Margt er nú kúnstugt í bílheimum. Til dæmis þar sem keppt er á furðulegum bílum í hringakstri og hver bíll er með hjólhýsi í eftirdragi. Hjólhýsin tætast í döðlur og allir áhorfendur virðast kampakátir.

Svo eru það „lowriderar“. Hvað er það eiginlega?  

Lowrider-bílar eru sérsmíðaðir og þeir lækkaðir (hér á landi eru bílar yfirleitt hækkaðir upp - þetta ku vera andstæðan og helst rúmlega það ef hægt væri að komast ögn undir yfirborð jarðar).

image

Eru bílarnir oftar en ekki málaðir listilega og þeir skreyttir hátt og lágt með öllu tiltæku prjáli, glyngri og glysi. Þeir „lágu“ eru gjarnan á mjög svo skrautlegum og oft æpandi felgum.

image

Ef maður er þannig þenkjandi að spyrja út í tilganginn þá er t.d. svarið sem Wikipedia gefur frekar ömurlegt: „Lowrider-bílar þjóna engum hagnýtum tilgangi.“ Skellur.

En við nánari skoðun kemur nú eitt og annað í ljós sem er ekki eins fúlt og tilgangsleysið hér að ofan.  

Ákveðin yfirlýsing, listform og vísun í uppruna

Samkvæmt Wikipediu tók „lowriderinn“ að færa sig upp á skaftið, þó ekki beint drifskaftið, upp úr seinna stríði. Í Kaliforníu. Nánar tiltekið í Los Angeles.

image

Það voru einna helst ungmenni af mexíkóskum uppruna (Mexican-American) sem fóru að rugla í hlutföllum, lækka bíla og svo var aðalatriðið að aka nógu brandskoti hægt eftir götunum á þessum niðurdregnu ökutækjum.

Einkunnarorðin voru: Low and Slow

Það, að mála bílinn, breyta honum og aka öðruvísi en aðrir í umferðinni var eins konar uppreisn gegn hinu hefðbundna mynstri. Að gera hlutina eftir eigin höfði og láta skoðanir annarra lönd og leið. Að „aka á móti umferðinni“ var í raun inntakið. Þ.e. að synda gegn straumnum.

image

Bílarnir (og menningin sem skapast hefur í kringum þá) eru í raun tjáningarform sem varpar ljósi á lífsstíl og viðhorf ákveðins hóps bílafólks. Og um leið er þarna oft að finna skírskotun í upprunann, þ.e. Mexíkó.

image

Tengingin við hinn mexíkóska uppruna og arfleifð sést „aðeins“ þegar þessi bíll er skoðaður. Myndir eru úr meðfylgjandi YouTube myndböndum

Bannað að lækka

Við þessum óþægindum var auðvitað brugðist af löggjafanum og árið 1958 tók gildi í Kaliforníu lagagrein sem bannaði akstur visst lágra bifreiða. Endilega smellið á hlekkina til að fræðast nánar um þetta.

Ekki leið á löngu þar til leið framhjá þessum leiðindum var fundin.

Maður að nafni Ron Aguirre fann út hvernig hægt væri að hækka bílana og lækka eftir „þörfum“ með vökvadælum. Og það með einum rofa!

Vaxandi vinsældir hinna lágu

Ótrúlegt en satt (fyrir okkur sem búum í landi hraðahindrana og vondra vega) þá hafa vinsældir bíla á borð við „lowrider“ farið vaxandi á síðustu áratugum.

image

Ekki veit maður hvort blessuð konan þarna aftur í er þar til að þyngja bílinn að aftan en kannski gerði hún bara eitthvað af sér...

Rapparar, hipp-hopparar og fönk-hvaðþettanúheitiralltsaman fóru að hampa þessum sérstöku bílum upp úr 1990. Tónlistarmyndbönd hafa eflaust hjálpað til við kynningu „lowridera“. Vinsældirnar bárust alla leið til Japan og í kringum aldamótin seldust bílar af í þessum útfærslum eins og ylvolgar eplaskífur í Japan. Enn eru lowrider-ar vinsælir í Japan þótt vinsældirnar hafi dvínað til muna síðustu ár.

Háir sem lágir á meðal þeirra lægstu

Til eru fjölmargir flokkar innan þess grunnflokks sem best er að kalla „lowrider“. Reyndar kom einhver með góða tillögu inni á Nýyrðavef Árnastofnunar um íslenskt heiti:

Lágfari. Það þykir undirritaðri ljómandi gott orð! Hægfara lágfarar.

Rétt eins og orðið „lowrider“ getur orðið lágfari bæði vísað til ökutækisins eða ökumanns. Ökutækin, jú, það er lágt undir þau en samt getur orðið líka vísað til þeirra sem má bæði hækka og lækka í snatri.

image

Þannig má eiginlega segja að til séu háir „lowriderar“. En það er kannski fullmikil einföldun á þeim ýmsu flokkum lágfara. Best að fjalla um það síðar ef áhugi er til staðar hjá lesendum.

image

Í augum sumra minnir þetta kannski á gíraffa sem einhver er hálfnaður við að snúa úr hálsliðnum…

image

Pallar eða hús aftan á bílum skjótast upp í loft og til hliðar eins og biluð tívolítæki. Og það er töff að „þríhjóla“ um leið.

image

Stundum stendur bílstjórinn eða eigandi fyrirbærisins fyrir utan það og stjórnar tívolíinu með fjarstýringu. Það skilur maður vel því erfitt hlýtur að vera að verða ekki hryllilega veikur í þessum byltum, vaggi, veltum og hamagangi.

En þó maður skilji kannski minna en ekki neitt í þessu þá er samt gaman að sjá eigendurna. Svo stolta að sýna tívolítækin sem þeir hafa smíðað og gefið allt sitt í.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is