Það er ekki bara í Andrésblöðum sem keppt er í kappakstri aftur á bak. Það hefur nefnilega líka verið gert í „hinni“ veröldinni. Þ.e. í raunveruleikanum. Allt sem gat klikkað, klikkaði í svona kappakstri en útkoman var oftar en ekki óheyrilega fyndin sýning!

Hin óviðjafnanlega CVT skipting

Nú hefur undirrituð fjallað dálítið um óhefðbundnar akstursviðureignir og það sem er á jaðri þess að mega kallast sport (næstum jaðarsport) og þá má til dæmis nefna hina stórfurðulegu hjólhýsaklessubílakeppni.

„Bíll með svona sjálfskiptingu [Variomatic] gat komist jafn hratt aftur á bak og áfram! Fyrr á árum fór fram árleg kappaksturskeppni í Hollandi þar sem ekið var afturábak! DAF var settur í sinn eigin flokk vegna þessarar sjálfskiptingar enda hefðu hinir bílarnir ekki átt séns með hefðbundinn gírkassa eða sjálfskiptingu.“

image

Hollendingurinn bakkandi

Rúllum aftur í tímann til svona 1987, alla leið til Hollands. Landsins sem frægt er fyrir ýmislegt fleira en túlípana og hjólreiðar. Mekka „afturábakkappaksturs“, DAF og CVT skiptinga.

Upphaf kappakstursins aftur á bak má rekja til níunda áratugar síðustu aldar. Hollendingar kepptu fyrst í afturábakkappakstri á Dutch Zandvoort brautinni í Norður-Hollandi.

Hvaða Hollendingur átti hugmyndina, liggur ekki ljóst fyrir, alla vega ekki í fljótu bragði en það sem máli skiptir er að kappaksturinn varð mjög vinsæll. Áhorfendur sem fylgdust með á staðnum eða í gegnum sjónvarp skemmtu sér konunglega en annað eins „kaos“ á keppnisbraut hafði varla sést áður!

image

Allt fór í vitleysu í keppninni þar sem bakkað var til sigurs. Þetta reyndi verulega á bílstjóra og ekki tókst samhæfingin vel hjá öllum. Mynd/skjáskot úr meðfylgjandi myndbandi.

Sem fyrr segir gat DAF með CVT skiptingu ekið á jafn hratt afturábak og áfram. Við bestu aðstæður komst hann því upp í 130 km/klst og það er eflaust spes að fara afturábak á þeim hraða og reiða sig á spegla eða það að horfa yfir öxlina á sér með tilheyrandi ávísun á hálsríg.

Þetta er óheyrilega fyndið að mati þeirrar er hér leikur á lyklaborðið hljóðlausa. Það er greinilega ekki á allra færi að bakka, eins og við vissum reyndar fyrir, og ekki skánar það þegar hraðinn er orðinn eins mikill og í svona keppni.

Og hér, í myndbandinu fyrir neðan, fer bókstaflega allt í vitleysu. Keppnishaldarar höfðu komið fyrir hindrunum og stökkpöllum á brautinni og gert það sem áður var erfitt, tjah, næstum ómögulegt!

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is