Nei, það gerðu heldur ekki margir árið 1998 nema kannski einhverjir í Alsír. Þaðan sem ökukapparnir og kappakstursbræðurnir Ralf og Michael Schumacher koma nefnilega. Alla vega að sögn málgagns alsírsku ríkisstjórnarinnar.

image

Að morgni mánudagsins 2. nóvember 1998, daginn eftir að Mika Häkkinen varð  heimsmeistari í Formúlu 1, birtist undarleg frétt í blaðinu El Moudjahid í Alsír. Blaðið, sem var málgagn alsírsku ríkisstjórnarinnar, hélt því fram fullum fetum að bræðurnir Ralf og Michael Schumacher væru hreint ekki eins þýskir og margir héldu. Þeir væru nefnilega frá Alsír.

Fæddir í bænum Blida í Alsír

Skammt frá sjálfum Atlasfjöllum er bærinn Blida. Hann er í tæplega fimmtíu kílómetra fjarlægð frá höfuðborg Alsírs, Algeirsborg. Þetta mun vera hinn huggulegasti bær og rósarækt er þar mikil.

Og þar slitu þeir barnsskónum.

image

Rúm sex ár eru á milli bræðranna sem fæddir eru 1969 og 1975. Þarna eru þeir litlir guttar, sennilega bara heima hjá sér í Þýskalandi.

Móðirin þurfti að breyta nöfnunum

Samkvæmt frétt blaðsins var hin þýska móðir þeirra gift Alsíringi. Fengu drengirnir nöfnin Farouk og Hassan. Þegar faðir þeirra Farouks og Hassans dó flutti móðir þeirra með þá til heimalands hennar, Þýskalands.

image

Bræðurnir í gókart. Faðir þeirra, Rolf Schumacher, hjálpaði strákunum af stað en báðir byrjuðu ungir að aka gókartbílum. Michael byrjaði um 6 ára og Ralf enn fyrr.

Núnú, nema hvað að hún lét breyta nöfnunum í einhver svona tiltölulega þýsk nöfn og fékk Farouk, sá eldri, nafnið Michael en Hassan, litli guttinn, nafnið Ralf.  

Ekki grín heldur staðreyndir

Víða var greint frá þessari frétt á sínum tíma, enda stórfrétt sem blaðamaður El Moudjahid sagðist heldur betur hafa þurft að kafa eftir. Sú vinna tók hann margar vikur. Þá hlaut það að vera almennileg rannsóknarblaðamennska! Fyrst þetta tók nú margar vikur!

image

Bræðurnir, sem báðir kepptu í Formúlu 1, hafa eflaust skemmt sér álíka vel og á þessari stundu þegar þeir fengu fréttirnar um eigin uppruna. Alsírska upprunann.

Þessi frétt rataði meira að segja í Morgunblaðið. Þegar heimspressan hafði samband við málgagn alsírsku ríkisstjórnarinnar sagði talsmaður þess að hvorki væri um grín að ræða né platfrétt heldur hreinar og klárar staðreyndir.

Þá hló Michael Schumacher

Það mun víst hafa verið svo að Michael, (eða Farouk?) hafi hlegið dátt þegar honum barst þessi stórfrétt til eyrna. Hann gantaðist með þetta og fannst þetta mjög fyndið. „Því næst fór hann í hádegismat með Jean Alesi, sem krafðist þess að fá að kalla hann Muhammad,“ sagði í fréttum tveimur dögum síðar.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is