Jæja, lesendur góðir! Hélduð þið að blaðamaður hefði gleymt sér? Lofað þriðja hluta sögunnar um starf leigubílstjórans en vonað að enginn myndi eftir því loforði? Nei, onei! Síður en svo.

Fyrri greinar um starf leigubílstjórans í fortíð og nútíð, fengu góðar viðtökur og nú er komið að síðasta hluta trílógíunnar: Þriðja og síðasta hluta.

Þar sem lengri tími leið á milli greina en til stóð í upphafi er eflaust sniðugt að vísa á þær svo lesendur þurfi ekki að moka djúpt eftir þeim, vilji þeir renna yfir greinarnar. Hér er sú fyrsta og annan hluta má nálgast hér.

Þvílíkt og annað eins „djobb“!

Það væri hreinasta vanvirðing og dómgreindarbrestur að ætla að segja frá starfi leigubílstjórans í einni hnoðhendu. Eðli starfsins, þeirra sem það stunda og þeirra sem eftirspurnina eftir starfinu skapa er sannarlega margslungin og flókin breyta.

En áður en blaðamaður missir sig í skrýtilyrðum og helberum kjaftavaðli er rétt að snúa sér að kjarna málsins. Tengingin við kjarnann að þessu sinni er helst til langsótt, en góð: Tómatsósubréf!

image

Skreppum aftur til ársins 1990. Ársins þegar RC-Cola kynnti með stolti sykurlaust RC-Cola, Högni Hrekkvísi var aðalnúmerið „með morgunkaffinu“ í Morgunblaðinu, Back to the Future III var stóri smellur kvikmyndahúsanna og nýorpinn Rúmfatalager auglýsti vatnsrúm á spottprís! Ef ekki tókst með þessu að þeyta lesendum aftur til ársins 1990 er undirrituð í vondum málum, en hvað um það!

Þegar kom að því að greiða fyrir farið með leigubílnum dró farþeginn upp nokkur tómatsósubréf og hugðist greiða með þeim.

„Þegar leigubílstjórinn bað um greiðslu í reiðufé fauk í sjóliðann og virtist leigubílstjóranum og nálægum lögreglumönnum sem hann teldi að tómatsósan væri gefin út af Seðlabanka Íslands,“ sagði í Morgunblaðinu eftir helgina.

Æji já, þetta er ekki gott. Í öllu lenda þeir nú, leigubílstjórarnir. Í hvaða starfi öðru gæti þetta gerst? Að tómatsósa bjóðist í launa stað.

Til stóð, í þessari síðustu grein, að fjalla nánar um leigubílstjóra. Þeir koma nefnilega úr ýmsum áttum!

Þingmenn, rithöfundar og grínistar

Algengara er að þekktar persónur hafi eitt sinn ekið leigubíl, þ.e. áður en þær urðu þjóðþekktar, heldur en að þekkt andlit skipti um starfsvettvang og fari að aka leigubíl. En þess eru þó dæmi.

image

Steingrímur Aðalsteinsson er einn þeirra. Þó svo að mín kynslóð kannist ekki endilega við nafnið þá eru góðar líkur að mér eldra fólk kveiki á perunni. Viðtal við Steingrím birtist í Þjóðviljanum árið 1983. Fyrirsögnin var: Þingmaður í ellefu ár, nú leigubílstjóri.

Hvað launahliðina snerti þá sagði hann að hvort tveggja væri illa borgað, aksturinn og þingmennskan: „Við fengum bara dagpeninga meðan á þingtímanum stóð. Sá orðskviður gekk um þingið að þeir væru bara fyrir eftirmiðdagskaffi á Hótel Borg en bitlingarnir væru til að lifa á,“ en á þeim (bitlingum eða aukaþóknun) hefði hann ekki haft áhuga.

Mátti skilja það sem svo að meira væri upp úr akstrinum að hafa en þingmennskunni og í heildina litið skemmtilegra að aka en sitja á þingi.  En það hafi þó verið „gaman að vera með á nýsköpunarárunum. Á öðrum tímum vorum við í stjórnarandstöðu og komum litlu fram. Það var þreytandi,“ sagði þingmaðurinn fyrrverandi árið 1983. Hann lést tíu árum síðar, þá níræður að aldri.

image

Annan rithöfund má nefna í þessu samhengi og það er Indriði G. Þorsteinsson. Hann skrifaði meðal annars bókina 79 af stöðinni sem kvikmynd var síðar gerð eftir. Fjallar sú bók, fyrir þá sem ekki þekkja, um leigubílstjóra og best að segja ekki meir...

Í ritdómi um bókina segir blaðamaður Þjóðviljans, í mars 1955, að sagan af leigubílstjóranum sé „mjög skilrík og sannferðug lýsing á lífi (einhleypra) leigubílstjóra í Reykjavík, stéttar sem ekki hefur komið mjög við sögu í bókum hingað til [...]. Höfundur hefur sjálfur eitt sinn talizt til þessarar stéttar, og hann lýsir ýmsum þáttum í lífi hennar af valdi,“ segir í greininni og í þeim orðum felst mikill vísdómur, að mati undirritaðrar.

Tilefnið var sýning á málverkum og skúlptúr eftir Grím en í greininni kom fram að listamaðurinn hefði um langt árabil unnið að myndlist „ásamt ýmsu öðru eins og til dæmis brauðstriti af ólíku tagi: Leigubílstjóri hefur hann verið og vitavörður, en hann mun einnig vera útlærður járnsmiður og jafnvel hafa sérgrein í því fagi,“ sagði þar.

Já, það er óhætt að segja að ekki er hann einsleitur, sá hópur fólks sem gegnir starfi leigubílstjóra. Síður en svo. Þar kom einmitt lykilatriði: „hópur fólks“ en það eru ekki bara karlmenn sem aka leigubílum og hér þurfum við millifyrirsögn!

Leigubílstjóri og móðir níu barna

„Mogga-Gerður“ var hún stundum kölluð, Gerður Sturlaugsdóttir, sem árið 1965 var eina konan sem ók leigubíl á öllu Suðurlandi. Í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu ​​í mars 1965 sagði m.a. að Gerður, væri leigubílstjóri á Nýju bílastöðinni í Hafnarfirði og væri „auk þess umboðsmaður Morgunblaðsins í Kópavogi og níu barna móðir. Vinnudagur hennar hefst um kl. 4 á nóttunni og lýkur oft ekki fyrr en undir miðnætti.“

Hún fór kl. 4 á nóttunni „að sækja blaðið og skipti því milli blaðberabarnanna,“ sagði þessi eljusama kona, sem mann grunar að hafi ekki alltaf vaknað úthvíld.  

Á þessum tímpunkti, árið 1965, ók Gerður spánnýjum Opel fyrir eiginmann sinn en hann hafði fótbrotnað nokkrum vikum fyrr og ekkert getað unnið. Það var þó ekki svo að þetta væri frumraun Gerðar í ökumannssætinu því áður var hún bæði leigubílstjóri og rútubílstjóri á Ísafirði. Eitt haustið hélt hún uppi áætlunarferðum milli Ísafjarðar, Önundarfjarðar og Súgandafjarðar.

Hentugt starf fyrir húsmæður

Gerður sagðist í viðtalinu, aldrei hafa ekið ókurteisum viðskiptavinum og kunni virkilega vel sig í hlutverki leigubílstjórans. Raunar taldi hún starfið geta hentað húsmæðrum einkar vel.

Þótti „alveg undur“ að kona æki leigubíl

Í gögnum um þjóðhætti á Íslandi sem Þjóðminjasafnið varðveitir, rakst undirrituð á ummæli manns nokkurs sem vert er að vitna í. Umfjöllunarefnið var akstur og ökutæki í Reykjavík um biðbik síðustu aldar. Greindi viðmælandinn, sem fæddur var árið 1913, frá því að Ford og Buick hafi þótt bæði bestir og fínastir á þeim árum og því hafi orðið til eftirfarandi vísa:

Enginn bíll er fremri en Ford,

fer því svo að vonum,

að íslensk mær og enskur lord,

aka jafnt í honum.

„Íslensk mær“ er hér lykilorðið og segir maðurinn svo: „Það var nú ekki fyrr en uppúr 1965 sem konur fóru að keyra bíla, sem heitið getur, en svona upp úr 1970 var það orðið nokkuð almennt að konur ækju bílum. Ég man það að kringum 1960 var kona sem var leigubílstjóri í Reykjavík og þótti það alveg undur,“ sagði maðurinn.

image

Hún sagðist hafa gaman af starfinu en viðurkenndi að hafa látið það pirra sig í upphafi þegar fólk kom út af skemmtistöðunum, gekk vísvitandi framhjá bíl Guðbjargar og tók næsta bíl fyrir aftan:

„Það var eins og það tryði því ekki að ég væri leigubílstjóri þótt ég væri með skiltið í glugganum,“ sagði hún og bætti að lokum við að starfið hentaði konum jafnt sem körlum.

Bíllaus leigubílstjóri

Nokkur atriði þurfa bráðnauðsynlega að vera til staðar til að leigubílstjóri geti sinnt starfi sínu. Þar má helst nefna bílinn sjálfan og farþega. Þá geta hjólin farið að rúlla.

„Það gengur nú fremur illa að reka leigubíl hérna og raunar er ég bíllaus eins og er.“

Þá hafði Árni ekið leigubíl í rúman áratug og sagði að til að byrja með hafi verið þokkalegt að gera hjá honum. „Núna er það helst ef bílar bila og fólk þarf að komast til Hafnar eða Reykjavíkur og svo sjúkraflutningar sem ég tek að mér. En ég held að ég væri helst til horaður ef ég lifði eingöngu á leiguakstrinum,“ sagði Árni sem á þeim tíma rak m.a. þrjá hópferðabíla, keyrði úr póst og fleira.

image

En...þá er komið að lokum umfjöllunarinnar um líf og starf leigubílstjórans í fortíð og nútíð. Minnst þó úr nútíð enda verðum við að eiga eitthvað eftir!

Hefur verið farið yfir það hvernig leigubílstjórar hafa í gegnum tíðina þjónustað fræga og ósnertanlega sem og þá sem enginn þekkir né vill þekkja. Sjá og heyra það sem enginn ætti að heyra eða sjá og veita nokkurs konar sálfræðihjálp.

Þá segir hann: Nú ferð þú frá stýrinu og lætur mig aka. Ég segi nei. Þá dregur hann upp skammbyssu og segir: Nú ferð þú frá stýrinu eða ég skýt þig eins og hund. [Úr fyrsta hluta]

Og rakið hversu magnaðir mannþekkjarar leigubílstjórar oft eru

Hann var í þykkum frakka og ég tók eftir því að hann var alltaf að laumast til að súpa á flösku sem hann hafði innan á brjóstinu. Ég fór því að gefa honum nánari gætur og satt best að segja leist mér ekki á blikuna þegar ég varð þess áskynja að hann var alltaf að súpa á tómri flösku. [Úr öðrum hluta]

...svo fátt eitt sé nefnt.

Ljósmyndir: Malín Brand og Unsplash

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is