Jæja, það kom þá að því. Hann er fundinn, og ég vissi ekki að ég væri að leita að honum. Nóg um það! Citroën 2CV rallýbíll: Fórhjóladrifinn, sögufrægur og alls konar fleira. Hann er til sölu.

Hvað sem manni kann að finnast um bílinn þá vekur hann óneitanlega athygli hvar sem hann „er“ eða fer um. Ég skrifaði „er“ því við eigum rallýbíl sem stendur, og hefur gert í nokkurn tíma, úti í garði og þar vekur hann eflaust athygli, en ekki þá athygli sem æskileg er.

image

Hvaða vitleysa er þetta eiginlega?

Já, hvaða ekkisens bull og þvæla er þetta? Ætlar manneskjan að fá sér annan bíl í garðinn? Nei, það er nú ekki á dagskrá og ekki heldur að fá sér annan rallýbíl og setja hann í skúrinn. Ekki núna. En maður má nú láta sig dreyma smávegis.

Fyrir utan að ég er ekki viss um að þessi tiltekni Citroën 2CV verði eins fagur á að líta t.d. eftir eitt meðal rall um Djúpavatn.

Jú, og ekki má horfa framhjá því að bíllinn er með tvo mótora og því ekki löglegur í keppni hér en engu að síður fallegt eintak í rallýbílasafnið hjá einhverjum!

image

Frá Morokkó til Kanada og þaðan inn í hlöðu…

Þessi forni franski foringi á sér sögu, rétt eins og allir rallýbílar sem keppt hefur verið á. En byrjum á byrjuninni:

image

Segir m.a á þessari vefsíðu hér að vinnustundirnar við smíði bílsins hafi alls verið 3000 og útkoman var m.a. fimmfalt afl miðað við upphaflega bílinn, en áður var bíllinn bara „venjulegur“ 26 hestafla 2CV. 130 hestöfl er hann og sem fyrr segir eru vélarnar tvær.

Að smíði lokinni, segir á vefnum sem vísað var í, á Hanon að hafa farið að Eiffelturninum og hringsólað þar í leit að styrktaraðilum. Það virðist ekkert hafa verið auðveldara þá en í dag, þ.e. að fá styrktaraðila, en að lokum birtist einn styrktaraðili og það var nærfataframleiðandi, segir sagan sú.

Hvað sem því líður þá keppti Hanon á bílnum sínum í hinum ýmsu röllum, þar á meðal í óbyggðum og eyðmörkinni í Norður-Afríku og Moroccan Atlas rallinu.

image
image

Eftir að hafa keppt á þessum slóðum rúman áratug hefur Hanon greinilega ákveðið að þetta væri bara orðið gott því hann seldi bílinn og dó. Hið síðarnefnda var vonandi ekki fyrirfram ákveðið en þannig var þetta nú bara, eins fúlt og það kann að vera.

image

Bíllinn sást ekki í rúm tuttugu ár. Ekki fyrr en árið 2014 þegar einhver „fann“ hann í gamalli hlöðu. „Lendið“ þið oft í þessu? Að hreinlega „finna“ gamla bíla? Jæja, ég skil þetta kannski þegar ég verð enn stærri.

image

Á þvælingi um álfuna

Bandarískur arkitekt og bílaáhugamaður keypti hlöðubílinn og lét senda hann til Citroën Andre í Hollandi. Þar var heysátunum blásið burt og bíllinn gerður klár fyrir sölu í Evrópu.

image

Fær maður ekki betur séð en að bíllinn hafi flakkað (örugglega á fleygiferð)  á milli uppboða síðustu árin. Dálítil leit á veraldarvefnum leiðir það í ljós.

Selst hann í kvöld?

Það verður gaman að sjá hvort einhver kaupi bílinn í kvöld en fyrirtækið Collecting Cars annast uppboðið. Því lýkur klukkan 19:50 og þegar þetta er skrifað er hæsta boð í þann franska 8.000 pund eða um 1.400.000 íslenskar krónur.

image

Hann er svo ólmur að fara af stað að það þýðir ekki annað en að setja múrstein við dekkið því annars væri hann eflaust þotinn af stað.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is