Þeir voru nokkrir, hönnuðirnir á sjötta áratug síðustu aldar sem ætluðu sér að slá í gegn hjá ríka og fína fólkinu; með flippuðum „baðstrandarbílum“. Eftirspurn var eftir léttum og nettum bílum, einkum á meðal þeirra efnameiri sem nutu lífsins við strendur Miðjarðarhafsins.  

Almennilegur sandkornaþjappari

Margar voru hugmyndir hönnuða um slík farartæki  en fáar urðu að raunverulegum og áþreifanlegum sandkornaþjöppurum. Einn hönnuður, hinn rammítalski Giacinto Ghia, sló þó rækilega í gegn með baðstrandarútgáfum nokkurra gerða Fiat, einkum Fiat 500 og 600.

image

Sagan segir að maður að nafni Giovanni Agnelli, ástríðufullur sjóari og vonarstjarna ítalskra iðnjöfra þess tíma, hafi sem aðstoðarforstjóri Fiat, komið því í kring að hugmyndir Ghia urðu að bílum. Af teikniborðinu yfir á ströndina; og það á fjórum hjólum!

Góður í snekkjuskúrinn

Tilgangurinn með strandsnattaranum var auðvitað í grunninn að auðvelda sjóhundinum og aðstoðarforstjóra Fiat ferðalagið frá tveggja mastra skútunni á næstu knæpu. Eins og skrifað hefur verið um, til dæmis hér, er beinlínis kjánalegt að sigla um heimsins höf en vera svo „strand“ í hverri höfn; bíllaus og bjánalegur.

image

Burt með óþarft dót

Á ströndinni ætti ekki að flækja hlutina. Fyrsti strandbíllinn var gerður „úr“ Fiat 500 ´57; Dyr, þak og rúður (fyrir utan framrúðuna) fengu að flakka og í stað bólstraðra sæta voru sætin úr basti (tágasæti). Bastið er nefnilega ekki eins viðkvæmt og tauáklæði fyrir salti og bleytu. Hugsunin var að sjálfsögðu sú að bíleigendur gætu farið beint upp úr sjónum og upp í bíl - beint á barinn! Eða eitthvað í þá veru. Við hér á Íslandi erum ekki endilega svo vel að okkur þegar kemur að hegðun á baðströndum.

image

Í heimalandinu, Ítalíu, varð strandsnattarinn þekktur undir nafninu „La Spiaggina“ („Strendillinn“ leyfir blaðamaður sér að spinna) en út í hinum stóra heimi festist nafnið Jolly við hann.

Vinsæll á meðal stjórstjarna

Gleðigjafinn Jolly kostaði tvisvar sinnum prísinn á grunnbílnum sem ól hann. Þrátt fyrir að innihalda mun færri hluti en sá upprunalegi. Vel þekktir einstaklingar voru á meðal þeirra sem fyrstir eignuðust Jolly og má þar m.a. nefna skipakónginn Íslandstengda, Aristotle Onassis (sem sagt er að hafi átti þrjá svona bíla, takk fyrir!), leikarann Yul Brynner (sem hafði snattarann með í snekkju sinni og notaði sem golfbíl), kábbojann John Wayne og forseta Bandaríkjanna; Lyndon B. Johnson.

image

Fáir gleðigjafar framleiddir

Sagt var að hver og einn Jolly væri alveg spes. Engir tveir væru nákvæmlega eins. Eflaust er það rétt því hver bíll var sniðinn eftir óskum kaupandans. En þeir voru sannarlega ekki fjöldaframleiddir, Jolly-arnir, og talið er að innan við hundrað slíkir fyrirfinnist í heiminum í dag. Þar hefur saltið og gluggaleysið örugglega eitthvað að segja en hvað veit maður!

Árið 1958 fékk Ghia 200 stykki af Fiat 600 sem urðu að Jolly útfærslum. Þess má geta að 32 þeirra voru brúkaðir sem leigubílar á eyjunni Catalina við Los Angeles á árunum 1958-1962.

Vart þarf að geta þess hversu eftirsótt þau eru, þessi fáu eintök sem eftir eru af Fiat Jolly. Safnarar eru margir hverjir reiðubúnir að greiða fúlgur fjár fyrir slíkan strandsnattara og má til dæmis nefna að árið 2015 greiddi bílasafnari nokkur í Arizona rúmlega 170.000 dollara fyrir 1960 árgerðina af Fiat Jolly 600. Það eru rúmlega 20 milljónir íslenskra króna! Annar seldist hjá Sotheby´s á 106.000 dollara í maí síðastliðnum.

image

Meðfylgjandsi myndband ætti að segja allt sem segja þarf um hinn síkáta Fiat Jolly:

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is