Risi, fíll, smælki og ævisaga bíls eru á meðal uppákoma í þessari grein sem í upphafi lét lítið yfir sér en tók U-beygju fljótlega á lyklaborði blaðamanns.

Fornbílauppboð, furðubílauppboð, sportbílauppboð og svo mætti áfram telja. Eins og það eru nú til margir ljótir bílar í heiminum þá er að sama skapi til fullt af fallegum bílum sem hafa fengið gott „uppeldi“.

Undirrituð fylgist með nokkrum uppboðum á netinu með öðru auganu. Stundum báðum en ekki oft. Núna er eitt og annað áhugavert á uppboði The Marked by Bonhams. Þar eru iðulega ökutæki sem safnarar fá safnaramerki (svona eins og dollaramerki nema aðeins öðruvísi) í augun við að sjá.

Grátbrosleg saga

Gleymum þeim ókosti um stundarsakir og lítum nánar á nokkra gripi sem borðnir verða upp í dag og næstu vikuna. Byrjum á þeim sem boðinn verður upp í dag. Það myndi vera þessi Bentley hér:

image

Bentley Turbo R frá árinu 1990

„Jæja, fíllinn í herberginu.“ Já, hann er þarna, við sjáum hann öll og komumst ekki framhjá honum án þess að ræða um hann kannski biðja hann að hafa sig á brott? En textinn já: „Þessi bíll var sannarlega keyptur á uppboði í apríl síðastliðnum og hingað er hann kominn aftur. Af hverju?

Seljandi bílsins er 6´8” (203,2 cm) á hæð og passar einfaldlega ekki í bílinn,“ segir þar og ennfremur er greint frá því að stóri maðurinn hafi reynt að troða sér inn í bílinn en allt kom fyrir ekki. Það er ómögulegt fyrir manninn langa að láta fara vel um sig í bílnum. Seljandinn „elskar bílinn en þetta gengur bara ekki upp,“ segir í lýsingunni.

Þetta er því miður ekki búið, lesendur góðir. Þetta versnar aðeins því svo segir: „Til að fólk átti sig á eðli vandans fylgir mynd sem segir allt sem segja þarf.“

Þetta er myndin:

image

Auðvitað vill maðurinn ekki þekkjast og snýr andlitinu frá myndavélinni. En þessa leggi myndi maður nú þekkja aftur hvar sem er!

Fíllinn í herberginu, risastór (hávaxinn, jájá) maður sem gleymdi að hann væri rúmir tveir metrar á hæð og svo að mæta í myndatöku á stuttbuxum með loðna hvíta leggi, sólbrennda handleggi  og í strigaskóm. En hann snýr sér undan til að þekkjast ekki.  

Vonum hans vegna að einhver kaupi bílinn. Einhver sem passar í bílinn og þarf ekki að sitja í aftursætinu til að ná í bensíngjöfina.

Burtséð frá þessari grátbroslegu sögu þá er þetta jú Bentley og það mun vera ákaflega þægilegt ökutæki fyrir þá sem komast inn í hann og sömuleiðis út. Hér má fræðast betur um bílinn.

Einn „sérviskulegur“

Næsti bíll er einmitt af þeirri gerð sem við skulum rétt vona að stóri maðurinn komi ekki nálægt. Með lagni gæti hann komið öðrum fætinum inn í bílinn en lengra næði sagan ekki.

image

Autobianchi Bianchina Jolly Evocation Evocation frá árinu 1968 er nefnilega næstur. Bíllinn er í raun eins konar „smælki“ og er honum lýst af uppboðshöldurum sem „skemmtilegum“ bíl og jafnframt „sérviskulegum“ en bíll þessi er byggður á hinum margfræga Fiat 500 og raunar kemur slíkur bíll við sögu í grein nokkurri sem birtist hér og bar raunar yfirskriftina: Kannastu við hinn síkáta Fiat Jolly? ​​

image

Bíllinn sá, þetta tiltekna eintak, virðist sveipaður dulúð eða í það minnsta fylgja honum engir pappírar sem hægt er að byggja nokkuð á, en eitt vitum við fyrir víst að þetta smælki er 22 hestöfl sem 499cc vélin gefur. Nánar um bílinn hérna og verði þessi bíll á næsta uppboði getum við giskað á hver keypti hann.

Algjört „fyrirbæri“ með handrit innanborðs

Þetta orðaval, að bíllinn sé „fyrirbæri“, er ekki frá mér komið en uppboðshaldarar vilja meina að næsti bíll sé algjört „fyrirbæri“ og það skal játast hér og nú að þessa útgáfu af hippabílnum VW T2 hef ég ekki séð fyrr. Þetta er ekki „rúgbrauð“ heldur bara „brauð“ því það vantar svolítið upp á.  

image

VW T2 Double Cab Pick-up „Low light Crossover“ frá 1972

Þessi pallbíll á sér sögu, eins og allir bílar og mannfólkið líka. Sérstaklega ef pappírarnir fylgja. Það er að segja með bílunum. Ekki endilega mannfólkinu.

Seljandinn flutti bílinn til Bretlands frá Suður-Afríku, að því er virðist fyrir skömmu síðan, og fékk bíllinn skoðun án athugasemda í síðasta mánuði. Þá var búið að skipta um eitt og annað í þeim gamla, þ.e. bílnum og allt vonandi í lukkunnar velstandi.

Dagbók bílsins eða krúttlegt bókhald? Já, kannski til skamms tíma en þetta spannar mörg ár! Nei, afsakið: Áratugi! Handskrifað allt heila gróseríið frá árinu 1973 til 1998. Ætli fjörutíu feta gámur fylgi?

Nei, það virðist ekki vera en þetta er slatti og hér er sýnishorn (gott ef maður kann afrikaans því þá er auðveldara að skilja það sem hér stendur fagurlega ritað):

image

Þetta virðist vera ævisaga bílsins líka og hver veit nema lausnina á sjálfri lífsgátunni sé að finna inn á milli í þessum pappírum? En hér er sögubíllinn og meira um hann.

image

Brotabrotabrot af handskrifaða safninu sem bílnum fylgir. Allt skráð frá 1973 til 1998.

Bílarnir sem boðnir verða upp eru mun fleiri talsins en miðað við hversu skrautlegt allt í kringum þá virðist vera er best að taka ekki fleiri fyrir en þessa þrjá núna. Enda margt sem þarf að gera á svona föstudagsmorgni í októbermánuði.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is