Henry Ford var hugsi eftir að hafa skoðað kjötvinnslu nokkra í Chicago í llinois, þar sem kjöt var unnið og því svo pakkað. Hann var ekki hugsi vegna gangs lífs og dauða, og hvorki var hann grænmetisæta né vegan.

image

Heimsóknin í kjötvinnslu Swift & Co. var nú bara býsna góð þegar allt kom til alls.

Nei, það var pökkunarhluti kjötvinnslunnar sem átti hug hans allan eftir heimsóknina. Þar var tæki á gólfinu miðju og þetta tæki snéri breiðu belti á keflum. Færiband. Beggja vegna beltisins stóð fólk og vann sína vinnu og á meðan hreyfðist beltið og það sem á því var. Fullt af fólki en allir kyrrir á sínum stað.

image

Henry hinn hugsi spurði sjálfan sig að því hvort ekki mætti útfæra nákvæmlega sömu hugmynd og kerfi fyrir bíliðnaðinn. Færibandið.

Rúmar 12 stundir að setja saman bílinn

Þetta var árið 1912. Þá voru fjögur ár liðin síðan Ford Model T kom á markað. Rúmar 12 klukkustundir tók að setja einn slíkan bíl saman. Engan veginn tókst að anna eftirspurninni og stöðugt lengdust biðlistarnir eftir Ford T; bíl sem þá kostaði mikið og því aðeins þeir efnameiri sem höfðu ráð á að eignast bíl.

Það var alls ekki það sem Henry Ford ætlaði sér í upphafi. Hug­mynd hans var að fram­leiða bíl sem al­menn­ing­ur hefði ráð á að kaupa.

image

Nákvæm eft­ir­lík­ing af fyrsta verk­stæði Ford þar sem smíði á Ford Qua­dricycle fór fram. Myndin er tekin í Greenfield Village í Dearborn, Michigan. 

Þannig kom kjötvinnslan með lausnina

Eftir heimsóknina góðu í kjötvinnsluna fór Henry Ford að reikna. Útkoman var betri en hann hafði þorað að trúa. Ef hugmynd hans um færibandið í bílaverksmiðjunni myndi ganga upp þá yrði hægt að stytta biðlistann eftir Ford T töluvert.

Hefst nú ferðalagið eftir færibandinu!

image

Það var á nákvæmlega þessum degi, þann 1. Desember, fyrir 108 árum sem færibandið tók að „rúlla“ í Fordverksmiðjunni í Highland Park. Þetta var fyrsta bílafæriband veraldar. Með öðrum orðum þá var Ford T fyrsti fjöldaframleiddi bíll í heimi.

Úr rúmum tólf stundum í…

Það breyttist margt í kringum þennan dag árið 1913 og skyndilega gerðust hlutirnir óskaplega hratt. Að setja einn Ford T saman tók þá klukkustund og þrjátíu og þrjár mínútur.

image

Biðlistar styttust ...

image

Og almenningur gat eignast bíl án teljandi vandræða.

image

Árið 1927 horfði Ford sjálf­ur á fimmtán millj­ón­asta ein­takið trilla út úr verk­smiðju sinni og var harla glaður. Mark­miðinu hafði verið náð og banda­rískt sam­fé­lag hafði tekið stakka­skipt­um fyr­ir vikið.

image

Hundrað árum eftir að Ford tók færibandið í notkun, það er að segja árið 2013, hafði samsetningartíminn styst verulega. Þá voru að meðaltali 16 bílar framleiddir á 60...sekúndum í verksmiðjum Ford um allan heim.

image

Í dag, eru tölurnar enn aðrar en stoppum samt hér, og árið er kannski 2013 þar sem meðfylgjandi myndbandi lýkur, en það breytir því ekki að í dag er líka afmælisdagur bílafæribandsins!

Myndir: Ford og Malín Brand (þ.e. þessi eina mynd úr nútímanum!)

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is