Stytta þurfti akstursleið dagsins í Dakar rallinu um heila 100 kílómetra því það rigndi svo mikið! Og ég sem hélt að þarna væri bara brakandi eyðimerkurþurrkur. En nei, þannig var það víst ekki í hluta ​​Al Artawiyah eldsnemma í morgun.

image

Phillipe Jacquot kannar svæðið í morgunsárið. Enn er bleyta og sandurinn þungur. Ljósmynd/ASO / J. Delfosse / DPPI


image

Mynd/Twitter/SebastienLoeb

Á Twitter skrifaði Loeb að það hefði ekki verið neitt allt of skemmtilegt að skrönglast um sandöldurnar á framdrifinu… En þeir kláruðu.  

Húrra fyrir pabba „gamla“

Annar sem kláraði og var reyndar á undan öllum í flokknum var hinn mikli kappi; Carlos Sainz. Spánverjanum til halds og trausts var annar Spánverji en þeir Lucas Cruz eru fantafín áhöfn á splunkunýjum Audi RS Q E-tron. Sigur þeirra í dag er merkilegur í mörgum skilningi.

image

Carlos Sainz og Lucas Cruz, Team Audi Sport, Audi RS Q e-tron, Auto FIA T1 / T2. Ljósmynd: ASO / F. Gooden / DPPI

Þetta er fertugasti sérleiðasigur Sainz á Dakar rallferli hans og það er magnað! Nógu magnað þykir manni sjálfum að hafa orðið fertugur en að vera á undan öllum í þessu erfiða ralli fjörutíu sinnum hlýtur að vera algjörlega frábært.

image

Ljósmynd/ASO / F. Gooden / DPPI

Annað, algjörlega einstakt á heimsmælikvarða (er það ekki annars gildur kvarði?) er það að hafa unnið á fyrsta hybrid (tvinnbíl) dakarbíl sögunnar.

Stoltið leyndi sér ekki hjá syninum, Carlos Sainz yngri, en hann kannast vonandi sem flestir við sem ökumann hjá Ferrari-liðinu í Formúlu 1. Skrifaði hann á Twitter:

image

Já hann má vera stoltur af pápa sínum og afrekum hans í Dakar rallinu. Skjáskot/Twitter/Carlossainz55

Týndur sími og bilað hjól

Í mótorhjólaflokki er ítalskur nýliði að nafni Danilo Petrucci. Keppnin hófst vel hjá honum og hann var líklega í topp fimm þegar hjólið hans bilaði í gær (greint var frá í dag). Petrucci er sennilega enginn verkfræðingur þegar kemur að viðgerðum mótorhjóla. Í það minnsta lýsti hann sig sigraðan og kallaði eftir aðstoð keppnishaldara þegar honum varð ljóst að farsíminn var hvergi nálægur.

image

Æj æj... Ljósmynd/ASO/C. Lopez

Hann hafði týnt símanum og þar með gat hann ekki hringt í liðsmenn sína sem hefðu aðstoðað hann við að koma hjólinu í lag. Ekki nóg með að síminn væri horfinn heldur hafði Petrucci líka glatað vegabréfinu, ökuskírteininu og öllum peningum úr bakpokanum.

Petrucci er þó ekki endilega dottinn úr keppni en hann fær mikla tímarefsingu og ljóst að ekki mun hann keppa um sigur í þessari keppni.

image

Ljósmynd/ASO/G.Soldano/DPPI

Annars unnu eftirtaldir í sínum flokkum:

Mótorhjólaflokkur: JOAQUIM RODRIGUES (HERO MOTOSPORTS TEAM RALLY)

image

Rodrigues Joaquim (prt), Hero Motorsports Team Rally, Hero 450 Rally. Ljósmynd: ASO / F. Gooden / DPPI

Bílaflokkur: CARLOS SAINZ / LUCAS CRUZ (TEAM AUDI SPORT)

image

Copetti Pablo (usa), Del Amo Motorsports / Yamaha Rally Team Ljósmynd/ASO / F. Le Floc'h / DPPI

LW Proto: SETH QUINTERO / DENNIS ZENZ (RED BULL OFF-ROAD JUNIOR TEAM USA)

image

Sotnikov Dmitry (rus), Akhmadeev Ruslan (rus), Akhmetzianov Ilgiz (rus), Kamaz-Master, Ljósmynd/ASO / G.Soldano / DPPI

Til að sjá stöðuna í keppninni er best að smella hér.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is