Ljúfur í akstri, orkumikill og sprettharður

    • Þegar aldursforseti íslenskra bílablaðamanna fær sér rafbíl

Margir lesenda okkar þekkja til Sigurðar Hreiðars – aldursforseta íslenskra bílablaðamanna, sem byrjaði að fjalla um bíla í febrúar árið 1961, þannig að hann hefur trúlega prófað og skrifað um fleiri bíla en flestir aðrir hér á landi á þeim rúmlega 60 árum sem liðin eru frá því hann hóf feril sinn.

Sigurður Hreiðar var gerður á heiðursfélagi Bandalag íslenskra bílablaðamanna (BÍBB) á síðasta ári.

En við höfðum spurnir af því í loka síðasta árs að Sigurður hefði látið verða af því að fá sér rafbíl, og báðum hann að lýsa reynslu sinni af þessum skiptum

Gefum Sigurði Hreiðari orðið:

Ég hef átt marga bíla um dagana. Fæstir þeirra hafa verið sparneytnir á eldsneyti og sumir svo eyðslusamir að ég lét þá fara þess vegna.

Í orði kveðnu, amk. Þrátt fyrir að hafa tekið námskeið í sparakstri hef ég alltaf verið þurftafrekur á eldsneyti, hvort sem það heitir bensín eða dísil.

Og ekki endilega gert mér stóra rellu af eldsneytiseyðslunni nema svona rétt á meðan ég stóð við dæluna. Til þess að bíllinn þjónaði mér þurfti ég einfaldlega að fylla á hann.

Rétt að taka fram að þetta voru ekki tengiltvinnbílar, phjúh!

Ég hugleiddi þann möguleika. En, úr því maður væri að basla með rafknúna bíla á annað borð, hvers vegna ekki bara 100% rafmagn? Hálfkák í þá áttina – var maður ekki eftir sem áður með ókosti og viðhaldskostnað brennslumótorsins? Olíuskipti, tímareim, viftureim, kveikjubúnað, vatnskassa sem þurfti frostlög, og hvað þetta nú heitir allt saman?

Núna var röðin komin að Mercedes Benz

Svo 100% rafmagn varð ofan á. Skoðaði ekki marga, kannski þrjár þekktar gerðir – þar af eina aðeins lauslega – en þegar ég skoðaði tegundina sem ég keypti fannst mér ég ekki þurfa að skoða meira.

image

Óneitanlega snotur bíll útlits og fyrir gamla bílakarla skiptir nokkru máli að hann er með grill, ekki bara lokaður að framan með blikkplötu.

Ég er ekki búinn að eiga hann lengi né aka honum mikið. Samt nóg til að líka alveg prýðilega við hann. Ljúfur í akstri, orkumikill og sprettharður ef ökumanni býður svo við að horfa.

Liggur eins og best verður á kosið en ekki tiltakanlega þýður á vondum vegi.

Þeim fer – sem betur fer – fækkandi. Hljóðlátur, kannski dulítill sónn í naglalausu Michelin dekkjunum sem ég valdi undir hann. Enda ekkert annað hljóð til að deyfa dekkjasönginn. Fullur af allskonar tæknibúnaði sem ég er ekki nærri búinn að læra á.

image

Svo er hægt að fá sérstakan kapal til að hlaða úr heimainnstungu ef maður hefur nógan tíma – og hefur lært að láta bílinn sjálfan stilla straumstyrkinn inn á sig. – Svona kapall kostar nokkuð en fylgir sumum tegundum rafbíla.

Þörf á kennslu um það að hlaða!

Raunar er það nokkuð sem bílaumboðið – í mínu dæmi, amk – hefði mátt gera dálítið betur betur – kenna á hleðslumálin, sem ég efast um að nokkur sem kaupir rafbíl í fyrsta sinn kunni nokkuð á eða hafi hundsvit á.

Ég talaði við nokkra sem líklegir voru til að selja svoleiðis kapal, sem er sko hreint engin venjuleg framlengingarsnúra.

Fékk að vita að menn eru ekkert ginnkeyptir fyrir að selja þess háttar gripi sem geta, ef ógætilega er farið, valdið íkveikju. Af því nýgræðingar kunna gjarnan ekki á því skil að mikilvægt er að stilla bílinn sjálfan á amperafjöldann í viðkomandi hleðslu.

Hve margir nýir rafbílakaupendur hafa af sjálfu sér vit á því?

image

Hleðslustöðvar eru víða á Faxaflóasvæðinu og fer fjölgandi út um land.

Vitaskuld fylgir MB EQA notendahandbók, hvað annað? 477 síður í brotinu 21x10 sm. Upphafsorðin í lauslegri þýðingu: Lestu þessa notendahandbók vandlega áður en þú ekur af stað í fyrsta sinn og kynntu þér farartækið til hlítar.

Bót í máli raunar að einnig fylgja nokkrir smábæklingar í sama broti sem fara yfir afmörkuð atriði.

image

Skottið er þokkalega rúmgott, enda ekkert verið að splæsa plássi á varadekk. – Hér sést í hleðslusnúruna sem fylgir og er nauðsynleg ef maður ætlar að versla við tilfallandi hleðslustöðvar. Nema svokallaðar hraðhleðslustöðvar, þær leggja til sinn kapal.

En að nöldri slepptu: gírskiptingar eru fábrotnar. Afturábak, hlutlaus, áfram, stöðugír (park). Sumpart svona eins og afturhvarf til High and Low í T-fordinum hjá Henry gamla, nema mun auðveldara í umgengni. Bara að muna að standa á bremsunni meðan gírskipti fara fram.

image

Hér sest maður beint inn í bílinn – ekki ofan í hann.

image

Rauðnefur nýr - Lukkulegur eigandi tilbúinn að aka heim.

Afar ánægður með gripinn

Þegar öllu er á botninn hvolft er ég afar ánægður með gripinn, þrátt fyrir nöldrið hér að framan.

Miðstöðin er kafli út af fyrir sig, blæs umbeðnum hita eftir svo sem hálfa mínútu, enda þarf ekki að bíða eftir að eitthvert vatnsglundur hitni.

Ekki má gleyma því hve vel fer um mann í sætunum og að maður sest inn í bílinn, ekki ofan í hann. Það er nokkuð sem hefur vaxandi vægi eftir því sem skrokkurinn verður eldri.

Önnur grein eftir Sigurð Hreiðar: Fjallabílstjórinn Páll Arason

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is