„Einhver sem vill skella sér aftur í? Eða upp á þak?“ spurði bílakarlinn Bandaríkjaforseti svellkaldur í nýpressuðum jakkafötunum nokkrum sekúndum eftir að hann prófaði „launch control-ið“ á nýjum rafdrifnum Hummer í síðustu viku.

image

„Launch control“ hefur lengi verið nefnt spyrnustýring af mætum bílablaðamönnum og þykir mér það býsna gott orð. Fyrst minnst er á góð orð þá hefur undirrituð aðeins fjallað um miður góð orð og síst spakleg sem fyrrnefndur forseti lét falla um framleiðslu rafbíla í heimsókn í verksmiðjur General Motors í síðustu viku.

Forsetabíllinn eyðir 200 lítrum á hundraðið

Nema hvað! Það er frekar „spaugilegt“ að hugsa til þess að ökutækið sem kom honum á staðinn, Cadillac One, mallaði í gangi á meðan umhverfismálunum var gefinn gaumur og rafbíllinn Hummer EV prófaður.

image

Hér sitja forsetahjónin inni í Cadillac One og eldur og brennisteinn af himnum ofan myndi ekki svo mikið sem narta í þennan bíl. Hann er í raun skotbyrgi á hjólum. Mynd/Hvíta húsið

Forsetabíllinn er í raun og veru skotbyrgi á hjólum sem vigtar tæp 9 tonn og til að koma bákninu áfram er notast við sex strokka túrbó dísil vél. Sökum þyngdar ökutækisins er því talið nokkuð víst að eyðslan sé ógurleg, eða allt að 2 lítrar á kílómetra! Það gerir 200 lítra eldsneytiseyðslu á hverja hundrað kílómetra.

The Beast mengar eins og skepna

Bíllinn hefur verið kallaður „The Beast“ eða „Skepnan“ vegna stærðar hans. Og Skepnan er aldrei ein á ferð því eins bíll (hin Skepnan) er iðulega með í för til öryggis. Því má segja „sinnum tveir“ um allar tölur sem hér koma fram (ath. að í myndbandinu hér fyrir neðan er „hin Skepnan“ ekki á eftir forsetabílnum heldur sambærilegur bíll með Chevrolet merki).

image

Upplýsingar um hvert CO2 gildið er í útblæstri Skepnunnar liggja ekki á lausu, enda sérsmíðað fyrirbæri með ýmis gildi sem framleiðandinn vill örugglega ekki hafa hátt um. Á síðunni sem vísað er í hér kemur fram að miðað við stærð, vél og það sem vitað er um Skepnuna, megi gera ráð fyrir að útblástursgildið sé um 2.5 kg af CO2 á kílómetra.

Og hver framleiðir Cadillac? Rétt! Enginn annar en GM (General Motors Company).

Nóg er að horfa á fyrstu 1:30 í meðfylgjandi myndbandi til að sjá og heyra það sem getur varla kallast annað en gríðarlegt misræmi á milli þess sem annars vegar er boðað og hins vegar gjörðanna.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is