Átta gata tryllitæki er alla jafna spennandi. En hvað segið þið um átta gata tryllitæki sem er bæði limmósína og blæjubíll?

Nú er nefnilega tæpur sólarhringur eftir af uppboðstímanum á Chrysler Town & Country Convertible glæsivagni sem virðist í toppstandi.

Bíllinn er í Saint Louis í Missouri en uppboðið sjálft fer fram á veraldarvefnum. Þegar þetta er skrifað er hæsta boð í bílinn voðalega margir dollarar, eða 76.000. Það eru um 10 milljónir króna og nokkuð langt frá lágmarksprís. Það eiga kannski eftir að bætast við einhver núll á næstu 22 klukkustundum en hér má fylgjast með uppboðinu.

Sagan segir að Clark Gable hafi átt tvo: Einn fyrir „Town“ og annan fyrir „Country“! Hvort það sé rétt skiptir ekki öllu en sagan er góð!

Þvílík og önnur eins drossía!

Þegar maður skoðar myndirnar á síðu uppboðsins er ekki laust við að hugrenningatengsl við skemmtiferðaskip, rjómatertur og hugmyndabíl skapist í kolli manns. Bíllinn er svo svakalegur fleki að í raun minnir hann á eitthvað allt annað en bíl. Ekki eldhúsinnréttingu þó, en viðarklæðning á bílum minnir mann oft á eitthvað slíkt.

Þetta timburverk er ekkert slor: Útskorinn mahóníviður rammaður inn í hvítan ask er eitthvað fínerí sem maður skellir ekki í gegnum bílaþvottastöðina!

Myndirnar sem skoða má hér og meðfylgjandi myndband segja meira en þúsund orð og gjörið svo vel: Chrysler Town & Country Convertible!

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is