Heildarvegalengdin sem hver og einn ökumaður leggur (vonandi) að baki í dag er í kílómetrum talin 636 og þar af er sérleiðin 255 kílómetrar. Þetta er vonandi ágætur undirbúningur fyrir morgundaginn en hann verður sko strembinn. Eknir verða alls 707 kílómetrar en sérleiðin er 465 kílómetra löng. Sú lengsta í öllu rallinu.

Í heildina verða í rallinu eknir 8.375 kílómetrar og sérleiðir sem keppt er á eru samtals 4.258 kílómetrar af heildinni.

Þetta á við um alla flokka aðra en fornbílaflokkinn (Classic). Þar er heildarvegalengdin 6.133 kílómetrar og sérleiðirnar þar af 2.612 kílómetrar.

image

Hér má sjá bíla sem keppt er á í fornbílaflokki. Mynd/@Fotop

Í dag skipta dekkin mestu máli

Ekið er fra Al Artawiyah til Al Qaisumah og rétt eins og annars staðar í eyðimörkinni mega menn búast við góðum skammti af sandi. Ef þetta væri myndskeið en ekki grein myndi óma hér undir íslenska útgáfa lagsins „Return to Sender“ sem í flutningi Hauka (hljómsveitarinnar) árið 1975 nefndist „Þrjú tonn af sandi“.

image

Það er eitthvað af sandi í eyðimörkinni. Mynd@A.S.O./F.Gooden/DPPI

Segir í upplýsingum keppnishaldara um leiðina að fyrsti hluti hennar sé nokkuð strembinn. Annar hluti virðist auðveldari, tæknilega séð, en í raun og veru skarist þarna nokkrar leiðir (kann illa við að nota orðið „gatnamót“ um eitthvað í eyðimerkurlandslagi) og því töluverð hætta á að keppendur villist, þurfi að snúa við og tapi dýrmætum sekúndum meðan þeir reyna að ná áttum.

Hér segja þeir skipta öllu máli að velja réttu dekkin til að ljúka leiðinni án andstyggilegra uppákoma.

Skemmtileg tölfræði

Tölfræði getur verið ákaflega skemmtileg, einkum og sér í lagi þegar aðrir hafa séð um útreikningana. Hér eru nokkrar skemmtilegar staðreyndir með tölustöfum og bókstöfum:

image

Mynd@A.S.O./F.Gooden/DPPI

En af ökutækjum er það að segja að alls eru þau 578 talsins: 149 mótorhjól, 21 fjórhjól, 97 bílar, 58 trukkar, 44 ökutæki keppa í T3 og 61 í T4 (flokkar skilgreindir annars staðar). Fornbílarnir eru 128 og forntrukkarnir 20.

Aðeins meira af þessari ágætu tölfræði

Frakkar eru fjölmennastir þjóða í keppninni en alls eru þeir 196, 81 Spánverji keppir og 67 Hollendingar. Annars koma þátttakendur, sem fyrr segir, frá 63 löndum (eða þjóðarbrotum - of flókið til að fjalla um í þessu samhengi).

image

Mynd@A.S.O./F.Gooden/DPPI

Ekki veit ég hvernig svona lagað er talið en keppnishaldarar segja að 4.3 milljónir manna um heim allan fylgist með Dakar rallinu og 70 sjónvarpsstöðvar í 190 löndum sýna rallið í imbakössum heimsins. Ótrúlegt en satt, þá er engin norræn stöð á listanum. Það er fúlt.

Hvað um það! Við fylgjumst með hvernig þetta fer í dag og meira um það eftir nokkur tonn af sandi.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is