Fyrir fáeinum vikum síðan lýsti undirrituð í grein nokkurri eigin skilningsleysi þegar kemur að keppni í hringakstri ökutækja með hjólhýsi í eftirdragi.

image

Nú veit ég hins vegar meira um málið og verð að deila þessum nýfengna „skilningi“ með þeim sem lesa vilja: Caravan banger racing nefnist það þegar ekið er á þar til gerðri „keppnis“braut hring eftir hring með hjólhýsi. Gangur keppninnar þessi:

Að klessa á hjólhýsi annarra keppenda og sá vinnur sem enn dregur hjólhýsi þegar öll önnur eru alveg í klessu.

Hjólhýsalullurum rutt úr vegi

Ég skil þetta upp að vissu marki en við skulum orða þetta svona: Sumt er meira til gamans gert þó svo að orðinu „keppni“ sé skeytt við það sem um ræðir. Á bresku vefsíðunni Caravan Times er hjólhýsaklessubílakeppni (gott orð, ekki satt? Þjált og fallegt. Allar tillögur samt vel þegnar) og tilurð slíkrar keppni útskýrð á nokkuð skemmtilegan hátt:

„Oftar en ekki eru hjólhýsi í umferðinni litin hornauga því þau fara pínlega hægt yfir, tefja aðra og takmarka útsýni bílstjóra, farþega og já bara allra í kring. Við á Caravan Times erum á öndverðum meiði hvað þetta varðar og bjóðum ykkur velkomin í hinn sturlaða heim hjólhýsaklessubílakeppninnar. Keppninnar sem sýnir og sannar að hjólhýsin eru ekki bara leiðinleg og pirrandi.“

Við skulum ekkert eyða löngum tíma í það að skýra muninn á svona keppni í Bretlandi annars vegar og Bandaríkjunum hins vegar. Auk þess er keppt í þessu víða, t.d í Hollandi og í Svíþjóð.

image

Til að kóróna léttleika keppninnar eru veitt verðlaun fyrir ýmislegt; ekki bara fyrir að stúta hjólhýsum andstæðinganna. Verðlaun eru t.d. veitt fyrir frumlegasta bílinn, besta ökutækið og það sjaldgæfasta.

image

En fyrst og síðast er markmiðið að fá áhorfendur til að emja af hlátri. Því hláturinn lengir jú lífið og stundum þarf bara að stytta ljót og lúin hjólhýsi til að lengja líf manna.

Hér fyrir neðan er örstutt myndband sem er afar gott dæmi um hversu vel áhorfendur skemmta sér á keppninni. Maðurinn sem tekur þetta upp hlær svo mikið að hann getur varla haldið á símanum sínum. Enda eru þríhjólabílar af hinni alræmdu gerð, Reliant Robin, að keppa hér og það er auðvitað hrikalega fyndið:

Þessi furðulegheit eru ekki ný af nálinni en hér fyrir neðan er myndband frá keppni árið 1981:

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is