Fer það betur með sjálfskiptinguna að skipta í hlutlausan á umferðarljósum en að leyfa bílnum að malla í „drive“ meðan beðið er eftir grænu ljósi? Það er sannarlega góð spurning en Bílablogg fékk þessa klassísku spurningu frá einum lesanda. Lítum nánar á málin!

Líklega fer það betur með sjálfskiptinguna að láta hana vera í D („drive“) á umferðarljósum. Þ.e. ef mótorinn hegðar sér eðlilega (er ekki að ganga óeðlilega hratt í lausagangi) og sjálfskiptingin og hemlarnir eru ekki að berjast á móti hvort öðru.

Flestir sjálfskiptir bílar sem framleiddir hafa verið síðustu áratugi eru búnir sjálfskiptingum sem gefa nánast ekkert átak í lausagangi. Þá er ekkert átak inni í sjálfskiptingunni og það reynir lítið á aðra hluti eins og liði í sköftum og öxlum. Þetta veldur ekki heldur neinni umfram eyðslu að ráði.

image

Beðið á ljósum. Mynd/Unsplash

Þegar oft er verið að skipta um gír t.d. úr D í P eða N og aftur til baka í D þá myndast vægt högg á mismunadrif og öxul- og drifskaftsliði sem gæti með tímanum mögulega valdið sliti á þeim hlutum. Þá eru líka hreyfanlegir hlutir inni í sjálfskiptingunni sem slitna náttúrulega því fyrr sem þeir eru notaðir meira og frekar en ef skiptingin er látin vera í D. Nema þú sért á öflugum jeppa eða á gömlum amerískum átta gata kagga þá verður höggið mögulega ansi vænt og þá er svarið við spurningunni þvert nei.

Stutta svarið er að það er ekki betra að skipta úr D í N á umferðarljósum.

Ef þú ert stopp í lengri tíma vegna t.d. umferðarteppu þá er líklega best að skella bara í P og drepa á vélinni. Það er vegna hugsanlegra hitavandamála bæði í vél og sjálfskiptingu og vegna óþarfa eyðslu og mengunar.

Fer ekki illa með hemlana að standa á fótstiginu til að halda á móti sjálfskiptingunni?

Nei, þú þarft bara létt átak til að halda bílnum kyrrum. Það verður ekkert slit á hemlunum af því bíllinn hreyfist ekkert. Undirritaður var að vinna í einum amerískum nýlegum bíl fyrir stuttu síðan en stöðuhemillinn hélt aðeins við og bíllinn fór ekki af stað í litlum halla þó sjálfskiptingin væri sett í D né R, það þurfti að gefa sæmilega inn til að koma honum af stað.

Hitnar sjálfskiptingin ekki og eyðir vélin ekki meira ef þú skilur sjálfskiptinguna eftir í D?

Nei, sjálfskiptingin er hönnuð fyrir þetta og vélin eyðir ekkert minna þó hún gangi lausagang í öðrum gírum. Ástæðan er sú að sjálfskiptingin gefur lítið eða ekkert átak í lausagangi.

En hvað með kúplingar (tengsli) innan í sjálfskiptingunni þær hljóta að slitna óeðlilega hratt þegar sjálfskiptingin er í D og bíllinn stendur kyrr?

Nei, sjálfskiptingin er ekki hönnuð þannig, það er beinlínis gert ráð fyrir því að flestir ökumenn skipti ekki úr D á rauðu ljósi í N. Það veldur meira sliti þegar kúplingin læsir og aflæsir í hvert skipti sem er skipt úr D í N og aftur til baka.

En eins og með svo margt annað þá eru örugglega til einhverjar undantekningar frá reglunni. T.d. gætu einhverjir gamlir bílar verið undantekning frá þessari meginreglu. Það væri gaman að fá að heyra ef einhver kannast við slík dæmi.

[Greinin birtist fyrst í ágúst 2021]

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is