Trabant - kom, sá og sigraði

    • ódýri bíllinn sem sló í gegn á sínum tíma hér á landi

Á árunum um og eftir 1960 var Ísland að losna úr innflutningshöftum, sem verið höfðu allsráðandi á landinu í mörg ár frá lokum heimsstyrjaldarinnar. Fram að því þurfti leyfi fyrir öllum sköpuðum hlutum; allt frá gúmmístígvélum og til að kaupa bíla.

En það losnaði um höftin og árið 1963 birtist nýr bíll á Íslandi: Trabant frá Þýska alþýðulýðveldinu eða Austur-Þýskalandi eins landið var kallað.

Innflytjandinn var Ingvar Helgason stórkaupmaður sem þegar hafði haslað sér völl í ýmsum innflutningi frá þessum heimshluta og varð bílainnflutningur aðalviðfangsefni hans næstu áratugina.

En vegna veikinda Ingvars var þessu slegið á frest nokkrum sinnum þannig að þetta varð aldrei nema sundurlaust spjall, og Ingvar andaðist 18. september 1999.

En saga Ingvars fram að bílainnflutningnum var ekki bein og breið. Ingvar lauk prófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík 1948 og hóf þá störf hjá Helga Lárussyni frá Klaustri, en Helgi kom á þeim tíma að bílainnflutningi. Árið 1951 réðst Ingvar til Innkaupastofnunar ríkisins og starfaði þar til 1960.

Síðar bættust við Nissan og Subaru bílar frá Japan. Árið 1993 stofnaði Ingvar og fjölskylda fyrirtækið Bílheima ehf. sem flutti inn Opel, Isuzu, Saab og GM bíla.

En þetta var útúrdúr, því ætlunin var að fjalla svolítið um Trabant bílana, upphaf þeirra og sögu.

Upphafið 1957

Trabant var framleiddur frá 1957 til 1990 af fyrrum austur-þýska bílaframleiðandanum VEB Sachsenring Automobilwerke Zwickau. Það er oft litið á þennan bíl sem táknrænan fyrir fyrrum Austur-Þýskaland og hrun austurblokkarinnar almennt.

image

Hér er Trabant 600 (P60) sem var framleiddur 1962 til 1964. Framsveigð vélarhlífin og litlir gluggar settu svip sinn á bílinn.

Á níunda áratug síðustu aldar var enginn snúningshraðamælir, hvorki sást í mælaborðinu að kveikt væri á framljósum eða stefnuljósum, enginn eldsneytismælir, engin öryggisbelti að aftan, engin áfylling eldsneytis utan á bílnum; ökumenn urðu að opna vélarhlífina og hella blöndu af bensíni og olíu beint í bensíntankinn aftast í vélarhúsinu.

image

Og hér er auglýsingamynd af stationbílnum, eða Trabant 600 Universal árgerð 1962. Þessi gerð var mjög vinsæl í heimalandinu vegna þess að plássið var mun meira en í fólksbílnum.

Alls voru framleiddir 3.096.999 bílar á þessum nærri þremur áratugum með fáum breytingum á grunnhönnun þeirra.

image

Þýska orðið Trabant, er dregið af miðháþýska orðinu „drabant“. Sagt er að nafn bílsins hafi verið innblásið af sovéska spútnik-gervitunglinu.

Bílarnir voru yfirleitt kallaðir í heimalandinu „Trabbi“ eða „Trabi“. Trabant var framleiddur án mikilla breytinga í næstum 30 ár og varð algengasti bíllinn í Austur-Þýskalandi.

image

Framleiðslan á Trabant var að mestu með handafli, en „færiband“ var samt til staðar þar sem einingunum var raðað saman. Þar sem framleiðsla á Trabant var ríkiseinokun tók um það bil tíu ár að eignast Trabant. Austur-þýskir kaupendur voru settir á biðlista í allt að þrettán ár, en biðtíminn fór eftir nálægð þeirra við höfuðborgina Berlín. Markaðsverð fyrir notaða Trabantbíla var meira en tvöfalt hærra en fyrir nýja bíla.

Einföld smíði og úr endurunnu efni

Trabant var með einfalda stálgrind (unibody – eða sjálfberandi yfirbyggingu) en með þaki, skottloki, vélarhlíf, brettum og hurðum úr „duroplasti”, hörðu plasti úr endurunnum bómullarúrgangi frá Sovétríkjunum og fenólkvoðu frá litaiðnaðinum í Austur-Þýskalandi.

    • P50, einnig þekktur sem Trabant 500 (framleiddur 1957–1962)
    • Trabant 600 (1962–1964)
    • Trabant 601 (1963–1990)
    • Trabant 1.1, framleiddur 1990–1991 með 1.043 cc VW vél

Trabant var með tvígengisvél

Vélin í Trabant 500, 600 og í fyrstu gerðum 601 var lítil tvígengis vél með tveimur strokkum og rétt dugði fyrir þennan litla bíl. Þyngd bílsins var um 600 kg. Þegar framleiðslan hætti árið 1989 skilaði Trabant 25 hestöflum úr 600 cc rúmtaki.

Svona til viðmiðunar við bíla nútímans tók það 21 sekúndu að koma bílnum frá núlli upp í 100 km hraða.

Vélin sendi frá sér mjög reykfylltan útblástur og var veruleg uppspretta loftmengunar: Níu sinnum kolvetni og fimmfalt koltvíoxíð frá meðaltali evrópskra bíla 2007. Eldsneytisnotkunin var 7 l/100 km.

Margir töldu þetta auka hættuna á eldi í árekstrum, en ekki hefur verið sýnt fram á að svo hafi verið.

Fyrri gerðir höfðu engan eldsneytismæli og var kvarða stungið ofan í tankinn til að ákvarða hversu mikið eldsneyti væri eftir.

Uppruni og full framleiðsla

Það að Trabant skyldi yfirleitt verða til var afleiðing ferlis sem hafði verið ætlað að hanna þriggja hjóla mótorhjól.

Vél úr DKW frá því fyrir heimstyrjöldina

Loftkæld, 500 cc vél Trabant - uppfærð í 600 cc á árunum 1962–63 - var fengin úr DKW hönnun fyrir stríð með smávægilegum breytingum meðan á framleiðsluferli hennar stóð.

Svo kom Trabant P601 árið 1964

Uppfærð gerð Trabant, sem kölluð var P601 var kynnt árið 1964. Sá bíll var í meginatriðum andlitslyfting á P60, með öðruvísi framenda, vélarhlíf, þaki og afturenda en hélt að mestu undirvagni P50.

image

Hönnuðir Trabant bjuggust við að framleiðsla myndi endast í síðasta lagi til ársins 1967 og austur-þýskir hönnuðir og verkfræðingar bjuggu til röð af flóknari frumgerðum sem ætlaðar voru í stað P601.

Einnig var óbreytt framleiðsluaðferð notuð nánast allan tímann, sem var afar vinnuaflsfrek.

Framleiðslan hófst með 34.000 eintökum árið 1964, náði 100.000 árið 1973 og fór upp í 150.000 árið 1989.

image
image

Í hugum margra er Trabant tengdur órjúfanlegum böndum við fall Berlínarmúrsins í nóvember 1989, og þessi myndskreyting Birgit Kinder á hluta Berlínarmúrsins hefur svo sannarlega stimplað sig inn hjá þeim sem að koma til að skoða. Að vísu er víst búið að krota yfir myndina í dag.

Átti ekki von á svona góðum viðtökum

„Þegar ég byrjaði á þessum innflutningi árið 1963 þá datt mér aldrei í hug að bíllinn yrði eins vinsæll og raun bar vitni,“ sagði Ingvar Helgason við mig þegar við sátum á spjalli fyrir um það bil 25 árum.

Hann hefur staðið sig afskaplega vel, er lygilega ódýr, óskaplega einfaldur, og reksturskostnaður lítill,“ sagði Ingvar Helgason í spjallinu á sínum tíma.

Hann rifjaði líka upp þegar hann sá Trabantinn í fyrsta sinn. „Í einni af ferðunum til Austur-Þýskalands var okkur boðið út í sveit, og sátum þar fyrir utan veitingastað í sólskininu.

image

Stationgerðin af Trabant var sérlega vinsæl hér á landi. Hér er 1965 Trabant 601 Universal, eins og þessi gerð var kölluð.

Ítarlegar heilsíðuauglýsingar

Það vakti allmikla athygli þegar Trabant var kynntur hér á landi í upphafi að þá var miklu kostað til og ítarlegar heilsíðuauglýsingar voru birtar, og mikið lagt upp úr því að fjalla um það hvernig bíllinn væri framleiddur.

    • Trabant er ódýrasti bíllinn á markaðnum
    • Trabant er sparneytinn
    • Trabant er kraftmikill
    • Trabant er framhjóladrifinn
    • Trabant er sterkbyggður
    • Trabant hefur reynst afburða vel. Það sýnir 6 ára reynsla erlendis
    • Trabant er bíll fyrir yður

Verkstæðið opið til miðnættis

Í þessari auglýsingu í Morgunblaðinu í maí árið 1964 mátti einnig lesa að varahlutaþjónusta væri þegar fyrir hendi og eitt fullkomnasta verkstæði landsins sæi um viðgerðir. Þar gætu menn, ef þeir vildu, gert við bílana sína sjálfir undir leiðsögn fagmanns, eða látið fagmenn vinna verkið.

image

Töluvert fjallað um Trabant þegar hann kom til Íslands

Þegar dagblöðunum er flett frá þeim tíma þegar Trabant kom til landsins má sjá að það var töluvert fjallað um bílinn.

Í Morgunblaðinu í maí 1964 mátti meðal annars lesa þetta:

„Á undanförnum mánuðum hefur mikið flust hingað til lands af áður ókunnum bílum frá Austur-Þýzkalandi, og nefnast bílar þessir Trabant 600. Eftirspurnin hefur verið mikil eftir þessum bílum, og ástæðan aðallega sú að þetta eru ódýrustu bílarnir á markaðnum, kosta samkvæmt auglýsingum innflytjenda aðeins 67.900 krónur. Þetta er Iítill fjögurra manna bíll með yfirbyggingu úr plasti og tveggja strokka vél.

Horft til reynslu erlendis

Í þessari grein í maí 1964 horfðu menn til reynslunnar í nágrannalöndunum í sambandi við nýja „módelið"  og vitna til þess að bílasérfræðingar erlendra blaða hafi skrifað mikið um Trabant að undanförnu, aðallega í dönskum blöðum. „Trabantinn hefur unnið nokkuð á í sölu í Danmörku að undanförnu,“ segir í greininni.

Til dæmis var kvartað mikið yfir hávaða í gömlu gerðinni, en í nýja vagninum er hljóðeinangrun á gólfi og í vélarhlíf.

Einna besta dóma fékk Trabantinn hjá Mogens Damkier í blaðinu Information, en hann kvartar þó yfir stýrinu og hemlunum. En svo segir hann: „Ef menn vilja ekki eyða meiru en nauðsynlegt er í bíl kemur Trabantinn eðlilega til athugunar. Og ef kaupverðið hefur talsvert að segja, þá er endingin ekki síður mikilvæg.

Landvarðarbíll í Jökulsárgljúfri

Einum þessara Trabantbíla náði ég að kynnast ágætlega á sínum tíma. Þórunn, ein systra minna, keypti sér einn svona bíl árið 1977 í september, Trabant 601 station De Luxe (já hann var með öskubakka).

Hún greiddi 200 þúsund í peningum og afgangurinn var settur á víxla í umboðinu hjá Ingvari Helgasyni.

Víxillinn fór aldrei í banka, hún kom bara mánaðarlega, mappa var tekin úr hillu með víxlinum og innborgun færð inn á. Þetta lýsir því hvernig komið var vel fram við kaupendur bílanna á þessum árum hjá Ingvari.

Herða þurfti upp á ýmsum skrúfum, festa rúðuþurrkuarmana og eins þurfti að stilla kveikjuna.

Kveikjan í Trabant var sérstæð að því leyti að í henni voru tvær platínur, ein fyrir hvorn strokk. Til að stilla þetta var einfaldast að leggjast á jörðina og teygja sig að kveikjunni sem sat neðarlega framan á vélinni, taka lokið af og þá var hægt að stilla millibilið, sem átti það til að aflagast.

En þessi bláleiti Trabant þjónaði systur minni vel, og meðal annars á líftíma bílsins fór hún með hann með sér þegar hún sinnti landvörslu í Jökulsárgljúfri við Jökulsá á Fjöllum.

Þeir sem hafa komið á þessar slóðir vita að niður í Vesturdalinn við Hljóðakletta, þar sem aðsetur landvarða er á þessum slóðum, er löng og nokkuð brött aflíðandi brekka.

Og svo kom hann inn í nútímann

En undir lok framleiðsluferilsins tók Trabant ákveðið skref inn í nútímann með Trabant 1100 (einnig þekktur sem P1100) var 601-gerðin með aflmeiri 1,05 lítra, 45 hestafla vél úr VW Polo.

Með nútímalegra útliti (þar á meðal gírskiptingu á gólfi) var hann hljóðlátari og útblásturinn hreinni en hjá forveranum.

1100 var með diskabremsur að framan og hjólabúnaðurinn var fenginn að láni frá Volkswagen. Þessi gerð var framleidd 1989-1991, samhliða tvígengisvél P601. Fyrir utan vélina og gírkassann voru margir hlutar frá eldri P50, P60 og 601 samhæfðir 1100.

image

Trabant 1100 Universal, árgerð 1989– núna kominn með 1,1 lítra vél úr VW Polo.

image

Óneitanlega öðru vísi umhorfs í vélarhúsinu þegar Polo-vélin var komin í bílinn.

Og svo átti að uppfæra

Herpa - fyrirtækið í Bæjaralandi sem sérsmíðar litla bíla, keypti réttindin á Trabant nafninu og sýndi líkan af „nýjum Trabi“ á bílasýningunni í Frankfurt 2007. Framleiðsluáætlanirnar hljóðuðu upp á takmarkað upplag, og hugsanlega með BMW vél.

Hugmynd að Trabant nT var kynnt tveimur árum síðar, árið 2009, í Frankfurt. En við bíðum enn eftir „nýjum“ Trabant er það ekki?

image

Hugmyndabíllinn Trabant nT.

(Samantekt byggð á upplýsingum af vefsvæði Wikipedia, ýmsum bílavefsíðum og úr íslenskum dagblöðum, auk minnispunkta höfundar)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is