Góð aukning í sölu milli ára hjá BL

Afköst í afhendingum framleiðenda smám saman að aukast

Bílasala virðist vera að taka ágætlega við sér, ef horft er til sama tíma á síðasta ári. Þetta má sjá í þeim tölum sem BL var að senda frá sér um stöðuna þar á bæ. Salan hefur aukist og eins eru merki um betri stöðu meðal bílaframleiðenda á tímum covid og vandræðum vegna framboðs á íhlutum, svo sem tölvukubbum og hálfleiðurum.

Nýskráðir á landinu voru 1.217 fólks- og sendibílar í september, 11,5% fleiri en í sama mánuði 2020, og voru 265 af merkjum BL sem er 21,6% aukning milli ára.

Var markaðshlutdeild fyrirtækisins tæp 21,8% í mánuðinum. Frá BL voru 173 nýskráðir einstaklingum og fyrirtækjum og 92 til bílaleiga.

image

Hyundai er lang söluhæsti bíllinn hjá BL samsteypunni. Hyundai Kona hybrid. Mynd: Pétur R. Pétursson.

Hyundai var jafnframt lang söluhæsta merki fyrirtækisins í september með 142 nýskráningar.

Bíltegundir frá BL voru jafnframt fyrirferðarmestar í innkaupum bílaleiganna í nýliðnum mánuði með 43,6% hlutdeild og á meðal nýskráninga bílaleiganna voru meðal annarra 66 Hyundai og 15 Nissan.

Næst söluhæsta merki BL í september var Nissan með alls 53 bíla og BMW og Renault í þriðja sæti með nítján bíla hvort merki.

Það sem af er árinu hafa 2.334 bílar af merkjum BL verið nýskráðir og nemur aukningin 35,8% milli ára. Hjá BL gætir loks orðið nokkuð aukinna afkasta í afhendingum nýrra bíla frá framleiðendum sem BL hefur umboð fyrir samfara aukinni framleiðslugetu íhlutaframleiðenda sem hamlað hefur mjög starfsemi söluaðila nýrra bíla undanfarin misseri.

image

Skipting nýskráninga merkja BL eftir tegundum í september samkvæmt uppl. Samgöngustofu.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is