðið er sérlega einfalt og maður venst því fljótt að stjórna bílnum í þessu nýstárlega viðmóti.

Stór upplýsingaskjárinn í miðju mælaborðsins er síðan „hjarta“ bílsins! Þar er að finna nánast allt sem ökumaðurinn þarf að vita, þar er stillt á milli stillinga í akstri, en hægt er að velja á milli sparnaðarstillingar og „sport“-stillingar, sem var notuð mest af aksturstímanum. Þessi stilling tekur meira til sína af raforkunni, en það var samt aðdáunarvert að sjá hve lítið minnlaði á rafhlöðunni þrátt fyrir snarpan innanbæjarakstur, og síðan beinni akstur á lengri leiðum.

image

Risastórt „panorama“ sólþak úr gleri gerir innanrýmið bjartara og með einni fingursnertingu er hægt að láta gardínu renna fyrir lúguna.

Mikið lagt upp úr öryggi

Það fer ekki á milli mál að í ID.3 er mikið lagt upp úr öryggi: Listinn yfir öryggisbúnað í bílnum er langur, en þar á meðal má nefna: Aflestur umferðarskilta, aftengjanlegir loftpúðar við farþegasæti framan, akreinavari, ESC stöðugleikastýring og ABS hemlun, ISOFIX festingar fyrir barnabílstóla, loftþrýstingsviðvörun fyrir hjólbarða, tenging við neyðarþjónustu 112 með hnappi, viðbótar loftpúðar í gluggapóstum framan, viðvörunarljós fyrir öryggisbelti, árekstrarvöktun að framan með neyðarhemlun og þriggja punkta öryggisbelti fyrir öll sæti.

image

MEB grunnurinn byggir á sléttu gófi og meira plássi inni í bílnum.

Akreinavari virkar vel, og það má benda á sérlega góða viðvörun sem birtist á skýran hátt þegar bíll nálgast til hliðar og gula ljósið í hliðarspeglinum fer ekki á milli mála.

Ágætlega hljóðlátur

Auðvitað er þetta hljóðlátur bíll gæti einhver sagt. Já það er rétt en vegna þess að vélarhljóð er ekki til staðar, þá verður aðeins meira vart við veghljóð í akstri. En það var óneitanlega þægileg tilfinning að rúlla á bílnum á nýmalbikuðum köflum í gatnakerfinu, því þar er bíllinn nánast alveg hljóðlaus!

image

Sætisáklæði eru snilld og án efa mjög auðveld í umgengni.

Vindgnauð er nánast ekkert, sem sýnir að hönnunin hvað varðar loftmótsstöðu hefur tekist vel.

Gott pláss og ágæt sæti

Hvað innanrýmið áhrærir er plássið í góðu lagi. Sumir framleiðendur rafbíla hafa valið að vera nánast ekki með neinn miðjustokk, en hér er hann nýttur vel sem geymslusvæði. Gott fótarými er bæði í fram- og aftursætum, og inn og útstig mjög gott. Framhurðir eru nokkuð þungar og opnast vel út, en á móti kemur að það þarf að gæta sín vel á þeim þegar vindurinn nær taki á þeim þegar opnað er.

Sætin veita góðan stuðning í akstri, eru hæðarstillanleg og góðir stillanlegir armpúðar eru á báðum framsætum. Hiti í sætum virkar vel.

Stýrishjólið er með góðum aðgerðarstillingum og fellru vel að hendi í akstri. Stýrið er einnig með hita, sem er góður kostur á köldum morgni.

Það fer ekki á milli mála að þessi ID.3 er af fyrstu kynslóð bílsins og rækilega merktur sem slíkur með „1ST Edition“ merkingu í innréttingu.

image

Bíllinn er rækilega merktur 1st. Edition merkinu.

Geymslurými í bílnum nýtist ágætlega. Hanskahólfið er að vísu frekar lítið, en á móti kemur stór upplýst geymsluhólf með renniloki á miðjustokknum og vasar á hurðum, og aftan á framsætum.

Skemmtilegur ljósabúnaður

Ljósin á ID.3 eru öllu LED, björt og góð og þar til viðbótar eru ljós sem „tala“ við ökumanninn með ljósgeisla sem „rennur“ yfir framgluggann, og heilsa þegar komið er að bílnum. Og litla ljósið í hurðarhúnum sem áður var nefnt er skemmtileg viðbót.

image

Skemmtilegur ljósa fídus í hurðarhúnum.

Þegar ID.3 er yfirgefinn þá segir bíllinn „bless“ með ljósmerki.

Virkar vel!

Í heild er niðurstaðan eftir stuttan reynsluakstur sú að ID.3 „virkar vel“! Akstursdrægni á rafmagni ætti að duga flestum vel. Bíllinn er lipur í akstri og gott að leggja honum í stæði, þótt það taki eflaust nokkrar ökuferðir að átta sig vel á stöðu framendans, en á móti kemur að viðvörunarkerfið í bílnum lætur vita á mjög skýran hátt að þú ert farin/n að nálagst einhverja hindrun fyrir framan eða aftan. Baksýnismyndavélin er björt og sýnir vel svæðið fyrir aftan bílinn.

Verð

Það er alltaf hægt að rökræða verð. Reynsluakstursbíllinn kostar um 6.900.000 krónur og þykir okkur það vel í lagt fyrir ekki stærri bíl – en byrjunarverðið er um 5 milljónir króna.

Grunnútgafan er vel mjög búin en vantar þó bakkmyndavél sem er staðalbúnaður í mörgum ódýrari gerðum bíla í dag. Það vegur hins vegar upp á móti allri annarri nýrri tækni sem í boði er í bílnum og gerir hann að mjög góðum kosti á ört vaxandi rafbílamarkaði.

image

Þessar 20 tommu felgur eru aðeins í boði á 1st. Edition bílnum.

Drægni, drif og afl

VW ID.3 er búinn 204 hestfla rafmótor og fæst með 58 eða 77 kWh rafhlöðum sem gefa annarsvegar 420 km. drægni og hins vegar 550 km. drægni. Einnig er mögulegt fá bílinn með enn minni rafhlöðu, 45 kWh.

Eyðslan í venjulegum bæjarakstri og það í dæmigerðu haustveðri (5°C) er um 20 kWh á 100 km. CO2 útblástur er 0 gr. á km. ID.3 er aðeins stærri en Golf í öllum málum en þó ber þar hæst heildarhæð bílsins sem er um 60 mm. hærri og lengd milli hjóla er tæpum 15 cm. lengri.

Farangursrýmið er örlítið stærra en í Golfinum eða tæpir 390 lítrar. ID.3 er afturdrifinn og stóra spurningin er hvernig það mun reynast í snjó og hálku því bíllinn er þungur. Bíllinn er þó væntanlegur með fjórhjóladrifi á síðari stigum.

Helstu tölur:

Verð frá 5.190.000 kr. (Verð á reynsluakstursbíl 6.890.000 - ID.3, 1st MAX).

Vél: 150 Kw og 45, 58 og 77 Kwh rafhlaða.

Hestöfl: 204.

Newtonmetrar: 310 Nm.

0-100 km á klst. 7,3 - 8,5 sek.

Hámarkshraði: 160 km/klst.

CO2: 0 g/km.

Eigin þyngd: 1.794-1.934 kg.

L/B/H 4261-4356/1809-2070/1568 mm.

Útfærsla
Drif
Girkassi
Eldsneyti
Tog-Hö.
Stærð rafhlöðu
Drægni allt að
VERÐ FRÁ.
Pro Performance
Afturhjóladrif Sjálfskipting Rafmagn310 - 20458 kWh420 km
* Eydsla bL akstur ** 0-100 km/klst
Gert með fyrirvara um prentvillur. HEKLA HF. áskilur sér rétt til breytinga án fyrirvara á verði og búnaði. Vinsamlegast athugið að búnaður á mynd getur verið ólíkur búnaði bílsins.
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is