Tesla safnar upplýsingum úr bílum í Kína

    • Á sama tíma ræða kínverjar áhyggjur af öryggismálum

BEIJING – Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla sagði á þriðjudag að þau hefðu komið sér upp gagnagrunni til að safna upplýsingum úr bifreiðum sem þau framleiða og eru notaðar í Kína. Þetta gerist á sama tíma og upplýsingasöfnun bílaframleiðenda vekur vaxandi áhyggjur meðal þeirra sem koma að verndun persónuupplýsinga. Þetta eru upplýsingar sem aflað er með myndavélum og skynjurum í bílunum.

image

Tesla sagði í færslu á Weibo (kínverska Facebook) að gögn úr öllum framleiddum og seldum bílum á þeirra vegum í Kína yrðu geymd í gagnagrunninum.

Tesla bætti við að það myndi áfram stækka gagnaversnet sitt í Kína. Hlutabréf í félaginu lækkuðu um 0,7% í kjölfarið.

Kína sem er stærsti bílamarkaður í heimi og sá næststærsti fyrir Tesla er að leggja drög að reglum til að tryggja öryggi gagna sem verða til vegna notkunar bifreiða sem safna upplýsingum yfir netið. Gríðarleg aukning í sölu slíkra bíla veldur mönnum áhyggjum er varða friðhelgi einkalífs og þjóðaröryggi.

image

Starfsfólki kínverskra ríkisfyrirtækja hefur verið sagt að leggja ekki Tesla bílum sínum í eða við stjórnarbyggingar þar sem kínversk stjórnvöld óttast öryggisbrest vegna myndavéla bílanna.

Er þetta haft eftir heimildarmönnum sem Reuters hafði á sínum snærum og hafa þekkingu á málinu.

Grein byggð á Autblog

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is