Leyfið mér að kynna Jimmy.

Jimmy er frá Kanada og er mikill Elon Musk aðdáandi. Hann keypti sér splunkunýja Teslu Model 3 og fékk hana afhenta í lok október í fyrra (2020). Ég þekki Jimmy þennan ekki neitt en er þó ein af fáum sem „fylgja“ honum á Twitter og YouTube.

Fyrst við skrifuðum dálítið um „útilegugræjuna“ Teslu í morgun, þá er um að gera að fylgja því eftir með „heimilinu“ Teslu.

image

Svo margt í lifi Jimmys snýst um Tesla og Elon Musk. Skírskotanir hér og þar, eins og númerið (hlekkur fyrir neðan) og SN8. Skjáskot/Twitter/@ohjimme

Einkanúmerið á bílnum hans Jimmy er TSLA420 enda mikill Teslu-karl. Hann deilir á YouTube-rás reynslu sinni af því að búa og flakka um í Teslunni. Hann deilir upplifunum sínum, gleði og áhyggjum. Samt veit maður eiginlega ekki baun um þennan einmanalega náunga. Nema að hann lagði fyrir aur og sagði upp í vinnunni til að geta gert nákvæmlega þetta: Búið í bílnum í eitt ár og ferðast. Aleinn.

image

Græjur og myndavélar sýna íbúann, Jimmy, frá mörgum sjónarhornum. Skjáskot/YouTube/LivinginTesla

Myndböndin hans eru nokkuð góð og hann er með ljómandi fínar græjur til að taka upp. Hér er listinn yfir allan búnað, tæknibúnað og bara allt heila klabbið sem hann á, sem er alveg hellingur.

Hvað er Jimmy að reyna að segja?

Það sem er svo einkennilegt er hve afskaplega fáir gefa þessu uppátæki hans nokkurn gaum. Í raun og veru virðist hann ósýnilegur, þrátt fyrir (að því er virðist) stór áform í upphafi. Allt er alveg þaulhugsað og undirbúningurinn næstum eins og fyrir geimferð.

Ískaldur og hálfgrátandi settist hann á klöpp, leyfði skrokknum að þorna í sólinni og hugleiddi uns hann náði valdi á eigin þankagangi. Í myndbandinu má sjá hann nánast ganga sér til húðar.

Nei, í alvöru þá náði hann því mjög svo varasama stigi sem kallast ofkæling. Þetta var allt gert í þeim tilgangi að búa sig undir komandi kalda mánuði; vetrarkuldann í Teslunni. Jú, og til að sigrast á einhverjum djúpstæðum ótta.

image

Hann er kannski ekkert augnayndi en það er alveg merkilegt hve fáir hafa þó horft á Jimmy skora sjálfan sig á hólm og „sigrast á eigin ótta“ eins og hann orðar það.

Hann virkar dálítið spes, blessaður strákurinn þar sem hann paufast úti í frostinu með grímuna á sér, gleraugun mikið til þakin móðu, og hann að kvikmynda sjálfan sig við bílinn. Og sér væntanlega ekki glóru auk þess sem hann er krókloppinn í kanadískum brunagaddi.

image

Það er er oft erfitt að vera með grímu og gleraugu í frosti út af móðunni. Ekki virðist það þó pirra okkar mann vitund.

Það þarf sko alls ekki að vera neikvætt að vera spes; í mjög mörgum tilvikum er það í góðu lagi á meðan enginn hlýtur skaða af. Og er undirrituð sannfærð um að hann Jimmy sé bara spes á jákvæðan hátt. Það er bara eins og hann vilji segja eitthvað rosalega merkilegt með þessum gjörningi sínum en komi engan veginn orðum að því. Hvað sem það er...þá hefur það ekki komist almennilega til skila í myndböndunum á þeim 9 mánuðum sem liðnir eru af lífi Jimmys í Teslu.

Kannski bara...

En kannski er það nú einmitt málið. Hann komst að einhverju rosalega merkilegu, leysti jafnvel lífsgátuna en þar sem enginn hefur áhuga á þessu þá skiptir það engu máli, svo framarlega sem hann er sæll, kátur og sáttur í eigin skinni. Hann hefur í það minnsta deilt einveru sinni á internetinu og allir sem vilja upplifa einveru annarrar manneskju fá hér einstakt tækifæri til þess.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is